Eftirvænting Frambjóðendur og aðrir gestir biðu spenntir eftir úrslitum forvalsins á kosningavöku sem haldin var á laugardagskvöld.
Eftirvænting Frambjóðendur og aðrir gestir biðu spenntir eftir úrslitum forvalsins á kosningavöku sem haldin var á laugardagskvöld. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Berg Ebba Benediktsson bergur@mbl.is FJÓRAR konur og tveir karlar röðuðust í efstu þrjú sætin í forvali Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs til lista fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö og Suðvesturkjördæmi vegna alþingiskosninganna í vor.

Eftir Berg Ebba Benediktsson

bergur@mbl.is

FJÓRAR konur og tveir karlar röðuðust í efstu þrjú sætin í forvali Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs til lista fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö og Suðvesturkjördæmi vegna alþingiskosninganna í vor. Völdu kjósendur þrjá frambjóðendur í hvert sæti og síðar mun uppstillingarnefnd flokksins raða þeim niður á lista. Flest atkvæði í fyrsta sæti hlaut Ögmundur Jónasson þingmaður en Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins, og Kolbrún Halldórsdóttir þingkona hlutu einnig kosningu til að leiða listann í einhverju kjördæmanna.

Flest atkvæði í fyrsta og annað sætið hlutu Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sagnfræðingur og formaður Skáksambands Íslands, Álfheiður Ingadóttir varaþingkona og Árni Þór Sigurðsson borgarfulltrúi.

Verður kynjakvóta beitt?

Í reglum sem samþykktar voru fyrir forvalið kemur fram að kosningu í annað sæti hljóti þeir þrír frambjóðendur sem fái flest atkvæði í fyrsta til annað sæti, þó þannig að efstu tvö sæti listanna verði skipuð þremur körlum og þremur konum. Verði þessari reglu beitt er líklegt að Álfheiður Ingadóttir, sem fékk færri atkvæði en Guðfríður Lilja verði færð niður í þriðja sæti á einhverjum listanum og Gesti Svavarssyni, sem fékk flest atkvæði í fyrsta, annað og þriðja sæti í forvalinu, verði gefinn kostur á að taka sæti Álfheiðar. Ákveði Gestur að þiggja ekki boðið, eins og hann hefur lýst yfir, er ekki útilokað að uppstillingarnefnd bjóði næsta karlframbjóðanda sætið en það er Paul Nicolov.

Að sögn Svanhildar Kaaber, formanns kjörstjórnar, verður uppröðun á lista með þeim hætti að kjörstjórnin kemur saman og gerir tillögu að þremur listum á grundvelli kosninganna sem síðan þarf að samþykkja á félagsfundi í hverju kjördæmi fyrir sig. Spurð að því hvort reglunni um jafnan fjölda karla og kvenna í efstu sæti verði fylgt og kona færð niður um sæti segir Svanhildur að uppstillingarmálin verði rædd á fundi kjörstjórnar. "Kjörstjórnin ætlar að hittast næst á miðvikudaginn kemur og þá verður unnið í þessu," segir Svanhildur.

Á kjörskrá vegna forvalsins voru 1.796, greidd voru 1.093 atkvæði og var kjörsókn því um 61%, 35 atkvæði voru auð eða ógild. Niðurstöður forvalsins lágu fyrir um miðnætti á laugardaginn.

"Þetta var óvenju glæsileg kosning sem konurnar fengu, þingmennirnir fengu einnig glæsilega kosningu, varaformaðurinn kemur sterk inn og svo kemur Guðfríður Lilja eins og stormsveipur inn í þetta auk þess sem Álfheiður og Árni Þór geta vel við unað," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sem vildi ekki tjá sig um hvort hann teldi að beita ætti kynjakvóta við uppstillingu á listanum.

"Fljúgandi byr í seglin"

"Menn hafa haft á orði að niðurstaðan úr forvalinu hefði í öllum tilvikum orðið góð í ljósi þess mannvals sem var í boði. Nú liggur niðurstaðan fyrir og við þurfum að horfa fram á brautina og þá horfum við til alþingiskosninganna á vori komanda. Mín tilfinning er sú að við höfum fljúgandi byr í seglin," segir Ögmundur Jónasson þingmaður sem flest atkvæði fékk í fyrsta sæti forvalsins. "Það sem mér er kannski efst í huga er að horfa ekki einvörðungu til þeirra sem skipuðust í efstu sætin heldur einnig hinna fjölmörgu áhugasömu og kraftmiklu einstaklinga sem eru að hasla sér völl í pólitíkinni í fyrsta skipti. Það er mikil gerjun framundan," segir Ögmundur.

