Kristný Ólafsdóttir fæddist á Raufarfelli í A-Eyjafjöllum 8. júlí 1921. Hún lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 24. nóvember síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Landakirkju 2. desember.

Elsku Nýja okkar, við gætum skrifað endalaust um það hversu góð þú hefur alltaf verið okkur systkinunum.

Við munum alltaf minnast þín þegar jólin nálgast af því að þú varst svo mikið jólabarn.

Það var alltaf mikill spenningur í okkur krökkunum eftir því að kjallarinn á Birkihlíðinni væri skreyttur því að þar var sko jólasveinalagerinn.

Þú varst ekki bara frænka okkar, þú varst meira eins og önnur amma okkar allra. En í ár verða jólin tómleg hjá fjölskyldunni án þín og munum við sakna þín mikið. En við vitum að þú verður með fjölskyldu þinni.

Nýja okkar, takk innilega fyrir allar góðu stundirnar, við erum þakklát fyrir þær. Við kveðjum þig nú með miklum söknuði.

Þínir englar

Sigríður Árdís, Jón Kristinn og Tryggvi Stein (Klöru börn).

Elsku Nýja. Nú er bara komið að því, þú ert farin frá okkur. Þú sem sagðir alltaf: "Ég er nú dauð hvort sem er." Þessi orð voru svo fjarlæg okkur.

Við höfum þekkt þig alla tíð þar sem þú bjóst í kjallaranum hjá ömmu og afa á Birkihlíðinni. Þú hefur alltaf verið okkur sem amma, alltaf stolt af okkur barnabörnunum og má ég til með að nefna Laugerinn (lögfræðinginn) eins og þú vildir alltaf kalla hann Ágúst Emil, sem þakkar sérstaklega fyrir alla spilamennskuna.

Nýja mín, þú hefur alltaf verið skemmtilegur karakter og höfum við heyrt margar sögur af þér og er okkur minnisstæðust sú, þegar þú varst á röltinu niður í Fiskiðju og bíll stoppaði og bauð þér far. Þá varstu fljót að svara: "Nei, takk, ég er að flýta mér."

Okkur þótti öllum rosalega vænt um þig, Nýja mín, þú hefur sýnt okkur þá væntumþykju líkt og við þér.

Þín verður sárt saknað úr kjallaranum.

Guð geymi þig.

Svava Kristín, Kristgeir Orri og Ágúst Emil.

Nýja mín, ég var búin að lofa þér þessu:

Frost er úti, fuglinn minn,

Ég finn hvað þér er kalt.

Nærðu engu í nefið þitt,

því nú er frosið allt?

En ef þú bíður augnablik,

ég ætla að flýta mér,

að biðja hana mömmu mína

um mylsnu handa þér.

(Stefán Jónsson)

Ég veit þú átt eftir að skila kveðju til ömmu Kristínar frá mér þegar þú hittir hana.

Svava Kristín.

Elsku Nýja, okkur systkinin langaði að senda okkar hinstu kveðju og þakka fyrir öll árin með þér.

Þakka þér fyrir kexið í skúffunni, pönnukökurnar, lagterturnar, kossana, grjónagrautinn, heita kókóið, ógleymanlega jólasveinalandið í kjallaranum. Og síðast en ekki síst þakka þér fyrir alla hlýjuna og væntumþykjuna. Hvíl í friði, elsku Nýja.

Anna Rós, Halla Björk, Sævald Páll og Einar Ottó.