Fisk í soðið Nóg var að gera í Fiskbúðinni Vör þegar ljósmyndari átti þar leið um. Þar stendur vaktina Eiríkur Auðunn Auðunsson verslunarstjóri.
Fisk í soðið Nóg var að gera í Fiskbúðinni Vör þegar ljósmyndari átti þar leið um. Þar stendur vaktina Eiríkur Auðunn Auðunsson verslunarstjóri. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
"ÞETTA er einn annasamasti tími ársins. Fólk er sólgið í ferskmeti eftir allt kjötátið yfir hátíðirnar. Menn þrá að fá soðningu," segir Eiríkur Auðunn Auðunsson, verslunarstjóri í Fiskbúðinni Vör að Höfðabakka.

"ÞETTA er einn annasamasti tími ársins. Fólk er sólgið í ferskmeti eftir allt kjötátið yfir hátíðirnar. Menn þrá að fá soðningu," segir Eiríkur Auðunn Auðunsson, verslunarstjóri í Fiskbúðinni Vör að Höfðabakka. Aðspurður segir hann það reynslu sína til margra ára að eftirspurnin haldist mikil langt fram í janúarmánuð.

Víðast hvar hefur verið fullt út úr dyrum í fiskbúðum landsins, enda finnst mörgum gott að hvíla sig á kjötneyslunni eftir jólin og fá sér eitthvað létt og hollt í maga. Eftir því sem blaðamaður kemst næst eru ýsa, lúða og lax vinsælasta fiskmetið nú um stundir, en flestir kjósa einfalda soðningu eftir kjötveislu jólanna.

Fiskur hefur selst upp

Hjá Óskari Guðmundssyni, starfsmanni í Fiskisögu í Skipholtinu, fengust þær upplýsingar að eftirspurn eftir fiski hefði verið svo mikil að allt hefði klárast um miðjan dag sl. miðvikudag sem var fyrsti afgreiðsludagur eftir jólalokun. Sagði hann framboð hafa aukist til muna enda fleiri sjómenn að róa. Fólk þyrfti því ekki að óttast að koma að tómum kofunum.

Að sögn Geirs Vilhjálmssonar, sem á og rekur Fiskbúðina Hafberg í Gnoðarvoginum ásamt föður sínum Vilhjálmi Hafberg, er fiskneysla mikil allan desembermánuð og helst aukin eftirspurn eftir fiski út febrúarmánuð. "Hér er reyndar alltaf mikið að gera," segir Geir þegar hann er inntur eftir því hvort sérstakt álag hafi verið allra síðustu daga.