Jólalegur Göngum við í kringum einiberjarunn, einiberjarunn...
Jólalegur Göngum við í kringum einiberjarunn, einiberjarunn...
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú eru börnin í leikskólunum líklega farin að æfa jólasöngvana því ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Eitt af því skemmtilegasta sem við sungum var "Göngum við í kringum einiberjarunn" og það syngja börnin sjálfsagt enn.

Nú eru börnin í leikskólunum líklega farin að æfa jólasöngvana því ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Eitt af því skemmtilegasta sem við sungum var "Göngum við í kringum einiberjarunn" og það syngja börnin sjálfsagt enn. En skyldu þau hugsa um hvað þetta er í rauninni gamaldags, já, ég segi bara úrelt kvæði? Það er verið að vesenast með þvottinn nær alla vikuna, þvo, vinda, hengja upp, teygja og toga, strauja og strjúka. Hlutirnir ganga töluvert öðruvísi fyrir sig núna, þvottinum er stungið inn í þvottavél, sem þvær og þurrkar á augabragði, búið spil. Flestir gera minna af því að teygja og toga, strauja og strjúka en meðan til voru "bara húsmæður" svo ég tali nú ekki um vinnukonur. Nú er þvotturinn bara tekinn út úr vélinni, brotinn saman og settur upp í skáp og allt tekur þetta brot úr degi.

En það er þetta með einiberjarunninn, það er nú hálfskrítið að ganga í kringum hann syngjandi, af hverju er ekki gengið kringum barrheldið danskt eðalgreni eins og margir eru með á jólunum? Þessi leikjadans er kominn til okkar frá Danmörku eins og svo margt sem okkur finnst alveg sjálfsagt af jólasiðunum. Norðmenn þekkja líka þennan dans en telja hann vera í eðli sínu ævafornan brúðkaupsdans, e.t.v. frjósemidans. Erfitt er að segja um hvenær dansinn um einiberjarunninn barst hingað, en Árni Björnsson segir í bók sinni Sögu daganna að það hafi verið fyrir 1920.

Einirinn okkar, sem heitir á latínu Juniperus communis, var reyndar notaður dálítið hér á landi til að skreyta heimagerð jólatré, en það gátu alls ekki allir gert. Þótt latneska heitið communis merki algengur, er einirinn alls ekki algengur um allt land. Hann vex varla í Húnavatnssýslu og lágsveitum sunnanlands en er hins vegar algengur bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum svo ekki sé talað um Þingeyjarsýslurnar. Á plöntuvefsjá Náttúrufræðistofnunar má sjá vaxtarsvæði plantna og þar er merkt við Vestmannaeyjar og innst í Markarfljótsdalnum sem fundarstaði einis. Ég get staðfest þetta með Markarfljótsdalinn, því einir er útbreiddur í hlíðum Þórólfsfells og inni í Tröllagjá og eins er töluvert af honum austanvert í dalnum, það er að segja á leiðinni inn í Þórsmörk. Almennt gildir um eininn að hann kann best við sig á snjóþungum svæðum og honum getur verið hætt við kali á útmánuðum, þegar sólin skín sem ákafast á daginn á auða, frosna jörð. Einirinn okkar er afbrigði af þessum venjulega eini og heitir því fullu nafni Juniperus communis var. nana. Þetta afbrigði vex einkum í nánd við heimskautabauginn og til fjalla í Evrópu og er almennt jarðlægt, en það finnst þó upprétt á stöku stað t.d. við Sandvatn í Suður-Þingeyjarsýslu. Á Norðurlöndum eru til upprétt afbrigði af eini, sem ætti að vera auðvelt að ganga kringum. Snúum okkur aftur að leikdansinum. Þar er sungið um einiberjarunn. Aldin einisins er reyndar strangt til tekið ekki ber heldur berköngull, sem þroskast á 2-3 árum. Berið er í fyrstu grænt en verður blásvart þegar það er þroskað og er þá mikil prýði á runnanum. En ekki mynda allir runnar ber. Það er svo skrítið með eininn, að hann er sérbýlisplanta, það táknar að sumar plöntur mynda kvenblóm en aðrar karlblóm og eðli málsins samkvæmt eru það aðeins kvenplönturnar sem mynda berin. Sumar gróðrarstöðvar "ábyrgjast" kyn einiplantnanna, sem þær selja, sem táknar að seldar séu einiplöntur sem hafa verið ræktaðar með græðlingum af foreldri af þekktu kyni.

Ég ætlaði nú eiginlega að skrifa lærða grein um eini en ekki einiberjarunn - en...

Höfundur er fyrrverandi formaður Garðyrkjufélags Íslands.