Emilía Biering fæddist í Reykjavík 3. október 1908. Hún lést á Dvalarheimilinu Seljahlíð 25. nóvember síðastliðinn. Foreldar hennar voru Þorbjörg Biering, f. 17. júní 1886, d. 29. desember 1973, og Moritz W. Biering, f. 10. júní 1877, d. 26. október 1945. Systkini Emilíu eru Pétur Wilhelm, f. 28 desember 1905, Magnús Þorbjörn, f. 1907, Anna Kristín, f. 30. nóv. 1912, Louise, f. 3. maí 1914, Vilhelmína Ch., f. 13. júní 1918, Hulda Ingibjörg, f. 22. júlí 1922, og Hilmar, f. 23. desember 1927.

Á fyrsta ári var Emilía send að Krossi til ömmu sinnar, Emilíu Andrésdóttur, og dvaldist þar. Á Krossi var hún alin upp af ömmu sinni með stórum frændsystkinahópi, börnum Guðrúnar Kristófersdóttur og Valdimars Sæmundssonar allt til þess dags er hún giftist 1928 Helga Hálfdánarsyni, sjómanni og síðar netagerðarmeistara, f. 29.12. 1901, d. 14.7. 1986, ættuðum frá Hvallátrum í Rauðasandshreppi. Þau skildu síðar. Búskap sinn byrjuðu þau á Patreksfirði þar sem þau keyptu sér hús. Þar fæddust tvö börn þeirra hjóna: 1) Esther Biering, f. 4.júlí 1931, d. 1976, maki Ágúst Valur Einarsson, f. 25.sept. 1927, d. 25.8. 1989. Börn Estherar eru: a) Emil, maki, Soffía Rut Hallgrímsdóttir, synir þeirra eru Arnar Þór og Rafn. Áður átti Emil soninn Ólaf Hrafn. Emil á einn sonarson. b) Erla Ragna. c) Helga Ingunn, maki Sævar Tjörvason, synir þeirra eru Stefán Karl og Jóhann Valur. d) Einar, maki Jóna Oddný Njálsdóttir, börn þeirra eru Ágúst Valur, Dóra Ester, Erla Björk og Njáll Örvar. e) Anna María, maki Magnús Hrafn Jóhannsson, börn þeirra eru Sara Mjöll og Snorri Björn. 2) Rafn Biering, f. 8. júní 1933, maki Ásthildur Sigurðardóttir. Börn Rafns eru, frá fyrra hjónabandi með Eddu Eiríksdóttur: a) Eiríkur, sambýliskona Bryndís Snorradóttir, b) Helgi, maki Hjördís Magnúsdóttir, sonur þeirra er Rafn og c) Emilía, sambýliskona Gauja Rúnarsdóttir. Emilía á soninn Hermann. Rafn er kvæntur Ásthildi Sigurðardóttur, sonur þeirra er d) Sigurjón Karel, maki Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir. Börn þeirra eru Arna Ýr, Andrea Björk og Stefán Daði. Rafn á tvö stjúpbörn, Valgerði og Stefán Þorra.

Emilía giftist 1952 Sigurjóni Sigmundssyni, f. 4. júní 1911, d. 24.8. 1991, ættuðum frá Hamraendum. Á Patreksfirði rak Emilía um skeið kaffisölu uns hún tók sig upp frá börnum og búi, réði ráðskonu á heimilið og lauk ljósmóðurnámi í Reykjavík. Til 1945 stundaði hún ljósmóðurstörf heima á Patreksfirði og í nágrannabyggðum. Þar var oft um torsóttar leiðir að fara og gjarnan farið annaðhvort á hestum eða bátum hvernig sem viðraði. Þá, 1945, flyst fjölskyldan til Reykjavíkur. Emílía og Helgi slitu samvistir allnokkru síðar. Um þetta leyti var svo komið að heyrnarskerðing hennar olli því að erfitt reyndist að sinna ljósmóðurstörfunum. Hafði hún alllengi síðan kostgangara á heimili sínu eins og þá tíðkaðist auk þess sem hún sinnti ýmsum öðrum störfum sér til framfæris. Hún skrifaði m.a blaðagreinar fyrir blöð og má finna margar frásagnir hennar t.d. í Lesbók Tímans og í Dýraverndaranum. Hún fékk m.a. viðurkenningu fyrir skrif sín. Hún hafði á heimili sínu foreldra seinni manns síns, Sigurjóns, og mann móðursystur, Arinbjörn, Guðbjartsson, blindan, allt til dauðadags, og síðar einnig móður sína uns hún lagðist á sjúkrahús, þar sem hún lést. Á sjöunda áratugnum hóf hún svo störf á heimili sínu við að strekkja dúka og gardínur fyrir fólk. Því sinnti hún allt fram undir áttræðisaldur.

