Friðbert Traustason
Friðbert Traustason
Friðbert Traustason fjallar um lífeyrismál: "Mín tillaga er sú að afnema með öllu tekjuskatt af þessum séreignarsparnaði bæði við innlegg og útgreiðslu..."

ÞAÐ ER með ólíkindum hvað þingmenn, sem setja lög og stjórna reglugerðum þjónustustofnana ríkisins, hugsa lítið fyrirfram um afleiðingar gjörða sinna. Formaður Fjárlaganefndar virtist meðal annars uppgötva í dag, 23.11.06, hvernig séreignarlífeyrissparnaður skerðir réttindi til elli- og örorkulífeyris frá Tryggingastofnun. Vonandi skoðar hann málið í framhaldi og kemur með tillögu að "heildstæðri" lausn eins og hann kallaði lausnina á Bylgjunni kl. 16.43 fimmtudaginn 23. nóvember 2006.

Hvenær á að nota séreignarsparnaðinn?

Ef þeir einstaklingar, sem eiga von á að taka ellilífeyri frá TR við 67 ára aldur eiga innstæðu á séreignarreikningi, sem lagt var inn á samkvæmt kjarasamningi milli launamanna og atvinnurekenda, þá eiga þeir að tæma þann reikning fyrir áramótin það ár sem þeir verða 67 ára. Ef þeir gera það ekki þá mun inneignin á séreignareikningnum, þegar hún er tekin út, skerða þann lífeyri sem viðkomandi einstaklingur á rétt á frá TR.

Þetta er hins vegar ekki hægt þegar einstaklingur lendir í orkutapi og örorku. Það veit enginn hvenær hann lendir í slíku áfalli og getur því ekki tekið séreignarsparnaðinn út áður en að töku lífeyris frá TR kemur.

Þeir sem fá allan eða mestallan lífeyri sinn frá lífeyrissjóðum landsmanna lenda hins vegar ekki í skerðingu og geta því hagað töku séreignarlífeyris eins og þeim hentar best.

Mismunun af verstu gerð

Tökum dæmi af tveimur einstaklingum með kr. 200.000 í laun undanfarin 10 ár, sem sömdu á mismunandi hátt um 2% launaauka frá sínum atvinnurekenda. Í dæminu er verðbólgan 0% og launahækkanir engar til einföldunar.

Annar lagði í hefðbundinn séreignarsparnað í 10 ár 4% af launum (2 frá atvinnurekanda og 2 af eigin launum), samtals 8.000 kr. á mánuði, það er 96.000 kr. á ári. Þessi innborgun er óskattlögð eins og við þekkjum. Með 5% raunvöxtum á þessi aðili ca: 96.000 x 12,578 = 1.207.490 kr. Hann getur við 67 ára aldur tekið þessa upphæð alla og greiðir þá tekjuskatt. Ef hann greiðir fullan tekjuskatt þá fær hann útgreiddar ca: 760.000 kr. Þessi upphæð skerðir lífeyri frá TR eins og um almennar tekjur væri að ræða.

Hinn semur við atvinnurekanda að þeir í sameiningu leggi 4% (2+2 eins og í fyrra dæminu) af launum launamannsins inn á venjulegan innlánsreikning. Af 8.000 kr. er að sjálfsögðu greiddur skattur, eins og af öllum launum, og eftir til að leggja inn eru því um 5.040 kr. á mánuði, eða 60.480 á ári. Með 5% raunvöxtum á þessi aðili ca: 60.480 x 12,578 = 760.717 kr.-16.717 kr. (fjármagnstekjuskatt) = 745.000 kr. Hann getur við 67 ára aldur tekið þessa upphæð alla og greiðir engan tekjuskatt. Þessi upphæð skerðir EKKI lífeyri frá TR.

Hver var tilgangurinn með séreignarsparnaði?

Tilgangurinn var og á að vera sá að landsmenn leggi til enn meiri sparnað og eigi þannig kost á að lifa þægilegri daga á efri árum, með minni fjárhagsáhyggjur. Nú verða þingmenn og sérstaklega ríkisstjórnin að endurskoða þetta kerfi. Mín tillaga er sú að afnema með öllu tekjuskatt af þessum séreignarsparnaði bæði við innlegg og útgreiðslu og hætta með öllu að skerða, vegna lífeyrissparnaðar, elli- og örorkulífeyri þeirra sem enn nýta rétt sinn til lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins.

Höfundur er hagfræðingur og formaður SÍB, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja