Bræðurnir Sigmar og Einar Vilhjálmssynir.
Bræðurnir Sigmar og Einar Vilhjálmssynir. — Ljósmynd: Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EINAR: Sigmar er yngsti bróðir minn. Hann kom í lokin - nokkuð óvænt. Við vorum fimm bræðurnir fyrir og það voru nokkrar vonir bundnar við það að hann yrði stúlka.
EINAR: Sigmar er yngsti bróðir minn. Hann kom í lokin - nokkuð óvænt. Við vorum fimm bræðurnir fyrir og það voru nokkrar vonir bundnar við það að hann yrði stúlka. Það gekk ekki eftir en samt var þetta mikið ævintýri og gaman að eignast enn einn bróðurinn enda þótt atgangurinn á heimilinu hafi sennilega verið nógu mikill fyrir. Ég var á sautjánda ári og bjó heima fyrsta árið sem Sigmar var til. Svo fór ég í nám. Fyrst til Reykjavíkur og síðan til Bandaríkjanna. Á þeim árum hafði ég ekki mikið af Sigmari að segja, hitti hann aðallega um jól og á sumrin. Það var strax líf og fjör í honum. Hann var brosmildur og maður sá fljótlega að lundin var létt.

Þegar ég hugsa til baka eru minningar mínar um Sigmar að talsverðu leyti samofnar minningum mínum um næstyngsta bróður minn, Hjálmar, sem er fjórum árum eldri en hann. Það gekk nefnilega mikið á í samskiptum þeirra. Segja má að það séu mestu heimiliserjurnar sem ég upplifði en lítið var um pústra milli okkar eldri bræðranna. Sigmar og Hjálmar voru aftur á móti í stöðugri stöðubaráttu á heimilinu.

Ég man ekki eftir mörgum prakkarastrikum enda var ég svo mikið í burtu. Ég kenndi þó einn vetur við Menntaskólann á Egilsstöðum þegar Sigmar var barn og dettur í hug eitt býsna skondið atvik. Hann hafði þá fengið þá hugmynd að raða grjóti á aðalgötuna í bænum til að sjá hvernig bílstjórarnir brygðust við. Fyrsti maðurinn sem kom að þessum vegartálma hans var ég. Það var tekið að rökkva en ég bar strax kennsl á Sigmar enda þótt hann sæi mig ekki. Þegar ég sá að hann ætlaði að forða sér, keyrði ég á eftir honum upp á gangstéttina. Þá skipti engum togum að hann skutlaði sér, eins og fótboltamarkvörður, yfir á grasið. Það varð honum eiginlega að falli, því tilþrifin voru svo áberandi. Sigmar gafst samt ekki upp, heldur skreið eins og hermaður eftir grasinu, fullviss um það að hann gæti falið sig fyrir mér. Það var misskilningur. Ég tók hann upp í bílinn og við fórum yfir þetta. Sigmar sýndi fullkomna iðrun og ég held að hann hafi ekki gert þetta aftur. Það sætti tíðindum því Sigmar vildi gjarnan láta hart mæta hörðu á þessum aldri. Ætli hann hafi ekki verið þar undir áhrifum frá Garðari bróður okkar (hlær). Hann lærði hins vegar fljótt sína lexíu í þessum efnum - í praxís.

Sigmar fór snemma að gera grín að öðrum en gerði óspart grín að sjálfum sér líka sem er góður kostur. Þannig fann hann fljótt leið til að verjast öllum árásum á sig og snúa vörn í sókn. Myndbandsupptaka sem ég gerði af Sigmari þrettán ára gömlum lýsir húmor hans vel. Hann sat þá í rólegheitum í hengirólu heima á Egilsstöðum og var að ræða við mig um lífið og tilveruna. Þá spurði ég hann m.a. að því hvað hann vildi segja við sjálfan sig ef hann kæmi til með að horfa á myndbandið í framtíðinni. "Mikið svakalega hefur þú verið feitur," sagði hann þá án þess að blikna. Þarna var hann að gera grín að sjálfum sér en um leið að gefa sér að hann yrði grennri í framtíðinni. Það hefur heldur betur gengið eftir.

Foreldrar okkar eru mjög ólíkir og brot úr þeirra karakter raðast mjög skemmtilega niður á okkur bræðurna. Sigmar hefur fengið mjög áberandi þætti frá báðum. Húmorinn og hispursleysið er frá mömmu en tilhneiginguna til að vera svolítið á varðbergi og ganga ekki of langt hefur hann frá pabba.