Emilía verður jarðsungin frá Áskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Það er ekki sorg en söknuður þegar ég minnist elstu systur minnar, Emilíu, sem nú er látin 98 ára að aldri. Eins og allir vita eru fæðing og dauði tímamót en mislangur er sá tími sem hverjum er ætlað. Líf Emilíu varð langur tími en hófst við erfiðar aðstæður foreldra okkar, veikindi og fátækt knúðu þau til að senda frá sér nýfætt stúlkubarnið en þau vissu að í faðmi afa hennar og ömmu, Emilíu Andrésdóttur og Sæmundar Jóhannessonar, sem bjuggu að Krossi á Barðaströnd, væri henni betur borgið. Emilía naut ástar og umhyggju þeirra á uppvaxtarárunum og Emilíu fannst hún aldrei fá þeim fullþakkað.

Ung að árum giftist Emilía Helga Hálfdánarsyni, togarasjómanni og síðar netagerðarmanni, og varð þeim tveggja barna auðið, Esther fædd 1931, dáin 1976, og Rafn fæddur 1933. Þau bjuggu á Patreksfirði til ársins 1945 en þá fluttu þau til Reykjavíkur.

Emilía lauk námi í ljósmóðurfræðum við Ljósmæðraskóla Íslands árið 1935 og var sama ár skipuð ljósmóðir í umdæmi Patreksfjarðar. Starf ljósmóður á þessum árum var oft erfitt enda þurfti hún að vera tilbúin til starfa á öllum tímum sólarhringsins allt árið og oft þurfti hún um langan veg að fara á hestum þótt stundum væri leiðin stytt með fari í opnum og litlum bátum og síðan á hestum til þeirrar konu sem var í barnsnauð. Ekki var aðstaða til afnota af sjúkrahúsi og sjaldnast varð því við komið að fá læknishjálp þótt aðstæður væru oft þannig að læknis var þörf. Þetta starf stundaði hún í tíu ár og tók á móti meira en tvö hundruð börnum. Í bókinni Íslenskar ljósmæður óskar hún þessum börnum og mæðrum þeirra blessunar en þeir sem til þekkja vita að þess sama óskaði hún öllu sínu samferðafólki á langri ævi.

Emilía og Helgi slitu samvistum og síðar á ævinni giftist Emilía Sigurjóni Sigmundssyni, múrara, ættuðum frá Hamraendum á Snæfellsnesi. Emilía og Sigurjón bjuggu lengst við Langholtsveg en síðar á Skúlagötu 40. Eftir lát Sigurjóns bjó hún þar ein en síðustu árin í Dvalarheimili aldraðra Seljahlíð þar sem hún naut umönnunar hins ágæta fólks sem þar starfar.

Í upphafi minntist ég á söknuðinn við fráfall Emilíu. Sem góðir vinir stríddi ég henni stundum með því að kalla hana yfirsetukonu en hún sagði að orðið ljósmóðir væri bæði fallegra og sannara. Þótt við hefðum gaman af svona smástríðni var alla tíð ljóst að það var hún sem bjó yfir góðum hæfileikum til að tjá sig í rituðu jafnt sem töluðu máli og mikið liggur eftir af skrifum hennar.

Nú kveð ég þessa góðu systur og við Helga, konan mín, þökkum samverustundirnar með henni. Hún bað öðrum blessunar og við sem eftir lifum biðjum henni sjálfri þess hins sama.

Hilmar Biering.

Emilía, ljósmóðirin, tók sjálf á móti fyrsta barni dóttur sinnar. Dóttirin var barnung. Tekið var það ráð að senda hana til náms á heimavistarskóla eftir barnsburðinn en Emilía tók að sér barnið á "meðan". Dóttirin, hún móðir mín, sneri til baka frá náminu og vildi endurheimta barnið sitt aftur frá Emilíu ömmu sem búin var að bindast tilfinningaböndum við það. Óvitinn ég man ekkert eftir þessu fyrsta lífsskeiði mínu. Það fór svo, að mamma tók til sín barnið sitt og tók saman við strákinn hann pabba. Þau áttu síðar eftir að giftast og eignast saman fjögur börn til viðbótar við það bráðkomna.

