Sigurður Georgsson fæddist í Reykjavík 27. september 1946. Hann lést 27. mars síðastliðinn og var útför hans gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík 6. apríl.

Sigurður tók við rekstri málflutningsstofu Birgis Ísleifs Gunnarssonar hrl. í Reykjavík 1. desember 1972 og rak hana í eigin nafni síðan.

Við yfirtöku á rekstri Birgis tók Sigurður einnig við framkvæmdastjórastörfum í hlutastarfi fyrir Tæknifræðingafélag Íslands (TFÍ) og Lífeyrirssjóð TFÍ frá 1973.

Sigurður starfaði með stjórnum Lífeyrissjóðs TFÍ að rekstri séreignasjóðs og sameiginlegum líftryggingamálum sem voru á margan hátt á undan sinni samtíð. Síðar var rekstri sjóðsins breytt í samstarfi við Glitni (Íslandsbanka) og er hann að stofni til Almenni lífeyrissjóðurinn, en í hann sameinuðust meðal annars Lífeyrirssjóður arkitekta og Lífeyrissjóður lækna og er hanní dag fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins. Jafnframt sá hann um skrifstofu félagsins, þar sem einnig höfðu aðsetur Stéttarfélag tæknifræðinga, Kjarafélag tæknifræðinga og hinar ýmsu starfandi nefndir félaganna. Í samvinnu við stjórnir félaganna var unnið meðal annars að félags-, menntunar- og hagsmunamálum tæknifræðinga. Félagið er nú rekið í góðri samvinnu við Verkfræðingafélag Íslands í Verkfræðingahúsi.

Sigurður var ötull talsmaður TFÍ í málum og síðar málaferlum við hið opinbera vegna löggildingar starfsheitisins tæknifræðingur í samvinnu við stjórnir félagsins á hverjum tíma.

Þeir, sem nú útskrifast sem tæknifræðingar, átta sig ekki á þeirri baráttu sem liggur að baki þessara starfsréttinda.

Sigurður reyndist drjúgur heimildabanki þegar ráðist var í að safna saman efni og rita sögu TFÍ.

Margs er að minnast í starfsemi félagsins og drjúgum þætti Sigurðar í að efla samheldni félagsmanna og má þar nefna síldarkvöld sem nutu mikilla vinsælda.

Við viljum þakka Sigurði Georgssyni fyrir störf hans í þágu félagsins og aðstandendum sendum við samúðarkveðjur vegna ótímabærs fráfalls hans.

Fyrrverandi formenn TFÍ:

Daði Ágústsson,

Eiríkur Þorbjörnsson,

Gunnlaugur Helgason og

Sveinn Frímannsson.