Eitt af verkum Jóns Óskars á sýningunni.
Eitt af verkum Jóns Óskars á sýningunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir dr. Birnu Bjarnadóttur Um þessar mundir stendur yfir í Dr. Paul. H. T. Thorlakson galleríi Manitóbaháskóla í Winnipeg sýning á verkum tveggja íslenskra myndlistarmanna, þeirra Heklu Daggar Jónsdóttur og Jóns Óskars.
Eftir dr. Birnu Bjarnadóttur
Um þessar mundir stendur yfir í Dr. Paul. H. T. Thorlakson galleríi Manitóbaháskóla í Winnipeg sýning á verkum tveggja íslenskra myndlistarmanna, þeirra Heklu Daggar Jónsdóttur og Jóns Óskars. Sýningin Modern Raiders er önnur af sex fyrirhuguðum á framsækinni íslenskri samtímamyndlist og ber sýningaröðin heitið Sýnir (Visions). Hún hófst haustið 2005 með sýningu á verkum Ásmundar Ásmundssonar, Slaver and Associates, og mun ljúka vorið 2008. Um er að ræða skapandi samstarfsverkefni myndlistarmanna, háskóla og gallerís, með það fyrir augum að gefa íslenskri samtímamyndlist rými handan hafs og íbúum og gestum Winnipegborgar tækifæri til að njóta hennar. Sýningarstjóri raðarinnar er Hannes Lárusson myndlistarmaður en framkvæmd hennar er í umsjá Dr. Paul. H. T. Thorlakson gallerís, íslenskudeildar Manitóbaháskóla og íslensku ræðismannsskrifstofunnar í Winnipeg. Myndlistardeild Manitóbaháskóla kemur einnig að sýningaröðinni en myndlistarmennirnir halda fyrirlestra á vegum hennar.

Ef marka má viðbrögðin, fær fólk ekki flúið ímyndunaraflið. Fólk skynjar einnig tilraunir um samtíma. Verkin eru ekki alfarið úr tengslum við tiltekið land og eina þjóð. Í fyrirrúmi er hins vegar einstaklingsbundin fagurfræði þeirra listamanna sem í hlut eiga. Til þess er enda leikurinn gerður og eru verk þeirra Ásmundar, Heklu og Jóns Óskars til vitnis um marglyndi íslenskrar samtímalistar. Sú staðreynd að öll stunduðu þau framhaldsnám í Bandaríkjunum kann að hrökkva jafn skammt og þjóðernið, vilji einhver koma auga á sameiginleg einkenni verka þeirra.

Til stendur að gefa út rit um sýningaröðina, að henni lokinni. Í bili má spyrja hvort listumræða á Íslandi standi enn framsækinni list fyrir þrifum. Meðan háværir kjaftaskar í röðum skríbenta um miðja 20. öld fjölluðu af vandlætingu um óskapnað og viðbjóð nútímalistar (og það skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina), hafa sigldir fræðimenn tekið við í samtímanum og sjá ekkert í list annað en félagsraunsæi sölumennsku, iðnaðar og stjórnmála. Getur umræðunni hafa hrakað? Þökk sé mannlegri náttúru, eru óskapnaður og viðbjóður nátengdari viðfangsefni listarinnar hverju sinni en pælingar Ferðamálaráðs Íslands.

Tannlæknir byggir ekki brú yfir Jökulsá á Fjöllum. Hvers vegna ættu listamenn að kasta sér grunlausir í Geysi? Gosið framkalla þartilgerðar sápur, hvað sem segja má um siðfræðina í því. Kannski er það til marks um siðleysið í framleiðslugosi hug- og félagsvísinda samtímans, að listinni er fleygt inn í hvert líkanið á fætur öðru, til handa kenningu um fyrir fram ákveðna niðurstöðu. Eylandi á borð við Ísland er til dæmis komið fyrir með löndum Afríku, með það fyrir augum að sýna fram á sameiginleg einkenni listiðnaðar í eftirnýlenduríkjum. Væri ég íslenskur myndlistarmaður myndi ég blygðast mín fyrir jafn truflaða hugmynd. Vilji fólk tala um nýlendur er heldur engin þörf á forskeytinu "eftir". Mun nærtækara er að líta vestur, þangað sem fólk fer að versla þegar dollarinn er góður, og gangast við amerískum ítökum í raunveruleika íslenskrar samtímamenningar. Sumar af þeim kenningum sem eru notaðar til að skilgreina sameiginleg einkenni "listiðnaðar" í hinum og þessum löndum koma einmitt þaðan.

Kannski er það skorturinn á fagurfræði sem stendur umræðu um samtímalist fyrir þrifum, aftur og aftur. Hvernig sem vindarnir blása á gamla landinu, gefur sýningaröðin í Dr. Paul. H. T. Thorlakson galleríi Manitóbaháskóla fólki tækifæri til að kasta sér á bálið og sjá sýnir.

Höfundur er dósent við íslenskudeild Manitobaháskóla í Winnipeg, Kanada.