Ólafur Stefánsson
Ólafur Stefánsson
DANSKA handknattleiksliðið GOG veitti Evrópumeisturum Ciudad Real frá Spáni verðuga keppni í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum meistaradeildar Evrópu í handknattleik þegar liðin mættust í Gudme-hallen í Svendborg á Fjóni í gær.

DANSKA handknattleiksliðið GOG veitti Evrópumeisturum Ciudad Real frá Spáni verðuga keppni í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum meistaradeildar Evrópu í handknattleik þegar liðin mættust í Gudme-hallen í Svendborg á Fjóni í gær. Leikmenn Ciudad Real, með Ólaf Stefánsson í broddi fylkingar, unnu fimm marka sigur, 33:28, eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik, 18:15. Ólafur skoraði þrjú mörk í leiknum, öll úr vítakasti en Ólafur glímir enn við eymsli í öxl og lék því ekki eins og mikið og stundum áður. Króatinn Petar Metlicic lék mikið í stöðu Ólafs og var markahæstur hjá Ciudad Real með sex mörk. Alberto Entrerrios skoraði einnig sex mörk fyrir spænska liðið. Hjá GOG var Torsten Laen markahæstur með 7 mörk, næstur var Thomas Mogensen með sex mörk.

Liðin eigast við á nýjan leik í Ciudad Real um næstu helgi.