8. október 2006 | Menningarlíf | 409 orð | 1 mynd

Sjónvarp | Tíu fingur, nýr sjónvarpsþáttur um klassíska tónlist

Maðurinn að baki einleikaranum

Af listum

Eftir Guðjón Guðmundsson gugu@mbl.is RÍKISSJÓNVARPIÐ hefur sýningar á þáttunum Tíu fingur næstkomandi sunnudagskvöld en alls eru þættirnir tólf og fjalla um íslenska hljóðfæraleikara á sviði klassískrar tónlistar.
Eftir Guðjón Guðmundsson

gugu@mbl.is

RÍKISSJÓNVARPIÐ hefur sýningar á þáttunum Tíu fingur næstkomandi sunnudagskvöld en alls eru þættirnir tólf og fjalla um íslenska hljóðfæraleikara á sviði klassískrar tónlistar. Jónas Sen er umsjónarmaður þáttanna og framleiðandi er Jón Egill Bergþórsson. Rúnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri innlendrar dagskrárgerðar hjá Ríkissjónvarpinu, segir að ekki hafi áður verið ráðist í gerð þátta af þessu tagi í íslensku sjónvarpi. Ákveðið hafi verið að ráðast í gerð tólf þátta til að byrja með og verða þeir á dagskrá Sjónvarpsins fram yfir áramót. Tíu fingur sé metnaðarfullt verkefni og segir Rúnar þættina hugsanlega forsmekk að þeim fyrirheitum sem gefin hafa verið um stóraukin hlut innlendrar dagskrárgerðar í Ríkissjónvarpinu.

"Hugmyndin gengur út á það að gera skemmtilega sjónvarpsþætti. Ég reyni að höfða til breiðs hóps sjónvarpsáhorfenda því þótt ekki hafi allir áhuga á klassískri tónlist hlusta mjög margir á hana sér til ánægjuauka. Tónlistin sem er leikin í þáttunum er yfirleitt fremur aðgengileg og þar sem þetta eru sjónvarpsþættir hafði ég að markmiði að meira yrði lagt upp úr myndrænni úrvinnslu en oft áður. Sviðsmyndin er sveigjanleg að því leyti að hægt er að skipta um lit og lýsingu þannig að það undirstriki andrúmsloftið í hverju verki. Klippingar og sjónarhorn í myndatöku undirstrika líka það sem er að gerast í tónlistinni," segir Jónas.

Um það bil helmingur af hverjum þætti er viðtöl við listamanninn og aðra viðmælendur sem fléttast inn í tónlistaratriðin. Auk þess er stungið inn í þættina gömlum upptökum af viðkomandi listamanni úr safni Sjónvarpsins. "Viðtölin eiga að varpa ljósi á manninn að baki einleikaranum sem þýðir að viðtölin eru stundum nokkuð nærgöngul og þau eru að mestu tekin á heimili viðmælandans. Viðtölin skýra einnig tónlistina sem er leikin og í þriðja lagi varpa þau ljósi á tónlistarheiminn á Íslandi og ýmsa þætti hans."

Sett var upp heimasíða þáttarins með ýmsu efni sem ekki er sýnt í sjálfum þáttunum, eins og t.d. lengri útgáfur viðtalanna og ýmislegt ítarefni jafnt um hljóðfæraleikarana sem fjallað er um, tónlistina sem þeir flytja og tónskáldin. Þess má einnig geta að leikin verður tónlist úr Tíu fingrum í útvarpsþættinum Hlaupanótunni á Rás 1 á föstudegi áður en sýning þáttanna hefst.

Þeir einleikarar sem fram koma í þáttunum eru Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari, Gunnar Kvaran sellóleikari, Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari, Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari og Sigurður Ingvi Snorrason klarinettuleikari, Halldór Haraldsson píanóleikari, Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari, Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari, Ásdís Valdimarsdóttir víóluleikari, Kolbeinn Bjarnason flautuleikari, Edda Erlendsdóttir píanóleikari, Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari og Einar Jóhannesson klarinettuleikari.

www.ruv.is/tiufingur

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.