Mynd eftir Mick Rock prýðir umslag plötunnar Space Oddity með David Bowie.
Mynd eftir Mick Rock prýðir umslag plötunnar Space Oddity með David Bowie.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er alltaf ánægjulegt að fá heimsóknir frá gömlum og góðum vinum þegar maður býr erlendis. Einn slíkur heimsótti mig og mína fjölskyldu þarsíðustu helgi og átti með okkur stutta en alveg hreint yndislega dvöl.
Það er alltaf ánægjulegt að fá heimsóknir frá gömlum og góðum vinum þegar maður býr erlendis. Einn slíkur heimsótti mig og mína fjölskyldu þarsíðustu helgi og átti með okkur stutta en alveg hreint yndislega dvöl. Eins og lög gera ráð fyrir var hann lóðsaður um heimahaga vora á fyrsta degi, Prenzlauer Berg hverfið svokallaða, gósenland listamanna og stúdenta og eitt helsta "allt að gerast" hverfi borgarinnar. Um það liggur t.d. gatan Kastanienallee, einstaklega "hipp og kúl" gata, það "hipp og kúl" reyndar að hún er komin heilhring í þeim fræðunum, þykir semsagt of svöl og stíliseruð að margra mati.

En þetta var nú útúrdúr. Þar sem við löbbuðum niður þessa götu með okkar kæra vini gengum við fram á auglýsingu frá rokkljósmyndasafni Berlínar sem er staðsett í sömu götu. Um kvöldið skyldi opnuð sýning á ljósmyndum hins þekkta rokkljósmyndara Mick Rock af David Bowie og fleiri hetjum frá upphafi áttunda áratugarins, er glystímabilið svokallaða var í algleymingi. Aðgangur ókeypis. Og vinur okkar forfallinn Bowie-maður! Það var engu líkara en að almættið hefði skipulagt helgardagskrána fyrir okkur. Það var óðar ákveðið að skella sér og sáum við ekki eftir því.

Eftir að hafa hvolft í okkur nokkrum hanastélum á hamingjustund á bar einum og etið á afrískum veitingastað (krókódíl, sebradýr og strút) héldum við glaðbeitt á fund Mick Rock og félaga. Opnunin var með hefðbundnu sniði, allt troðfullt af fólki með glas og flöskur í hendi. Rock sjálfur sat úti í horni og áritaði bækur en verðið á þeim slagaði hátt í 50.000 íslenskar krónur. Einnig var hægt að fá eftirprentanir af ljósmyndunum fyrir svimandi upphæðir. Athygli vakti þá aðstoðarmaður/umboðsmaður Rock, sem var vatnsgreiddur, með yfirvaraskegg og í forláta jakkafötum. Minnti á persónu úr Merchant/Ivory mynd. Hann var líka alveg afskaplega kunnuglegur, ekki samt úr bíómynd eða neitt svoleiðis, og kinkaði greinarhöfundur til hans kolli í minnst fjögur skipti og alltaf var nikkað til baka. Allt saman mjög undarlegt. Vinur úr fyrra lífi?

Mick var hins vegar hinn rólegasti, rokkstjörnulegur mjög, með sítt hár og sólgleraugu. Nokkuð skorinn í andliti og veðraður. Þetta er einn af stjörnuljósmyndurum þessa undirgeira ljósmyndunar og er Rock einn af þeim sem komst innundir hjá viðfangsefnum sínum. Hann varð hálfgerð rokkstjarna sjálfur eða lifði a.m.k. því líferni sem við tónlistarformið er kennt. Gullöld Rock var frá ca '70 til '75 er hann festi m.a. leikaraliðið úr Rocky Horror á filmu ásamt t.a.m. Lou Reed, The Stooges og Queen. Myndir Rock rötuðu á umslög þriggja sígildra platna eftir þessa þrjá listamenn, og eru jafn sígildar og innihaldið (Transformer, Raw Power og Queen II).

Það voru þó myndir Rock af David Bowie og Ziggy Stardust tímabili hans sem skópu honum nafn og festu hann í sessi sem einn fremsta ljósmyndara síns geira. Myndir af Bowie og Mick Ronson á sviði eru magnaðar, æfingar í því hvernig á að ná augnablikinu. Myndir utan sviðs eru þá ekki síðri, frábær mynd af þessum sömu mönnum í rútunni að snæða enskan dögurð og ein nokkuð skuggaleg, þar sem Bowie er hlæjandi að bregða hníf að slagæð sinni! Kostuleg var þá ein mynd sem sýnir Lou Reed, Mick Jagger og David Bowie saman í hnipri við barborð, hlæjandi og vita greinilega ekki af ljósmyndaranum. Snilld myndarinnar felst í mótsögninni; svipur þessara stórfrægu þremenninga er eins og þeir eigi í hefðbundnasta fylliríshjali sem hugsast getur. Þeir eru mannlegir eftir allt saman.

Nú er spurning hvort staða manna eins og Mick Rock sé í hættu í dag. Áhersla á plötuumslög fer t.d. minnkandi með meira niðurhali og spilastokksvæðingu auk þess sem ljósmyndunartæknin verður æ handhægari og einfaldari. Aftur á móti má ekki gleyma því að á bakvið myndavélarnar eru menn með mismunandi innsæi, skynbragð og listræna nálgun. Og í tilfelli Rock, greiðan aðgang að viðfangsefninu. Hvað sem þessum vangaveltum líður er þó fyrir löngu búið að meitla nafn Mick Rock í stein í þessum fræðunum. Náðuð þið þessum?

Arnar Eggert Thoroddsen (arnart@mbl.is)