Á loft Guðjón Valur hefur hinn nýja verðlaunagrip á loft en hann er bæði stór og þungur.
Á loft Guðjón Valur hefur hinn nýja verðlaunagrip á loft en hann er bæði stór og þungur. — Morgunblaðið/Arnaldur
"ÞAÐ er í fyrsta lagi mikill heiður að fá að tilheyra svona hópi frábærra íþróttamanna og í öðru lagi að fá svona viðurkenningu, þó að ekki sé nema einu sinni á lífsleiðinni, er ekkert nema frábært," sagði nýkrýndur íþróttamaður ársins 2006,...

"ÞAÐ er í fyrsta lagi mikill heiður að fá að tilheyra svona hópi frábærra íþróttamanna og í öðru lagi að fá svona viðurkenningu, þó að ekki sé nema einu sinni á lífsleiðinni, er ekkert nema frábært," sagði nýkrýndur íþróttamaður ársins 2006, Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður hjá Gummersbach, eftir að hann hafði veitt nýjum verðlaunagrip, sem fylgir nafnbótinni, móttöku í gær. Viðurkenningin fullkomnar árið hjá kappanum því í vor var hann valinn besti leikmaður þýsku deildarinnar og einnig var hann markahæsti maður hennar.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

"Það er mjög erfitt fyrir ykkur sem að þessu vali standið að bera saman íþróttagreinar og erfitt að velja menn úr hópíþróttum og þessar viðurkenningar í Þýskalandi eru þannig lagað séð einstaklingstitlar, ég vann enga titla með mínu liði. Ólafur Stefánsson vann þrjá titla með sínu félagi á árinu, Eiður Smári varð meistari með sínu félagi og svo er Auðunn Jónsson, sem hangir einn að æfa allt árið, heimsmeistari í sinni grein. Ég tek ofan fyrir mönnum eins og Auðuni því ég á mjög erfitt með að ímynda mér hvernig það er að vera einn að æfa öllum stundum, enda er ég hópíþróttamaður. Þetta er bara lítið brot af frábærum árangri þeirra íþróttamanna sem fengu viðurkenningu hér í kvöld og það væri hægt að halda lengi áfram," sagði Guðjón Valur.

Grunaði þetta ekki

Hann þvertekur fyrir að hafa grunað að hann yrði fyrir valinu, en viðurkennir að sumir í kringum hann hafi látið að því liggja að kannski ætti hann möguleika. "Ég var hérna í fyrra og varð í öðru sæti og var gríðarlega sáttur við það. Fyrir mig er þetta bara bónus. Mér finnst hins vegar rosalega gaman að fólk sem er að greina frá því sem maður er að gera – vinnunni manns – hafi áhuga á þessu og viðurkenni starf manns," segir Guðjón Valur.

Nýr verðlaunagripur var veittur að þessu sinni auk þess sem þeir tíu íþróttamenn sem urðu í efstu sætunum fengu veglega bókargjöf frá Eddu miðlun. Íþróttamaður ársins fékk peningaverðlaun frá Glitni og þrír efstu flugmiða frá Icelandair. En hvernig var að lyfta hinum nýja verðlaunagrip?

Virkilega góð tilfinning

"Það var ekkert voðalega auðvelt!" segir Guðjón Valur enda verðlaunagripurinn stór og þungur. "En það var skemmtilegt og virkilega góð tilfinning," bætti hann við.

Guðjón Valur komst í fyrsta sinn á topp tíu listann í fyrra og varð þá í öðru sæti. Núna, ári síðar, er hann á listanum öðru sinni og sigrar. Hvert liggur leiðin núna – niður á við?

"Vonandi ekki," segir Guðjón Valur brosandi. "Ég tel mig eiga eitthvað eftir í handboltanum og vonast til að tvær æfingar á dag og fullt af leikjum geri mann að betri íþróttamanni.

En eins og ég sagði áðan vil ég ekki horfa á þessa viðurkenningu með þessum augum. Mér finnst frábært að hafa fengið þetta og viðurkenningin er stór bónus á mjög svo skemmtilegu ári hjá mér. Ég vona bara að hver sá sem fær verðlaunin á næstu árum eigi eftir að njóta þeirra og leggi hart að sér. Það ætla ég að gera hér eftir sem hingað til. Stefnan hjá mér er alls ekki sú að verja titilinn þó að ég neiti því ekki að það yrði óneitanlega gaman. En þetta er viðurkenning sem enginn á að geta gengið að sem öruggri," sagði íþróttamaður ársins 2006.

Guðjón Valur er sjöundi handknattleiksmaðurinn sem verður íþróttamaður ársins en þetta er í áttunda sinn sem handknattleiksmaður verður fyrir valinu, Ólafur Stefánsson varð tvisvar hlutskarpastur. Hinir eru Sigríður Sigurðardóttir 1964, Geir Hallsteinsson 1968, Hjalti Einarsson 1971, Alfreð Gíslason 1989 og Geir Sveinsson 1997.

Þessir fengu atkvæði

ALLS fengu 22 íþróttamenn úr þrettán íþróttagreinum atkvæði í kjörinu um íþróttamann ársins 2006. Fjórir handknattleiksmenn fengu atkvæði og jafn margir knattspyrnumenn. Þá komu þrír körfuknattleiksmenn og tveir kylfingar. Síðan koma níu íþróttagreinar sem eiga einn fulltrúa á lista þeirra 22 sem atkvæði fengu. Þetta eru sund, lyftingar, fimleikar, badminton, skíði, tennis, blak, hestaíþróttir og borðtennis.

Atkvæðagreiðslan er leynileg og allir 23 félagsmenn í Samtökum íþróttafréttamanna nýttu atkvæðisrétt sinn. Hver og einn raðar tíu íþróttamönnum niður og fær sá sem settur er í fyrsta sæti 20 stig, sá sem nætur kemur fær 15, sá í þriðja sæti 10, sá sem lendir í fjórða sæti fær 7 stig, sá í fimmta 6 og svo koll af kolli þannig að sá sem settur er í tíunda sætið fær eitt stig. Stigin talin saman og mest var hægt að fá 460 stig.

Þeir sem fengu atkvæði voru:

Guðjón Valur Sigurðsson,

handknattleikur 405

Eiður Smári Guðjohnsen,

knattspyrna 333

Ólafur Stefánsson,

handknattleikur 188

Birgir Leifur Hafþórsson,

golf 156

Margrét Lára Viðarsdóttir,

knattspyrna 135

Örn Arnarson, sund 90

Ásthildur Helgadóttir,

knattspyrna 81

Auðunn Jónsson, lyftingar 72

Sif Pálsdóttir, fimleikar 70

Ragna Ingólfsdóttir,

badminton 44

Helena Sverrisdóttir,

körfuknattleikur 27

Dagný Linda Kristjánsdóttir,

skíði 24

Ívar Ingimarsson,

knattspyrna 10

Arnar Sigurðsson, tennis 10

Jón Arnór Stefánsson,

körfuknattleikur 8

Logi Geirsson, handknattleikur 7

Vignir Hlöðversson, blak 6

Guðmundur Stephensen,

borðtennis 4

Brenton Birmingham,

körfuknattleikur 4

Þórarinn Eymundsson,

hestaíþróttir 3

Ólöf María Jónsdóttir, golf 1

Logi Gunnarsson,

körfuknattleikur 1