"Höfum unnið inn á við"

"ÉG ER alveg himinlifandi með niðurstöðuna," segir Katrín Jakobsdóttir, íslenskufræðingur og varaformaður VG, sem hlaut næstflest atkvæði í fyrsta sæti í forvalinu og mun því að öllum líkindum leiða einhvern listanna. "Þessi úrslit sanna að það er ekki sjálfgefið að konum gangi illa í prófkjörum," segir hún. Þá er Katrín ánægð með framkvæmd forvalsins og hversu frambjóðendur stilltu auglýsingum í hóf. "Við höfum meira verið að vinna inn á við í þessu forvali," bendir Katrín á en þetta er í fyrsta skipti sem hún skipar sæti ofarlega á lista. "Ég hef verið í stuðningssætum áður, en nú ákvað ég að það væri að hrökkva eða stökkva, og ég stökk!"

"Flokksmenn ganga í takt"

KOLBRÚN Halldórsdóttir þingkona mun að öllum líkindum leiða einn lista flokksins en hún hlaut þriðja mesta fjölda atkvæða í fyrsta sætið í forvalinu. Hún kveðst ánægð með niðurstöðuna. "Mér finnst þetta staðfesta okkar kraftmikla flokkstarf. Við í þingflokknum fáum góða kosningu, unga fólkið fær fína kosningu og konur fá góða kosningu," segir Kolbrún.

Hún bendir einnig á að fólk sem gegni embættum innan flokksins hafi náð góðum árangi og nefnir sérstaklega gengi Katrínar Jakobsdóttur varaformanns og Auðar Lilju Erlingsdóttur, formanns Ungra vinstri grænna, sem hafnaði í fjórða sæti. "Þetta finnst mér sýna að flokksmenn ganga í takt," segir Kolbrún.

Sterkur leikur í skákinni

"ÉG SÓTTIST eftir öðru sæti og fékk það og er himinlifandi og þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt og að vera boðin velkomin í hópinn," segir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

sagnfræðingur og forseti skáksambands Íslands. "Mér líst rosalega vel á þetta í heildina og er ánægð með hvað konur fengu góða kosningu. Þær hafa átt mjög á brattann að sækja í prófkjörum annarra flokka. En hér eru komnar fjórar konur inn í sex efstu sætin sem er mjög sterk yfirlýsing af hálfu Vinstri grænna. Mér finnst þarna vera reynsluboltar í pólitíkinni í bland við ný og fersk andlit. Ég tel þetta sterkan byrjunleik í þeirri skák sem er framundan 12. maí," segir hún.

VG með mikinn byr

"ÉG TEL þetta stórglæsilega niðurstöðu og finnst merkilegt að finna þann mikla byr sem málefni VG hafa í samfélaginu," segir Álfheiður Ingadóttir, varaþingmaður VG, sem hlaut næstflest atkvæði í fyrsta til annað sæti í forvalinu.

Spurð um það sjónarmið sem kæmi fram í reglum um forvalið og varðar jafna stöðu karla og kvenna í efstu sætum listans segir Álfheiður að vissulega gæti það haft áhrif á niðurröðun uppstillingarnefndar. "Það eru mörg sjónarmið sem koma til greina við röðun á þessa þrjá lista, þar eru auðvitað kynjasjónarmið og þessar reglur en svo er það líka svo margt annað sem taka þarf tillit til," segir hún.

"Flokkum til eftirbreytni"

ÁRNI Þór Sigurðsson borgarfulltrúi hlaut kosningu sem mun að öllum líkindum skila honum í annað sæti einhvers listans. "Það var raunhæft frá mínum bæjardyrum séð að ná öðru sæti og ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu," segir Árni. "Þetta var fyrir flokksmenn og þetta fór vel fram. Það var góður andi milli frambjóðenda og ekki neinar auglýsingaherferðir. Við héldum sameiginlega fundi og útbjuggum sameiginlegan kynningarbækling, þetta gekk mjög vel upp og gæti verið öðrum flokkum til eftirbreytni. Það sama á við um þetta fyrirkomulag að halda sameiginlegt forval fyrir kjördæmin þrjú. Það gekk að mínu viti afar vel upp," segir Árni Þór.
Í hnotskurn
» Alls buðu 30 manns sig fram í forvalinu en markmið þess var að velja fjóra efstu frambjóðendurna í kjördæmin þrjú.
» Sérstök uppstillingarnefnd mun nú gera tillögu um uppröðun á lista sem háð er samþykki félagsfundar í hverju kjördæmi fyrir sig.
» Alls voru fjórar konur í sex efstu sætunum, sjö í tólf efstu og níu í 14 efstu.