Sigmar var á bólakafi í íþróttum á sínum yngri árum og varð fljótt yfirlýsingaglaður. Ég man að Sjónvarpið tók einhvern tíma viðtal við hann þegar hann var orðinn efnilegur spjótkastari. Þar ræddi hann fjálglega um framtíðaráform sín og ekki var á honum að skilja að mín afrek yrðu mikil fyrirstaða. Hann yrði fljótur að skáka mér. Hann lét það bara vaða. Nokkuð sem ég hefði aldrei gert út á við. Samt dáðist ég að þessum eiginleika hjá honum. Það er ekki sama hvernig þetta er gert. Sigmar bæði meinti þetta en hló að því um leið. Sú tækni er ekki öllum gefin.

Sköpunargleðin varð mjög snemma karaktereinkenni á Sigmari. Á unglingsárum vann hann um tíma á pizzastað á Egilsstöðum. Hann lét sér hins vegar ekki nægja að mæta í vinnuna og sinna sínum störfum heldur var hann fljótur að stinga upp á allskonar nýjungum; lagði til að matseðlinum yrði breytt og að ný vöruþróun ætti sér stað. Og hann komst upp með þetta allt saman. Þetta hefur hann frá pabba. Hann vill hafa mörg járn í eldinum og sífellt vera að skapa. Helst búa eitthvað til sem alls ekki liggur í augum uppi. Ég get heldur ekki neitað því að þarna eigum við Sigmar mjög sterkan samnefnara. Enda er það þannig að þótt ég hafi ekki umgengist Sigmar mikið sem barn og ungling finnst mér ég þekkja gangverkið í honum einna best af bræðrunum.

Sigmar hefur mikla réttlætiskennd. Hann er líka hreinskiptinn. Talar hug sinn. Rætni og undirferli er ekki til í honum. Hann mundi aldrei stinga nokkurn mann í bakið. Sigmar er hins vegar mjög fylginn sér og harður og verkar kannski svolítið frakkur á fólk. En ef hann gengur hart fram í einhverju þá hefur hann alltaf rök fyrir máli sínu. Ég hef aldrei staðið hann að því að beita menn órétti. Sigmar hefur örugglega sína galla en ég get ekki tilgreint neitt í hans fari sem hefur valdið mér óþægindum eða vonbrigðum. Hann er það heilsteyptur. Sama get ég raunar sagt um alla mína bræður.

Við Sigmar vorum mikið saman þegar hann var að mótast og verða fullorðinn. Hann vann hjá mér á Pizza 67 í Hafnarfirði og við æfðum líka saman spjótkast. Þarna var hann að taka sína stefnu í lífinu. Hann fann, eins og við bræðurnir allir, að það voru gerðar væntingar til hans. Skilaboðin voru alltaf skýr enda þótt þau væru ekki hávær. Áhugamál Sigmars voru fjölbreyttari á þessum aldri en hjá mér og fyrir vikið átti hann í meiri erfiðleikum með að afmarka sig. Það var svo margt sem togaði í hann. Hann var virkilega efnilegur spjótkastari. Var farinn að nálgast sjötíu metrana. Sigmar er hins vegar af kynslóð sem átti erfiðara með að taka mótbyr en mín kynslóð. Valkostirnir voru svo miklu fleiri. Enda fór það svo að Sigmar lenti í meiðslum - náði ekki að uppskera í eitt ár - og sneri baki við spjótinu.

Þegar hann hætti í íþróttum fékk Sigmar vinnu í útvarpi, nánar tiltekið á útvarpsstöðinni Mónó. Þar fann hann sig um leið. Fékk útrás fyrir sköpunarþörf sína og sá strax mikil sóknarfæri. Jóhannes Ásbjörnsson, Jói, var þarna með honum og þeir fengu alveg ótrúlegar móttökur. Sigmari leið vel í þessu starfsumhverfi enda voru menn þarna opnir fyrir því að leyfa nýju fólki að láta ljós sitt skína og takast á við áskoranir.