Á uppvaxtarárum mínum var Millý amma í einhverri fjarlægð, þó að hún væri þarna einhvers staðar. Ég velti þessu ekki fyrir mér sem barn eða unglingur.

Það var fyrst þegar ég flutti ungur að heiman og var að hefja langskólanám að amma birtist mér aftur að fullu. Hún bauð mér að búa hjá sér og Sigurjóni að Langholtsvegi 53.

Faðmur hennar var útbreiddur þegar ég kom inn á heimili þeirra og hefur verið það alla tíð eftir þetta. Og hvílíkur fengur fyrir mig.

Amma var skarpgreind kona og skildi allt litróf lífsins þegar hér var komið. Hún var afskaplega víðsýn og hafði pilturinn ég um tvítugt ekki kynnst öðru eins. Það var aldrei komið að tómum kofanum hjá ömmu. Vegna heyrnarskerðingar sem fór að hrjá hana þegar um þrítugt, vildi hún helst forðaðast fjölmenni. Hún var hinsvegar alltaf höfðinginn í fámenni og virðing fyrir henni borin. Ég fór alla tíð betri maður frá ömmu eftir að við höfðum spjallað saman. Svartsýni eða þunglyndi var ekki til í hennar huga.

Ég var ekki sá eini sem amma tók upp á arma sína. Sjálf var hún alin upp á ástríku menningarheimili hjá ömmu sinni og afa að Krossi á Barðaströnd. Hún bauð mörgu öldruðu skyldfólki að vera inni á heimili sínu síðustu æviár þess.

Án bóka gat amma ekki verið og hún las mikið. Stundum bók á dag. Hún var góður penni, skrifaði um tíma smágreinar í blöð bæði hérlendis og erlendis og átti marga pennavini. Mér fundust bréfin sem ég fékk frá henni meistaraverk.

Það var ríkt í Emilíu að hún vildi ógjarnan vera öðrum til byrði. Um hver jól hin seinni árin þurfti mikla lagni og oft margra daga samningaviðræður og fortölur til að fá hana til að koma í stutta heimsókn til okkar Rutar á aðfangadagskvöld. Sonum okkar Rutar fannst alltaf spennandi að fá að vita hvort amma hefði samþykkt að koma.

Millý amma var ákveðin að eðlisfari. Breyttist það ekkert með árunum. Það vakti kátínu hjá okkur þegar hún fyrir misskilning hélt að ég vildi ekki lengur sjá um gluggapóstinn sem barst henni. Næst þegar sonur hennar Rafn heimsótti hana, fór hún fram á að hann tæki að sér hlutverkið og rétti að honum póstinn. Rafn féllst ekki á þetta enda væri málið í ágætum farvegi. Þegar heimsókninni lauk og Rafn var að ganga frá húsinu sér hann hvar móðir hans tæplega tíræð opnar gluggann á 3. hæð og hendir gluggapóstinum á eftir honum.

Amma fylgdi eigin reglum um hollt mataræði og var mörgum áratugum á undan sínu samtíðarfólki þegar hollusta í mat og lífsvenjum voru annarsvegar. Hún vildi ekki lyf og var komin yfir nírætt þegar hún féllst loks á að taka eitthvað inn til að bæta svefninn.

Elli kerling náði fyrst að gera ömmu skráveifu þegar hryggjarliðir féllu saman. Fram að því hafði hún verið teinrétt, hávaxin, kvik í hreyfingum og létt á sér. Skömmu síðar flutti hún inn á Seljahlíð, þá um nírætt. Lengi vel hélt hún sínu striki og sá um að viða að sér sínu heilsufæði þó ítrekað væri reynt að fá hana til að þiggja það sem í boði var á staðnum. Að lokum féll samt það vígið þegar krafta fór að þverra.

Ég vil þakka starfsfólki Seljahlíðar fyrir skilning og umhyggju allt þar til yfir lauk.

Ég vil þakka fyrir að hafa fengið að vera samferða Emilíu ömmu minni svona lengi.

