[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjálmar Þórarinsson tryggði Raith Rovers sigur á Alloa á útivelli, 2:1, í skosku 2. deildinni í knattspyrnu á laugardaginn. Hjálmar skoraði markið með glæsilegu skoti af 30 metra færi, upp undir þverslána. Hann var mjög atkvæðamikill í sóknarleik...
Hjálmar Þórarinsson tryggði Raith Rovers sigur á Alloa á útivelli, 2:1, í skosku 2. deildinni í knattspyrnu á laugardaginn. Hjálmar skoraði markið með glæsilegu skoti af 30 metra færi, upp undir þverslána. Hann var mjög atkvæðamikill í sóknarleik Raith. Rétt áður en Hjálmar skoraði var félagi hans, Kevin Fotheringham , rekinn af velli en Ólafsvíkingar kannast vel við þann leikmann því hann lék með þeim í 1. deildinni hér á landi í sumar.

Grétar Rafn Steinsson lék allan leikinn með Alkmaar sem vann stórsigur á Excelsior , 5:0, í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Jóhannes Karl Guðjónsson var varamaður hjá Alkmaar og kom ekki við sögu. Lið þeirra er í öðru sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir PSV Eindhoven en stigi á undan Ajax , og hefur skorað 48 mörk gegn 14 í fimmtán leikjum til þessa í vetur.

Arnar Þór Viðarsson sat allan tímann á varamannabekknum þegar lið hans, Twente , gerði markalaust jafntefli við Breda á útivelli í hollensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Twente er í fjórða sæti deildarinnar.

Rúnar Kristinsson lék allan leikinn með Lokeren sem tapaði naumlega á útivelli, 1:0, fyrir toppliðinu Genk í belgísku knattspyrnunni í fyrrakvöld. Hann fékk gula spjaldið undir lokin. Lokeren er í 13. sæti deildarinnar en í dag tekur Slavo Muslin við þjálfun liðsins og hefur hann nú þegar beðið um að fá að kaupa fjóra nýja leikmenn í janúar.

Ólafur Örn Bjarnason lék með Brann sem gerði jafntefli, 1:1, við OB frá Danmörku í Skandinavíudeildinni í knattspyrnu, Royal League, í gær en leikið var í Bergen. Kristján Örn Sigurðsson og Ármann Smári Björnsson voru ekki í leikmannahópi Brann.

Íslendingaliðin Lilleström og Vålerenga komust í gær í 8 liða úrslit Skandinavíudeildarinnar en þurftu ekki liðsinni Íslendinganna til. Viktor Bjarki Arnarsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá Lilleström sem vann góðan sigur í Danmörku , 1:0 gegn FC Köbenhavn . Vålerenga vann AIK frá Svíþjóð , 4:2, en Árni Gautur Arason lék ekki í marki norska liðsins þar sem hann er nýkominn úr aðgerð á hné.