Eftir það flutti Sigmar sig yfir í sjónvarp og fór ásamt öðrum að stjórna þættinum 70 mínútur á PoppTíví. Þetta var nýstárlegur þáttur í íslensku sjónvarpi, uppfullur af ærslum og uppátækjum og varð fljótlega mjög vinsæll. Ég fylgdist með þessu og við Sigmar töluðum mikið saman um þáttinn. Ég gerði mér grein fyrir því að þessi fína lína í samfélaginu hafði verið að færast svolítið en það var klárt að þátturinn náði að halda sig innan réttra marka í langflestum tilfellum. Það kom þó fyrir að þeir fóru að mínu viti yfir strikið og þá lét ég Sigmar heyra að þeir yrðu að axla sína ábyrgð gagnvart markhópnum og þar fram eftir götunum. Hann tók þessum athugasemdum vel enda alltaf verið móttækilegur fyrir athugasemdum og gagnrýni.

Hafi Sigmar ekki orðið þjóðþekktur maður á þessu tímabili varð hann það örugglega þegar hann tók við umsjón Idol - Stjörnuleitar eins vinsælasta sjónvarpsþáttar landsins. Það hefur verið ljúft að fylgjast með honum ná þessum árangri. Hann tekur þessu mjög vel og ég sé enga sérstaka breytingu til hins verra í kjarnapersónunni Sigmari. Hann hefur mjög ríka tilhneigingu til að gefa af sér og er í góðri aðstöðu til þess þarna. Hann hefur t.d. mikið látið frændfólk sitt, þ.e. börn okkar bræðranna, njóta samvista við sig sem er mjög þakklátt. Þeim þykir mikið til þess koma.

Það er erfitt að segja hvað Sigmar á eftir að taka sér fyrir hendur í framtíðinni. Það gerir sköpunarþörfin. Hann getur farið með hana í býsna margar áttir. Ég held að hann komi til með að taka þeirri áskorun sem býðst í sjónvarpi en um leið og fer að hægjast um í tækifærum á því sviði mun hann snúa sér að öðru. Stundum hefur hann talað um að styrkja bakland sitt í menntun og ég sé hann vel fyrir mér setjast á skólabekk í nánustu framtíð til að búa sig undir næstu ögrun. Og það þarf að vera ögrun. Þannig er karakterinn. Það á ekki við Sigmar að vera í öruggu umhverfi, þar sem hann gerir sama hlutinn daginn út og inn.

Einar Vilhjálmsson fæddist árið 1960. Hann var í fremstu röð í spjótkasti í heiminum um árabil og var m.a. kjörinn íþróttamaður ársins hér heima í þrígang, 1983, 1985 og 1988. Einar varð sjötti í spjótkasti á ólympíuleikunum í Los Angeles 1984. Hann er með BBA-gráðu í alþjóðaviðskiptum og BS-gráðu í lífeðlisfræði frá Bandaríkjunum og lýkur í vor MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík. Einar starfar sem framkvæmdastjóri heildsölu- og útboðssviðs hjá Svefni og heilsu.

Eiginkona Einars er Halldóra Dröfn Sigurðardóttir og eiga þau þrjú börn, Gerði Rún 21 árs, Vilhjálm Darra 15 ára og Valdimar Orra 11 ára.

Sigmar Vilhjálmsson fæddist árið 1977. Hann stjórnaði morgunþættinum SjöTíu ásamt Jóhannesi Ásbjörnssyni á útvarpsstöðinni Mónó og var síðar einn umsjónarmanna sjónvarpsþáttarins Sjötíu mínútur á PoppTíví. Hann er nú annar umsjónarmanna Idol - Stjörnuleitar á Stöð 2. Sigmar stjórnar einnig sértekjudeild 365 - Ljósvakamiðla. Sér þar um kostunar- og samstarfssamninga á stórum sjónvarpsverkefnum á vegum 365, ásamt afurðasölu þeim tengdum, t.d. er hann verkefnastjóri þátta á borð við Idol - Stjörnuleit, Meistarinn á Stöð 2, Það var lagið, Veggfóður á Stöð 2, Strákarnir á Stöð 2 og HM 2006 á Sýn.

Eiginkona Sigmars er Bryndís Björg Einarsdóttir og eiga þau einn son, Einar Karl 3 ára, og annað barn er væntanlegt í heiminn í júlí.

Foreldrar Einars og Sigmars eru Vilhjálmur Einarsson fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum og silfurverðlaunahafi í þrístökki á ólympíuleikunum í Melbourne 1956 og kona hans Gerður Unndórsdóttir leiðbeinandi.