Gestum Tengslanets III var boðið til móttöku í utanríkisráðuneytinu í gærkvöldi. Geir H. Haarde ráðherra ásamt þeim stöllum Germaine Greer og Herdísi Þorgeirsdóttur.
Gestum Tengslanets III var boðið til móttöku í utanríkisráðuneytinu í gærkvöldi. Geir H. Haarde ráðherra ásamt þeim stöllum Germaine Greer og Herdísi Þorgeirsdóttur. — Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Önnu Pálu Sverrisdóttur aps@mbl.is KONUR hvaðanæva úr samfélaginu, komnar saman á Bifröst í Borgarfirði, samþykktu í gær einróma ályktun um að sett verði lög um jafnari hlutföll kynja í stjórnum fyrirtækja.
Eftir Önnu Pálu Sverrisdóttur aps@mbl.is

KONUR hvaðanæva úr samfélaginu, komnar saman á Bifröst í Borgarfirði, samþykktu í gær einróma ályktun um að sett verði lög um jafnari hlutföll kynja í stjórnum fyrirtækja.

Á fjórða hundrað kvenna voru samankomnar á Bifröst á ráðstefnunni Tengslanet III - Völd til kvenna sem fram fór í gær og fyrradag. Var það mál kvenna að jafnvel enn betur hefði tekist til nú en fyrri ár. Á dagskrá í gær voru meðal annars erindi aðalfyrirlesarans og femínistans Germaine Greer og Guðrúnar Erlendsdóttir hæstaréttardómara auk fjölda smærri erinda og pallborðsumræðna. Deginum lauk með móttöku í utanríkisráðuneytinu.

Konur 4,4% af stjórnarmönnum

Í ályktun Tengslanets 2006, sem var samþykkt með öflugu standandi lófataki, er lýst yfir "...Nauðsyn þess að sett verði lög sem miða að því að jafna hlut kynjanna í stjórnum skráðra fyrirtækja á Íslandi þannig að hlutur annars kynsins sé ekki undir 40%." Bent er á að undanfarin ár hafi tilmælum og ábendingum ítrekað verið beint til eigenda og stjórnenda fyrirtækja án sýnilegs árangurs. "Í dag höfum við séð nýjustu tölur um rýran hlut kvenna í stjórnum skráðra félaga í Kauphöll Íslands. Konum hefur fækkað í stjórnum þessara fyrirtækja og eru nú aðeins 4,4% stjórnarmanna..."

Frelsi kvenna mikilvægast

Á fyrri Tengslanetsráðstefnum var einnig ályktað um einstök málefni í kynjabaráttunni. Í fyrra fjallaði ályktunin um afnám launaleyndar en 2004 var kastljósinu líkt og í ár beint að hlutfalli kvenna í stjórnum fyrirtækja. Segja má að það hafi skilað því að nú eru til jafnréttiskennitölur fyrirtækja sem segir til um ástand jafnréttismála innan þeirra. "Þannig að það sem við ályktum um er eitthvað sem við væntum að leiði til breytinga," sagði Helga Jónsdóttir ráðstefnustjóri.

Dagskráin í gærmorgun hófst á fyrirlestri hins rómaða og jafnframt umdeilda femínista Germaine Greer. Hún átti í engum vandræðum með að halda hlustendum sínum við efnið með beittum húmor og óvenjulegu sjónarhorni á ólíkar hliðar kvennabaráttunnar. Það atriði sem endurómaði í máli ýmissa kvenna seinna um daginn var kannski ekki síst sú hugsun að jafnrétti kvenna á við karla í þeim skilningi að mega gera og vera eins og karlmenn, væri ekki eitt og sér markmið til að stefna að. Mikilvægari væri baráttan fyrir frelsi kvenna til að vera þær sjálfar og halda á lofti kvenlegum gildum og menningu kvenna.

Hún vék að menningu stórfyrirtækja og karllægum gildum sem þar ríkja og líkti við samfélag apa, þar sem atferlismynstrið væri mjög líkt. Menningin snúist um að koma sjálfum sér sem næst toppnum og öðrum neðar í leiðinni. Þetta væri gert með stöðugum hernaðaráætlunum, klíkumyndunum og átökum. Sama væri farið að gilda um stjórnmálaflokka sem hún gaf miður góða einkunn. "Þetta var engin venjuleg kona, þetta var afl," sagði Herdís Þorgeirsdóttir, stofnandi Tengslanetsins, um fyrirlestur Greer.

Við lok ráðstefnunnar benti Helga Jónsdóttir á að þessi stóra samkoma væri í raun dæmi um hverju einstaklingur getur áorkað. Þetta væri einstaklingsframtak einnar konu, sem væri doktor Herdís Þorgeirsdóttir. Herdís benti þó á að atbeina hverrar og einnar kvennanna í hópnum þyrfti til og sleit ráðstefnunni með þessum orðum: "Við finnum þegar við komum hingað að það gerist eitthvað. Hvort það er náttúran hér fyrir utan, krafturinn í okkur sjálfum, eða bara Guð almáttugur - ég veit ekki hvað það er - en ég hlakka til þegar við hittumst næst!"