Tvöföldun VEGNA alvarlegra slysa að undanförnu hafa margir gert kröfu þess efnis að vegurinn austur yfir fjall verði gerður tvíbreiður, þ.e. með fjórum akreinum.

Tvöföldun

VEGNA alvarlegra slysa að undanförnu hafa margir gert kröfu þess efnis að vegurinn austur yfir fjall verði gerður tvíbreiður, þ.e. með fjórum akreinum.

Að lokinni fyrri heimsstyjöld stóð til að leggja járnbraut austur yfir fjall og var gert ráð fyrir að brautin lægi um Þrengsli. Ekki varð af þessari járnbraut en vegur var lagður þessa leið til Þorlákshafnar á sjötta áratugnum. Seinna voru svo Eyrarbakki og Þorlákshöfn tengd með brú yfir Ölfusárós.

Mýrina milli Selfoss og Eyrarbakka ræstu reykvískir verkamenn fram á kreppuárunum; vegna þess hve verkið var erfitt var mýrin kölluð Síbería.

Leiðin frá Síberíu til Reykjavíkur er jafnlöng hvort sem farið er um Hellisheiði eða Þrengsli. Það er því hægt að setja einstefnu á Þrengslaveginn til austurs og Hellisheiði til vesturs. Með þessu eru til orðnar tvær akreinar í hvora átt stóran hluta af leiðinni. Peningana sem sparast við að tvöfalda heiðina má svo nota til að hringtengja bæina í Árnessýslu með fjögura akreina braut. Seinna mætti svo tengja Stokkseyri við Bakka í Landeyjum með einstefnubraut til austurs og núverandi þjóðvegur yrði með einstefnu til vesturs frá Markarfljóti að Selfossi.

Já, það má tvöfalda með ýmsum hætti.

Gestur Gunnarsson.

Osló Gospel tónleikar

Mig langaði að deila með öðrum hversu frábæra tónleika ég fór á 16. desember. Og voru það engir aðrir en Osló Gospel tónleikarnir í Grafarvogskirkju en Tenor.is sá um þá tónleika. Ég ákvað að bjóða kærustu minni á þá, fá smávegis jólastemningu. Og það kom mér á óvart hversu fallegt þetta var og skemmtileg upplifun! Kórinn stóð sig alveg einstaklega vel, og hef ég sjaldan heyrt jafnljúfa tóna og þetta kvöld.

Við lok tónleikanna voru allir staðnir upp til að dilla sér með og þetta var alvöru gospel-stemning.

Jón Þorgeir Aðalsteinsson.

Réttnefni tveggja stofnana

ÉG legg til ný nöfn á tvær stofnanir. Seðlabankinn verði Hávaxtastofnun Íslands, enda varla sjáanlegt annað hlutverk og Utanríkisráðuneytið verði Sóunarstofnun ríkisins sem er réttnefni undanfarin ár.

Björn Indriðason.