Ágúst Mogensen
Ágúst Mogensen
LEGGJA þarf áherslu á að aðskilja akstursstefnur á fjölförnustu þjóðvegunum, Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi, til að koma í veg fyrir alvarleg umferðarslys sem verða þegar bílar skella saman úr gagnstæðum áttum, segir Ágúst Mogensen, forstöðumaður...

LEGGJA þarf áherslu á að aðskilja akstursstefnur á fjölförnustu þjóðvegunum, Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi, til að koma í veg fyrir alvarleg umferðarslys sem verða þegar bílar skella saman úr gagnstæðum áttum, segir Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa.

"Við horfum hér á ákveðna staðreynd; á meðan umferðin er óaðgreind úr gagnstæðum áttum er það því miður þannig að bílar rekast saman," segir Ágúst. "Þegar bílar rekast saman á svona miklum hraða þá verða oftast mjög mikil meiðsl."

Þótt útafakstur sé algengari en árekstrar þar sem bílar koma úr gagnstæðum áttum segir Ágúst að í síðara tilvikinu sé ljóst að hægt sé að fækka þessum alvarlegu slysum mikið með því að aðskilja akstursstefnur á þjóðvegunum þar sem umferðin er mest, á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi.

"Á meðan þetta er svona verða áfram svona slys," segir Ágúst. "Þarna verður að bæta úr, og vinna sem hraðast í því að umferðin verði aðgreind á þessum vegum. Það hefur sýnt sig að eftir breikkun Reykjanesbrautar hefur ekki orðið banaslys vegna framanákeyrslu þar."