Jón Bjarnason
Jón Bjarnason
Jón Bjarnason svarar grein Sturlu Böðvarssonar: "Sú lausn blasir við að fresta gildistöku laganna svo Alþingi gefist ráðrúm til að vinna þetta mál betur og afstýra þar með því ófremdarástandi sem flugöryggi og flugstjórn í landinu stefnir í að óbreyttu."

SAMGÖNGURÁÐHERRA Sturla Böðvarsson skrifar grein í Morgunblaðið sl. miðvikudag. Þar reynir ráðherrann að réttlæta aðgerðaleysi sitt gagnvart því að leysa þá deilu sem hann hefur sjálfur efnt til með því að hlutafélagavæða flugleiðsögn og rekstur flugvalla í landinu. Sú staðreynd blasir nú við að flugöryggi og afköst flugleiðsagnar á flugstjórnarsvæði Íslands verður stórlega skert frá 1. janúar nk. Það er mikið ábyrgðarleysi af ráðherra, sem fer með flugöryggismál, að stinga höfðinu í sandinn og neita að viðurkenna þann stóra vanda sem allt flug í landinu stendur nú frammi fyrir.

Flug og flugöryggi er lífæðar Íslands

Flugleiðsögn, stjórn umferðar í lofti og rekstur flugvalla í landinu er hluti af grunnneti samgangna landsins og rekstur þeirrar starfsemi mikilvægur hlekkur í almannaþjónustunni. Það skýtur óneitanlega skökku við að þegar íslensk fyrirtæki eru að hasla sér æ stærri völl á sviði flugrekstrar á norðurslóð skuli hérlend stjórnvöld, með samgönguráðherra í broddi fylkingar, setja flugöryggi og framtíð flugstjórnar á þjónustusvæði Íslendinga í uppnám.

Í huga samgönguráðherra virðist öllu fórnandi fyrir að koma opinberri starfsemi eins og flugöryggi og flugleiðsögn í einkarekstrarform. Ég er hlynntur hlutafélagsforminu í samkeppnisatvinnurekstri, þar sem ábyrgð eigendanna takmarkast aðeins við hlutafjárupphæðina, en í öryggismálum og grunnþjónustu eins og flugleiðsögn á slíkt rekstrarform ekki heima.

Mikil andstaða gegn lagasetningunni á Alþingi

Nefnd á vegum samgönguráðherra sem vann skýrslu um málið lagði til 4 valkosti í rekstrarformi flugleiðsagnar og flugvallarekstrar. Því miður valdi ráðherra sísta kostinn, hlutafélagaformið, þar sem öll starfsemin væri færð í form einkaréttar fyrirtækja á markaði með tilheyrandi uppsögnum starfsfólks.

Það vekur furðu að samgönguráðherra skuli ekki muna hina hörðu andstöðu á Alþingi sem frumvarpið mætti þar. Málið var talið illa undirbúið og sett fram á einstrengingslegan hátt. Stéttarfélög starfsmanna vöruðu við afleiðingum laganna og flest þeirra mæltu alfarið gegn þeim. Stjórnarandstaðan öll greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Þá virðist ráðherra ekki hafa nýtt tímann frá samþykkt laganna til að undirbúa breytinguna þannig að hægt væri að koma í veg fyrir það ófremdarástand sem nú blasir við flugumferð í landinu. Geir Haarde forsætisráðherra áréttar vandræðaganginn með því að lýsa sérstökum stuðningi sínum við samgönguráðherrann í útvarpsfréttum 22. des. sl..

Enn er hægt að bjarga málum og fresta gildistöku laganna

Fram hefur komið að þjónustustig flugumferðar í landinu mun skerðast stórlega

Samgönguráðherra hefur sagt að hlutafélagavæðingin á starfseminni muni engu breyta gagnvart starfsfólkinu eða þjónustunni. Hvers vegna er þá verið breyta rekstrinum í þetta form og valda allri þeirri óvissu sem vofir yfir vegna breytinganna?

Þegar Íslendingar tóku yfir flugstjórn og rekstur Keflavíkurflugvallar á sl. vori úr höndum Bandaríkjahers samþykkti Alþingi að "eftir breytinguna munu starfsmenn Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar verða starfsmenn íslenska ríkisins og njóta réttinda sem opinberir starfsmenn" eins og kom fram í máli form. utanríkismálnefndar, Halldórs Blöndals við afgreiðslu málsins á Alþingi. Mánuði seinna samþykkir svo Alþingi að starfsfólk flugstjórnar og flugvallarekstrar annars staðar á landinu verði svipt þessum réttindum og skyldum og flugöryggi landsmanna sett í uppnám með gjörbreyttu rekstrarformi.

Akureyringar mótmæla skertu þjónustustigi Akureyrarflugs

Þessi kerfisbreyting á flugleiðsögn í landinu mun koma hart niður á þjónustustigi innanlandsflugs. Og mun mörgum þar ekki finnast á bætandi: Í ályktun Vinstri grænna á Akureyri frá í gær segir að vandkvæði við ráðningu flugumferðarstjóra hafi mátt vera fyrirsjáanleg þegar ákvörðun var tekin um að hlutafélagavæða flugumferðarstjórnina. "Þessi vandkvæði munu hafa bein áhrif á flug til og frá Akureyrarflugvelli. Verði þar ekki starfandi flugumferðarstjórar með fyllstu réttindi eftir áramótin mun þjónustustig flugvallarins lækka með margvíslegu óhagræði og truflun á flugsamgöngum... Svæðisfélag VG á Akureyri skorar á stjórnvöld að falla frá gildistöku laga um hlutafélagavæðingu flugumferðarstjórnarinnar nú um áramótin og leggja þannig meira upp úr hagsmunum ferðaþjónustu og annarra atvinnuvega á landsbyggðinni og almennum þjóðarhag en einstrengingslegri einkavæðingarstefnu sinni".

Alþingi láti málið nú þegar til sína taka

Nú virðist ljóst að samgönguráðherra ræður ekki við að leysa þann hnút sem hann hefur sett flugöryggi og flugleiðsögn í frá næstu áramótum. Þess vegna verður samgöngunefnd og Alþingi að láta málið nú þegar til sín taka. Sú lausn blasir við að fresta gildistöku laganna svo Alþingi gefist ráðrúm til að vinna þetta mál betur og forða þar með því ófremdarástandi sem flugöryggi og flugstjórn í landinu stefnir í að óbreyttu.

Höfundur er alþingismaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.