ÞAÐ bar til í árdaga Íraksstríðs, að soldátar fundu gamlar sprengjur austur þar, sem menn ætluðu í fyrstu að væru úr sýklavopnabúri Husseins.

ÞAÐ bar til í árdaga Íraksstríðs, að soldátar fundu gamlar sprengjur austur þar, sem menn ætluðu í fyrstu að væru úr sýklavopnabúri Husseins. Þegar strandkapteinn Halldór Ásgrímsson frétti að fundin væru eiturefnavopn í Írak brauzt fram breitt bros með gleðiópi: ,,Ég hefi alltaf vitað að þau væru til," og flórgoði Framsóknar rak upp slíkt gleðigagg að fé í Flóanum hljóp á fjöll.

Við nánari athugun reyndist fundurinn leifar af sprengjum, sem Bandaríkjamenn höfðu sent Saddam í vináttuskyni, þegar hann var að stríða við Íran.

Fjöldi frambjóðenda í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins var spurður hvort það hefðu verið mistök af Íslands hálfu að vera aðili að stríðinu í Írak. Nei, sögðu allir sem einn og bættu sumir við: Ekki miðað við þær upplýsingar, sem þá lágu fyrir, og áttu þar við áróðurslygar Bandaríkjamanna.

Þessar undirlægjur Davíðs og Halldórs ganga viljandi fram hjá aðalatriði málsins. Jafnvel þótt óyggjandi hefði legið fyrir að Hussein ætti eiturvopn, höfðu íslenzkir ráðamenn alls enga heimild til þátttöku í stríðinu. Þvert á móti bar þeim heilög skylda til að eiga enga aðild að þeim viðbjóðslega hildarleik vegna þeirra eiða, sem íslenzk þjóð hafði fyrir löngu svarið: Að fara aldrei með ófriði á hendur neinni þjóð. Íslendingum var eins og að líkum lætur fullkunnugt um glæpi Öxulveldanna í lok heimstyrjaldarinnar. Vegna eiðstafs síns neituðu þeir að lýsa yfir stríði við þau og gátu þess vegna ekki orðið stofnfélagar Sameinuðu þjóðanna.

Nýr formaður Framsóknar hefir loks mælt fram eina setningu sem skilst: Að það hafi verið mistök að eiga aðild að Íraksstríði. Þótt svo vilji raunar til að hann sjálfur var aðal uppihaldsmaður Halldórs í þeim málum í sinni tíð, eins og öllum öðrum. Og flórgoðinn í Flóanum rekur upp nýtt fagnaðargagg vegna alþekktrar Framsóknar-hreinskilni, enda veitir þeim þar ekki af að verða sér úti um sem flest gleðiefni, sem fátt er orðið um þar á bæ. Og goðinn heimtar að Bush forseti komi til sín í flórinn og biðji sig afsökunar á afglöpum Írakssoldátanna Davíðs og Halldórs.

Að lokum eitt skemmtiatriði fyrir kvöldvökur hjá Framsókn: Myndbirting af varaformanninum, þar sem hann lýsir yfir að hann elski Húsdýragarðinn. Daginn eftir lét hann drepa öll hænsnin.

Höfundur er fyrrverandi formaður Frjálslynda flokksins.