Meiddur Gunnar Heiðar Þorvaldsson er hér (t.v.) í leik með Halmstad gegn franska liðinu Lens.
Meiddur Gunnar Heiðar Þorvaldsson er hér (t.v.) í leik með Halmstad gegn franska liðinu Lens. — Reuters
GUNNAR Heiðar Þorvaldsson, knattspyrnumaður úr Vestmannaeyjum, hefur verið með eindæmum óheppinn í vetur. Hann hefur lítið sem ekkert náð að spila með Hannover í þýsku 1. deildinni og er nú enn á ný frá æfingum og keppni vegna meiðsla.

GUNNAR Heiðar Þorvaldsson, knattspyrnumaður úr Vestmannaeyjum, hefur verið með eindæmum óheppinn í vetur. Hann hefur lítið sem ekkert náð að spila með Hannover í þýsku 1. deildinni og er nú enn á ný frá æfingum og keppni vegna meiðsla. Að þessu sinni eru það slæmar bólgur undir hnéskel sem koma í veg fyrir að landsliðsmiðherjinn nái sýna hvað í honum býr í Þýskalandi en hann hefur aðeins komið við sögu í tveimur leikjum Hannover til þessa í vetur.

Eftir Víði Sigurðsson vs@mbl.is

Gunnar Heiðar kom til Hannover frá Halmstad í Svíþjóð í sumar og fór rólega af stað. Var á varamannabekknum og fékk aðeins að spreyta sig í einum leik í fyrstu umferðunum. Í kjölfarið meiddist hann í nára og fór í aðgerð, og var orðinn leikfær á ný í byrjun nóvember.

"Aðgerðin tókst mjög vel og ég var frá í þær 4-5 vikur sem ráð var fyrir gert, og var tilbúinn í leik gegn Stuttgart 12. nóvember. Þar kom ég inn á, spilaði í 15 mínútur og náði mér vel á strik. Daginn eftir lenti ég í návígi við ungan leikmann á æfingu hjá Hannover og hann sparkaði í hnéð á mér. Ég fann fyrir verkjum næstu daga, hélt áfram, en var orðinn mjög slæmur á þriðja degi og lét þá læknana okkar líta á þetta. Ég var sendur í myndatöku og þá komu í ljós beinbólgur undir hnéskelinni," sagði Gunnar Heiðar við Morgunblaðið í gær.

Alls konar tilraunir gerðar á mér

"Þetta eru víst einhver mjög sjaldgæf meiðsli og menn hérna vita ekki almennilega hvernig á að meðhöndla þetta. Það hafa verið gerðar alls konar tilraunir á mér og ég er heldur skárri núna, en það veit enginn hvenær ég verð orðinn heill heilsu."

Hannover á eftir að spila tvo deildarleiki og einn bikarleik fyrir jól og síðan er frí fram yfir áramótin. "Ég vona að þessi tími dugi mér til að komast í lag en þetta hefur verið ansi erfiður tími, það liggur við að maður sé lagstur í þunglyndi yfir þessu öllu saman. Þetta hefur verið sagan endalausa síðan ég kom hingað til Þýskalands. Ef þetta gengur ekki á næstunni fer ég heim til Íslands og reyni að fá meina minna bót þar," sagði Gunnar Heiðar.

Mikið breyst með nýjum þjálfara

Hannover byrjaði tímabilið illa og var í fallsæti framan af vetri. Eftir þjálfaraskipti, þar sem Dieter Hecking tók við af Peter Neururer, hefur liðið tekið vel við sér og unnið síðustu þrjá leiki sína, lagði Energie Cottbus 1:0 á útivelli á laugardaginn og er nú komið upp í miðja deild.

"Þetta er allt annað og það hefur mikið breyst með nýjum þjálfara. Hann hefur líka verið mjög jákvæður í minn garð, fylgst mjög náið með mínum meiðslum og virðist hafa mikla trú á mér, svo ég vona það besta," sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson.