Jónsi og Alex "Á myndinni "Kite String" er hugarfluginu gefinn laus taumur: þar þyrlast ímyndaður flugdreki um himininn."
Jónsi og Alex "Á myndinni "Kite String" er hugarfluginu gefinn laus taumur: þar þyrlast ímyndaður flugdreki um himininn."
Sýningunni er lokið.

Í TILEFNI af útgáfu myndabókarinnar Riceboy Sleeps efndu höfundarnir, Jónsi, þekktur sem söngvari hljómsveitarinnar Sigur Rósar, og Alex Somers, til sýningar í Galleríi Turpentine í Ingólfsstræti á myndverkum undir sömu yfirskrift. Viðburðurinn stóð stutt yfir og var bókin prentuð í takmörkuðu upplagi.

Á sýningunni mátti sjá fjölda mynda, sem rammaðar voru inn á nýstárlegan hátt í opnanleg gluggafög sem Jónsi og Alex fundu á eyðibýlum á ferð um landið. Í bakrými gallerísins var sýnt myndbandsverk af fuglum á flugi sem einnig má skoða á vefsíðunni riceboysleeps.com. Þá hljómaði frumsamin tónlist Jónsa og Alex í sýningarsalnum og í myndbandinu, þ.e. um var að ræða tvö tónverk.

Í myndbandsverkinu svífa kríur um háloftin líkt og við undirleik tónlistar. Fimlegt flug þessa fagra og harðduglega fugls virðist myndgera hljómfall tónlistarinnar fullkomlega - það er líkt og skynja megi "vængjað" hljómfall náttúrunnar. Flugið er á köflum sýnt hægt svo að nokkurs konar "slóð" myndast á fletinum og fuglarnir verða stundum að óhlutbundnum formum.

Myndverkin, sem flest eru af börnum, eru mörg hver eftirmyndir myndanna í bókinni, gjarnan af heilum opnum þannig að útlínur blaðsíðna sjást. Myndirnar eru unnar af mikilli natni og með blandaðri tækni, svo sem að teiknað er ofan í gamlar ljósmyndir frá upphafi 20. aldar eða þær unnar á grafískan hátt. Sjá má ýmsar myndrænar vangaveltur og forvitnileg smáatriði. Flestar myndirnar eru í fölum litatónum, gráum eða gulleitum og oft eintóna og er ekki laust við að yfirbragð þeirra sé dálítið drungalegt.

Drunginn er rómantískur og lýsir söknuði eftir liðnum tíma - og þá einkum fegurð og sakleysi bernskunnar. Morknaðir gluggar eyðibýla, málningarleifar, ryðgaðir naglar og krækjur undirstrika liðinn tíma og memento mori ljósmyndanna. Horft er eins og úr fjarlægð tímans í gegnum máðar rúður, þaktar mold og myglu, á myndir af börnum sem flest hafa nú mætt ævilokum. En æskan er söm við sig og myndirnar leika á mörkum óhugnaðar og tímalausrar fegurðar - líkt og fegurð kríuflugs býr yfir.

Draumkennd tónlistin ýtir undir ljúfsára stemningu myndanna og gæðir þær eins konar upphafinni "dýpt". Sýningin felur þannig í sér ákveðinn gjörning vegna merkingaraukans í samspili tónlistar og mynda.

Sýningin er umlukt vissri dulúð: ekkert er látið uppi um uppruna ljósmyndanna - sem þó bera með sér ævisögulegan blæ og minna á myndir í albúmi. Myndverkin búa yfir eigin veruleika en tengjast rými áhorfandans á athyglisverðan hátt fyrir tilverknað glugganna/rammanna. Notkun hornglugga (sem rammar inn mynd þar sem sjást japönsk áhrif) virkar vel til að kveikja slíka meðvitund um rýmið. Á myndinni "Kite String" er hugarfluginu gefinn laus taumur: þar þyrlast ímyndaður flugdreki um himininn. Flugdrekastrákurinn er þar staddur á mörkum veruleikans ásamt hrísgrjónadrengnum sem blundar í yfirskrift sýningarinnar.

Anna Jóa