Hekla Dögg Jónsdóttir við verk sitt á sýningunni.
Hekla Dögg Jónsdóttir við verk sitt á sýningunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is HEKLA Dögg Jónsdóttir myndlistarmaður hefur í mörgu að snúast þessi misserin.
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is
HEKLA Dögg Jónsdóttir myndlistarmaður hefur í mörgu að snúast þessi misserin. Nú stendur yfir samsýning hennar og Jóns Óskars í Winnipeg í Kanada, í byrjun mars tók hún þátt í samsýningu í Frankfurt í Þýskalandi, í janúar var hún einn af sýningarstjórum sýningarraðarinnar Idea of North í Halifax í Kanada og eftir viku fer hún til Spánar til að undirbúa þar tvær sýningar. "Ég er aðeins of dugleg að segja já þegar ég er beðin um að sýna," segir Hekla Dögg sem er á starfslaunum úr Launasjóði myndlistarmanna í ár.

Sýningin í Manitoba-háskóla í Winnipeg hefur fengið góðar viðtökur og er Hekla Dögg ánægð með árangurinn en þar sýnir hún nýtt verk, Eldinn, eða Fire, FireFire, FireFireFire.

Sérstakt verk fyrir sérstakan stað

Verkið samanstendur af tveimur myndbandsmyndum af eldtungum sem varpað er á millivegg frá báðum hliðum. Hátölurum úr heimabíói er raðað í kringum vegginn ásamt myndbandinu. Á hvern hátalara er raðað hljóðnæmum, köldum rafskautsljósum (cold cathode ljósum) sem kviknar á við hljóð. Utan um hátalarana eru koddar sem kæfa niður hljóðið í lögunum til þess að trufla ekki nemendur sem eru að lesa í bókasafninu. Það heyrist bara rétt ómur af tónlistinni en á sama tíma er hægt að sjá taktinn í ljósunum. Tónlistin er þrjú lög sem spiluð eru aftur og aftur. Það fyrsta heitir Fire annað Fire, Fire og þriðja Fire, Fire, Fire.

Hekla segir það svolítið sérstakt að vera með sýningu í bókasafni, því þar þurfi að ríkja sem næst alger þögn. "Ég hef verið að vinna með hljóð, ljós og vídeó og ég varð að hanna verkið þannig að hljóðið truflaði ekki þá sem væru að lesa á bókasafninu. Það er svolítið sérstakt og verkið snýst um að vera með hljóð og tónlist án þess að músíkin heyrist. Ég gerði þetta verk í þessari mynd eingöngu fyrir þessa sýningu á þessum stað og þar hefur veggurinn í miðju sýningarrýmisins mikið að segja."

Óvenjulegur bálköstur

Þegar Hekla var á 2. ári í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, árið 1993, hélt hún sína fyrstu sýningu og sýndi síðan reglulega á námsárunum. Hún hefur sýnt mikið og víða eftir að hún útskrifaðist frá Listaskóla Kaliforníu í Los Angeles (California Institute of the Arts eða CalArts) 1999 og auk þess haft mikið að gera sem sýningarstjóri.

"Verkið í Winnipeg er hluti af rannsóknum mínum í myndlist," segir Hekla um flöktandi eldinn. Hún segir að í raun sé um mjög einföld ljós að ræða, ljós sem fáist í tölvubúðum, og tækni sem allir geti tileinkað sér. "Ljósin eru vinsæl hjá ákveðnum hópi fólks og eru notuð til að skreyta tölvur. Heimabíóin hafa einnig verið sérstaklega vinsæl hjá hinum almenna kaupanda vegna hljóðgæðanna og þessar staðreyndir hafi áhrif á hvernig maður skoðar verkið. Koddarnir þagga niður í hátölurunum á sama tíma og ég spila tónlist sem tendrar ljósin. Þannig verður til einskonar bálköstur í heimabíóinu, eldur í bókasafninu."

Öðruvísi skyldleiki

Sýningin í Manitoba-háskóla var opnuð 19. mars og henni lýkur 20. apríl. Hekla segir að henni hafi verið vel tekið og gestir ekki aðeins verið úr röðum myndlistarmanna og áhugamanna um myndlist heldur úr öllum stéttum. "Á Íslandi eru það fyrst og fremst fjölskyldumeðlimir og fólk tengt myndlist sem mætir á sýningar en annað er upp á teningnum í Winnipeg. Þar eru mjög margir af íslenskum ættum og Íslendingur frá Íslandi er hluti af þeim. Þó ég sé ekki skyld fólkinu er samt eins og ég sé það. Móttökurnar eru þannig."