— Ljósmynd: ÞÖK
Í hvaða skóla ertu? Ég er í 8. bekk S. í Hagaskóla. Hvenær fermistu? Ég fermist í Neskirkju hinn 23. apríl næstkomandi. Fermast allir í þínum bekk? Já, ég held það, nema ein stelpa sem missti trúna.
Í hvaða skóla ertu?

Ég er í 8. bekk S. í Hagaskóla.

Hvenær fermistu?

Ég fermist í Neskirkju hinn 23. apríl næstkomandi.

Fermast allir í þínum bekk?

Já, ég held það, nema ein stelpa sem missti trúna. Í mínum vinahópi eru þrjár stelpur sem fermast borgaralega og ein sem fermist alls ekki, eða fjórar af tíu.

Hvers vegna langar þig til að fermast?

Því að ég trúi á Guð og vil staðfesta trúna og skírnarheitið. Ég hef trúað á Guð frá því að ég var barn og fer með bænirnar á hverjum degi.

Finnst þér fermingin mikill áfangi?

Já.

Hugsar þú mikið um athöfnina?

Já.

Hugsar þú mikið um fermingarboðskapinn?

Já, frekar mikið. Ég fermist af því að ég vil það, ekki bara til þess að halda veislu og fá gjafir, þó að það sé gaman.

Skipta fermingarfötin miklu máli?

Já. Vinkonur mínar fermast flestar í kjólum og ég fermist í kjól. Kjólarnir okkar eru hins vegar allir mjög ólíkir.

Er mikið spáð í tískuna?

Já, frekar mikið. Ég valdi mér ljósan kjól með blómamynstri frá Noa Noa og gulllitaða flatbotna skó. Við kjólinn ætla ég að bera fullt af skartgripum, af því að hann er frekar látlaus.

Hvað um hárið?

Ég ætla að lita hárið á mér dekkra og fá mér permanent. Ég býst við að setja það lauslega upp á fermingardaginn og hafa eitthvert hárskraut sem passar við kjólinn.

Ætlarðu að halda veislu?

Já, við ætlum að hafa 90 manna kökuboð og leigja sal.

Hvað er algengt að krakkar fái í fermingargjöf?

Þau fá aðallega peninga, tölvur, dvd og sjónvörp. Sumir fá líka utanlandsferð. Ég er að safna mér fyrir vespu sem ég má keyra þegar ég verð 15 ára.

Hvað er helsta áhugamálið hjá þér og vinkonum þínum?

Bara að vera saman og spjalla. Stundum förum við í bíó og svo höldum við líka boð og matarboð og erum með skemmtiatriði.

Hvað er skemmtilegast í skólanum?

Heimilisfræði. Ég er búin að læra að elda kjúkling og kjötsúpu og oft bökum við brauð. Ég elda stundum heima og við pabbi ætlum að kaupa matreiðslubækur svo ég geti haldið því áfram.

Hvað gerir þú í frítímanum þínum?

Þá er ég með vinum mínum. Ég stunda líka frjálsar íþróttir í ÍR og læri free style dans í Laugum. Svo vinn ég í sjoppunni í Frostaskjóli í KR-heimilinu.

Hvað ertu að fara að gera í sumar?

Ég ætla að vinna í unglingavinnunni í sumar og kannski að bera út blöð. Ég veit ekki hvort við förum í ferðalög, það er ekkert ákveðið. Kannski förum við í útilegur eða eitthvað annað.

Hvað langar þig til þess að læra í framtíðinni?

Mig langar til þess að fara í Kvennaskólann eða MH þegar ég er búin með 10. bekk. Eftir það er ég að spá í að verða læknir eða lögga. Mig hefur langað til þess að verða læknir frá því að ég var lítil. | helga@mbl.is