Skemmtilegt Útvarp Latibær er vinsælt útvarpsefni hjá yngstu kynslóðinni.
Skemmtilegt Útvarp Latibær er vinsælt útvarpsefni hjá yngstu kynslóðinni.
Sú er þessar línur ritar hefur í þessum dálkum fullyrt að hún gæti vel verið án sjónvarps og útvarps. Eftir á að hyggja er þetta ekki alveg sannleikanum samkvæmt.

Sú er þessar línur ritar hefur í þessum dálkum fullyrt að hún gæti vel verið án sjónvarps og útvarps.

Eftir á að hyggja er þetta ekki alveg sannleikanum samkvæmt. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn hefur nefnilega alveg sérstakt dálæti á Útvarpi Latabæ, og raunar öllu sem frá Magnúsi Scheving kemur.

Útvarp Latibær hefur til dæmis stytt þessari þriggja ára hnátu ófáar stundir á innanbæjarferðalögum í bílnum. Útvarpsstöðin býður að öllu jöfnu upp á skemmtilegt og fræðandi barnaefni, sem sett er fram á skemmtilegan máta, auk blandaðrar íslenskrar tónlistar. Sú stutta tekur fræðsluefninu mjög bókstaflega og minnir foreldra sína til dæmis á að nota bílbelti, athuga rafhlöðurnar í reykskynjurunum og minnir á endurskinsmerkin.

Nú í byrjun desember skipti Útvarp Latibær hins vegar um gír og hleypti jóladagskránni í loftið. Og það er ekkert hálfkák þar á. Nú er eingöngu boðið upp á jólatónlist og jólasögur.

En öllu má nú ofgera.

Þó Útvarp Latibær sé að öllu jöfnu hafið yfir gagnrýni hjá litlu dömunni, þá spurði hún einn daginn hvort ekki væri einhver tónlistardiskur í bílnum sem hún gæti frekar hlustað á. Það hefur ekki gerst áður.

Guðlaug Sigurðardóttir