Linda Vilhjálmsdóttir skáld og rithöfundur hefur gefið út þrjár ljóðabækur og eina skáldsögu og segist alltaf hafa litið á Silju Aðalsteinsdóttur sem guðmóður sína bæði í ljóðlist og ritlist.
Linda Vilhjálmsdóttir skáld og rithöfundur hefur gefið út þrjár ljóðabækur og eina skáldsögu og segist alltaf hafa litið á Silju Aðalsteinsdóttur sem guðmóður sína bæði í ljóðlist og ritlist.

"Ég hafði ekki ort mikið, eiginlega bara örfá ljóð, þegar ég marséraði með tvö eða þrjú þau fyrstu inn á ritstjórn Tímarits Máls og menningar og vildi fá þau birt. Ég var haldin þeirri fullvissu ungdómsins að þetta væri algerlega frábært hjá mér og eftir á að hyggja held ég að það hafi ekki hvarflað að mér að þeim yrði hafnað," segir Linda sem neitar algerlega að muna nákvæmlega hvaða ár þetta var en hún var um 25 ára þegar þetta gerðist.

"Silja tók mér afskaplega vel og lauk miklu lofsorði á ljóðin og birti þau í tímaritinu sem varð til þess að ég fór að færa henni fleiri ljóð og var eins og grár köttur á ritstjórn tímaritsins meðan hún ritstýrði því. Hún gerði meira en að hrósa mér því hún kynnti mig fyrir útgáfustjóra forlagsins og sagði að hér væri upprennandi skáld sem myndi gefa ljóð sín út hjá Máli og menningu.

Ég hef oft hugsað um það síðan hvað það var uppörvandi fyrir unga konu sem er að yrkja að hitta konu eins og Silju og er henni óendanlega þakklát. Það er meira en að segja það að koma með ljóð um sín innstu hjartans mál í plastpoka inn á eitthvert forlag þegar maður er hálfgerður krakki og alls ekki sama hvernig manni er tekið."

Linda birti ljóð í Tímaritinu og Lesbók Morgunblaðsins og þar kom að henni fannst hún vera komin með efni í ljóðabók og kom með handrit til Silju og bað hana að lesa yfir. Ritstjórinn gerði einhverjar athugasemdir og hvatti skáldkonuna áfram en Linda tók þessu fremur fálega.

"Mér fannst ég vera með fullburða handrit í höndunum og viðbrögð mín voru mjög hrokafull enda kunni ég alls ekki að taka gagnrýni á þessum árum. Ég vissi innst inni að Silja hafði rétt fyrir sér en engu að síður stakk ég ljóðunum niður í skúffu og neitaði að kannast við það að ég væri að yrkja í einhver misseri eftir þetta. Ég hafði bara gott af því að ganga í gegnum smámótlæti og 1989 kom ég með handrit til Máls og menningar og var afskaplega vel tekið og ég er sannfærð um að þar hafði Silja sín áhrif. Halldór Guðmundsson gerði bara eina athugasemd við handritið, fékk mig til að taka út setningu úr síðasta ljóðinu sem ég er staðráðin í að setja inn aftur ef þetta verður einhvern tíma endurútgefið.

Silja hefur aldrei sleppt af mér hendinni heldur fylgst með mér og skrifað um ljóðin mín og við tölum oft saman og erum góðar vinkonur. Ég hef samt ekki látið hana lesa yfir síðan ég sýndi henni handritsdrögin þarna um árið en ég fer kannski að gera það aftur.

Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju við erum svona fáar konurnar í hópi rithöfunda og skálda því ég er viss um að konur skrifa alveg eins mikið og karlar. Ég er ekki frá því að skýringin gæti verið sú að það vanti fleiri konur eins og Silju Aðalsteinsdóttur inn á bókaforlögin til að hvetja konur til dáða og sýna þeim skilning."