Joseph Biden
Joseph Biden
London, Washington. AP, AFP. | Væntanlegur formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, demókratinn Joseph Biden, vill að Bandaríkjamenn gagnrýni þá stefnu einræðis og ríkisafskipta sem nú sé að komast á í Kreml.

London, Washington. AP, AFP. | Væntanlegur formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, demókratinn Joseph Biden, vill að Bandaríkjamenn gagnrýni þá stefnu einræðis og ríkisafskipta sem nú sé að komast á í Kreml. Hann sagðist í gær ekki vita hvort Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefði haft hönd í bagga með eiturmorðinu á Alexander Lítvínenko, hörðum andstæðingi forsetans og leyniþjónustunnar rússnesku, en taka þyrfti á samskiptunum við Rússland.

Pútín og menn hans eru sakaðir um að hafa komið bæði Lítvínenko og nokkrum öðrum andstæðingum fyrir kattarnef með aðstoð leyniþjónustunnar en þeir vísa slíkum ásökunum eindregið á bug. Sumir heimildarmenn telja að Lítvínenko hafi komist yfir mikilvægar upplýsingar um Yukos-olíufélagið sem áður var undir stjórn auðkýfingsins Mikhaíls Khodorkovskís. Hann er nú í fangelsi í Síberíu eftir að hafa snúist gegn Pútín.

"Rússland er að færast æ nær því að verða land þar sem auðkýfingarnir ráða öllu, Pútín er að tryggja völd sín," sagði Biden og sagði að Bandaríkjamenn hefðu í nokkur ár látið hjá líða að gagnrýna hann. "Ég tel að Rússland sé að fjarlægjast raunverulegt lýðræði og markaðshagkerfi og nálgast miðstýrt kerfi þar sem orð eins manns eru lög."