Emil Ágústsson.

Þegar ég heyrði lát frænku minnar Emilíu Biering minntist ég þeirrar stundar þegar ég sá hana fyrst. Ég var þá barn að aldri og bjó í foreldrahúsum á Dröngum á Skógarströnd.

Foreldrar mínir voru ekki heima þegar þennan góð gest bar að garði og kvaddi dyra. Ég fór til dyra og sá þar standa háa og glæsilega konu sem ég þekkti ekki en sá á svipstundu að hún hlyti að vera frænka mín því hún hafði svo sterkan svip af móður minni. Ég bauð því gestunum strax að ganga í bæinn og bíða foreldra minna sem voru væntanlegir. Það má segja að frá þessari stundu værum við nafna mín tengdar sterkum böndum þótt við hittumst alltof sjaldan. Grunur minn var á rökum reistur, að við værum skyldar, því móðir mín og Emilía Biering voru systkinadætur. Þær voru alla tíð miklar vinkonur og héldu nánu sambandi meðan heilsa þeirra leyfði. Þær skrifuðust á meðan móðir mín bjó á Dröngum og þær hringdu hver í aðra með reglulegu millibili. Þær héldu líka góðu sambandi við frændfólk sitt í Kanada og voru ómetanlegir tengiliðir við það fólk. Það verður mér alltaf minnisstætt þegar Emilía kom að Dröngum með Þorbjörgu móður sína og Guðríði tvíburasystur hennar. Guðríður bjó í Kanada en kom til Íslands til þess að halda upp á 85 ára afmælið sitt með Þorbjörgu systur sinni. Þessar 85 ára gömlu systur leiddust upp brekkurnar upp á Drangana til þess að líta saman yfir Breiðafjörðinn og á Barðastrandarfjöllin þar sem þær voru bornar og slitu sínum fyrstu bernskuskóm á Krossi á Barðaströnd.

Emilía var að mestu uppalin á Krossi hjá ömmu sinni Emilíu O. Andrésdóttur og afa sínum Sæmundi Jóhannessyni og hún hafði alla tíð afar sterkar rætur til þeirra og sinna bernskuslóða. Emilía var mjög vel ritfær og ritaði greinar í tímarit og blöð og fékk meðal annars verðlaun fyrir grein sem hún skrifaði um Emilíu ömmu sína og hennar bernsku og uppvöxt, en hún bjó við afar erfið kjör. Emilía langamma varð þrátt fyrir það yfir hundrað ára. Ég hef alltaf verið stolt af því að bera nafn þessara heiðurskvenna.

Síðast þegar ég fór með móður mína í heimsókn til Emilíu voru þær báðar mjög farnar að kröftum og móðir mín gat nánast ekkert tjáð sig vegna heilaskaða af blóðtappa og Emilía búin að tapa mikið heyrn.

En það verður mér ógleymanlegt að sjá þær sitja saman og halda hver um aðra og njóta þess að snertast. Vinátta þeirra var svo sterk að hún þurfti engin orð.

Emilía frænka mín var ljósmóðir og átti hún það sameiginlegt með móður minni sem einnig var ljósmóðir. Þær útskrifuðust saman úr Ljósmæðraskólanum. Ljósmóðurstörf á þeim tíma voru talsvert erfiðari en nú eru og kröfðust margskonar úrræða og starfa af ljósmæðrum sem eru ekki lengur í þeirra verkahring. Það má segja að auk ljósmóðurstarfa ynnu þær bæði störf hjúkrunarfræðinga og félagsfræðinga. Því vil ég kveðja frænku mína með þessum línum um ljósmóðurina:

Ljóssins móðir ljósið gefur

lífið nýtt í örmum hefur

litla barnið móðurfaðmur vefur

örugg kennir ungri móður

aðstoðar föður og litlabróður

nýfætt barn við móðurbrjóstið sefur

veitir ljós og lífsins hlýju

ljúfast brosið barni nýju

ljóssins móðir lífið örmum vefur.

Það er ekki ætlun mín að rekja æviferil Emilíu frænku minnar hér en þakka fyrir þær alltof fáu stundir sem ég átti með henni. Með þessum orðum sendi ég innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu hennar frá Valborgu Emilsdóttur móður minni og hennar fjölskyldu.

Emilía Guðmundsdóttir.