Lögreglumaður sem handtók kvikmyndaleikstjórann Mel Gibson í sumar fyrir ölvunarakstur, segir yfirmenn sína hafa ofsótt sig í kjölfarið en lögregluskýrslu, þar sem drykkjurausi Gibsons um gyðinga var lýst í smáatriðum, var lekið til fjölmiðla í kjölfar...

Lögreglumaður sem handtók kvikmyndaleikstjórann Mel Gibson í sumar fyrir ölvunarakstur, segir yfirmenn sína hafa ofsótt sig í kjölfarið en lögregluskýrslu, þar sem drykkjurausi Gibsons um gyðinga var lýst í smáatriðum, var lekið til fjölmiðla í kjölfar handtökunnar.

Blaðið Los Angeles Times segir á fréttavef sínum að lögreglumaðurinn, sem heitir James Mee , hafi verið fluttur í önnur störf og yfirheyrður af lögreglumönnum í nokkra klukkutíma. Þá lögðu lögreglumenn hald á tölvu Mee og fengu afrit af símreikningum hans.

"Líf hans og störf væru mun auðveldari hefði hann ekki tekið þátt í þessari handtöku," hefur blaðið eftir Richard Shinee , lögmanni Mee.

Mee handtók Gibson 29. júlí í Malibu. Handtökuskýrslan, sem Mee skrifaði undir, var í kjölfarið birt á fréttavefnum TMZ sem sérhæfir sig í fréttum af frægu fólki. Þar kom fram að Gibson hefði verið stóryrtur og yfirlýsingaglaður og m.a. sagt að gyðingar bæru ábyrgð á öllum stríðsátökum í heiminum. Gibson bað gyðinga síðar afsökunar og játaði sig sekan um ölvunarakstur og önnur þau afbrot sem hann var ákærður fyrir.

Neal Tyler , deildarstjóri á skrifstofu lögreglustjóra þar sem Gibson var handtekinn, vísar því á bug að Mee hafi sætt óréttmætri meðferð en vildi ekki ræða málið sökum trúnaðarskyldu.

Rannsókn var hafin á því hvort Gibson hefði sætt sérstakri meðferð hjá lögreglu og hver hefði lekið handtökuskýrslunni til TMZ.