Páll Magnússon
Páll Magnússon
Páll Magnússon skrifar um ummæli forstjóra og stjórnarformanns 365 um að leggja fréttastofu Stöðvar 2 niður: "Jafnvel þótt bæði RÚV og fréttastofan yrðu lögð niður myndi það ekki leysa vanda 365."

FORSTJÓRI og stjórnarformaður 365 hafa nú báðir hótað því opinberlega að fréttastofa Stöðvar 2 verði lögð niður ef Alþingi samþykkir frumvarp um breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins. Ástæðan á að vera sú, að ef nú verði ekki settar takmarkanir á auglýsingatekjur RÚV sé ekki svigrúm til rekstrar fréttastofu Stöðvar 2, - þrátt fyrir að hún hafi verið rekin við þessar sömu aðstæður í 20 ár.

Fyrir átján mánuðum, eða þar um bil, sagði þáverandi forstjóri 365 stoltur frá því í fjölmiðlum að rekstrarhagnaður miðla félagsins hefði verið 2,5 milljónir á dag fyrstu þrjá mánuði ársins og það væri mjög bjart framundan í rekstri þeirra. Stærstur hluti þessa rekstrarhagnaðar kom frá Stöð 2 - með fréttastofunni og öllu saman.

Núna - nokkrum misserum seinna - er tilkynnt um margra milljarða tap á þessari starfsemi og í sömu vikunni er hótað að leggja niður fréttastofuna ef Ríkisútvarpið verði ekki látið rýmka til fyrir 365 á auglýsingamarkaði! Ókunnugir gætu haldið að þarna væru einhver tengsl á milli, en svo er ekki. Þetta milljarðatap 365 er ekki Ríkisútvarpinu að kenna og heldur ekki fréttastofu Stöðvar 2. Og jafnvel þótt bæði RÚV og fréttastofan yrðu lögð niður myndi það ekki leysa vanda 365. Hann á sér aðrar skýringar sem gætu verið efni í aðra grein.

En hvers vegna er þá verið að koma með þessa kjánalegu hótun? Er verið að reyna að hræða þingmenn? Eða starfsmenn? Hver sem ástæðan kann að vera þá er hótunin bæði innistæðulaus og ófyrirleitin.

Fyrir ókunnuga gæti verið áhugavert að vita að á síðasta ári hafði 365 um 52% af heildarauglýsingamarkaði á Íslandi en Ríkisútvarpið um 14%. Sé einungis litið til sjónvarpsauglýsinga var hlutdeild RÚV rúmlega 31% en 365 hafði rúmlega 32%.

Höfundur er útvarpsstjóri.