GUÐMUNDUR Svavar Böðvarsson, doktor í jarðhitafræði og forstöðumaður jarðvísindadeildar Lawrence Berkeley National Laboratory í Berkeley-háskóla í Kaliforníu í Bandaríkjunum, lést í Oakland í Kaliforníu 29. nóvember sl., 54 ára að aldri.

GUÐMUNDUR Svavar Böðvarsson, doktor í jarðhitafræði og forstöðumaður jarðvísindadeildar Lawrence Berkeley National Laboratory í Berkeley-háskóla í Kaliforníu í Bandaríkjunum, lést í Oakland í Kaliforníu 29. nóvember sl., 54 ára að aldri. Guðmundur fæddist 11. nóvember 1952, sonur hjónanna Böðvars Stefánssonar kennara og skólastjóra og Svövu Eyvindsdóttur húsfreyju og ólst upp á Ljósafossi í Grímsnesi í Árnessýslu. Guðmundur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1972 en fluttist svo til North-Carolina í Bandaríkjunum þar sem hann lauk BS-prófi í eðlis- og stærðfræði frá Catawba College 1974 og síðar mastersgráðu í byggingarverkfræði frá North Carolina State University 1976. Doktorsprófi á sviði jarðhitafræði lauk Guðmundur frá Berkeley-háskóla í Kaliforníu 1981 og sinnti hann eftirleiðis rannsóknum á því sviði, m.a. sem forstöðumaður jarðvísindadeildar Lawrence Berkeley National Laboratory. Starfaði Guðmundur einnig hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins á Íslandi í um eitt ár. Eftir Guðmund liggur ógrynni fræðiritgerða á íslensku og ensku og var hann meðal annars einn fremsti ráðgjafi bandarískra stjórnvalda um hvar losa mætti geislavirkan úrgang.

Guðmundur var mjög virkur íþróttamaður og stundaði körfubolta, knattspyrnu og blak, bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. Hann eignaðist tvo syni, Róbert Daníel og Erik Ma sem eru búsettir í Bandaríkjunum.