SVEINN Kristinsson skákmeistari lést aðfaranótt 2. desember á heimili sínu í Reykjavík, 81 árs að aldri. Hann fæddist á Hjaltastöðum í Skagafirði 2. mars 1925. Foreldrar hans voru Kristinn Jóhannsson og Aldís Sveinsdóttir.

SVEINN Kristinsson skákmeistari lést aðfaranótt 2. desember á heimili sínu í Reykjavík, 81 árs að aldri.

Hann fæddist á Hjaltastöðum í Skagafirði 2. mars 1925. Foreldrar hans voru Kristinn Jóhannsson og Aldís Sveinsdóttir. Eftirlifandi eiginkona Sveins er Jóhanna Jónsdóttir. Dóttir þeirra var Álfheiður Þorbjörg Sveinsdóttir en hún lést á fyrsta ári.

Sveinn Kristinsson var kunnur skákmeistari, m.a. var hann skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur 1951 og 1957. Hann tefldi í skáksveit á Heimsmeistaramóti stúdenta í Lyon í Frakklandi 1955. Þá var hann formaður Taflfélags Reykjavíkur 1953.

Sveinn ólst upp í Skagafirði við almenn sveitastörf. Hann flutti tvítugur til Reykjavíkur og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1951. Hann lagði um skeið stund á íslensk fræði og lögfræði við Háskóla Íslands. Síðar stundaði hann sagnfræðirannsóknir.

Sveinn skrifaði skákþætti í Morgunblaðið og Þjóðviljann og var með skákþátt í Ríkisútvarpinu auk þess sem hann flutti fjölda fyrirlestra þar. Þá var Sveinn bókavörður á Landsbókasafninu um skeið. Eftir Svein hafa birst smásögur, kvæði og ýmsar greinar í blöðum og tímaritum.