Góður Gilbert Arenas leikmaður Washington Wizards sér fátt annað en körfuna í leikjum liðsins og hér fer hann framhjá Gerald Wallace leikmanni Charlotte Bobcats. Arenas er þriðji stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar.
Góður Gilbert Arenas leikmaður Washington Wizards sér fátt annað en körfuna í leikjum liðsins og hér fer hann framhjá Gerald Wallace leikmanni Charlotte Bobcats. Arenas er þriðji stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar. — Reuters
AÐ venju var mikið um að vera í NBA-deildinni í körfuknattleik í Bandaríkjunum í fyrrinótt þar sem 11 leikir fóru fram. Þrjár framlengingar þurfti til þess að knýja fram úrslit í leik New York Knicks og Detroit Pistons.

AÐ venju var mikið um að vera í NBA-deildinni í körfuknattleik í Bandaríkjunum í fyrrinótt þar sem 11 leikir fóru fram. Þrjár framlengingar þurfti til þess að knýja fram úrslit í leik New York Knicks og Detroit Pistons. Pat Riley, þjálfari meistaraliðs Miami Heat, gagnrýndi Kirk Hinrich, leikmann Chicago Bulls, fyrir "bolabrögð" en það sem vekur kannski mesta athygli í NBA þessa dagana er lið Washington Wizards.

Pat Riley, þjálfari meistaraliðs Miami Heat í NBA-deildinni í körfuknattleik, benti vísifingri að Kirk Hinrich, leikmanni Chicago Bulls, eftir 109:103-sigur Bulls gegn Heat í fyrrinótt en þar meiddist Dwayne Wade, leikmaður Heat, á úlnlið. Wade, sem var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar sl. vor, hefur átt við meiðsli að stríða á úlnlið og sagði Riley að Hinrich væri sá leikmaður NBA-deildarinnar sem kæmist upp með að toga í hendur og keppnistreyjur leikmanna án þess að eitthvað væri dæmt.

Ben Gordon skoraði 40 stig fyrir Bulls en hann kom inn á sem varamaður í leiknum og hefur hann aldrei áður skorað eins mörg stig í leik. Hann er fyrsti leikmaður Bulls frá árinu 2000 sem nær að skora 40 stig í leik en Elton Brand gerði það síðast árið 2000.

"Hinrich reif í hendina á Wade og þetta gerir hann í hvert sinn sem hann fær tækifæri til þess að gera slíkt. Hann kemst upp með þetta, að rífa og toga í hendur leikmanna eða keppnistreyjur þeirra," sagði Riley. Wade fór í röntgenmyndatöku eftir leikinn – hann er ekki brotinn en verður líklega frá í einhvern tíma.

Töfrar á ferð í Washington?

Washington heldur sínu striki í sóknarleiknum og í fyrrinótt hafði Wizards betur gegn Charlott Bobcats, 114:107. Gilbert Arenas skoraði 39 stig fyrir Wizards en Gerald Wallace skoraði 40 stig fyrir Bobcats.

"Við erum lið sem skorar mikið og í þessu liði fá allir tækifæri til þess að koma boltanum ofan í körfuna," sagði Arenas en hann hefur skorað 30 stig eða meira í síðustu 5 leikjum.

Caron Butler skoraði 25 stig fyrir Wizards og Antawn Jamison skoraði 17 stig og tók 11 fráköst.

Wizards hefur skorað 106 stig eða meira í síðustu 12 leikjum og ekkert lið hefur afrekað slíkt frá árinu 1994 er Phoenix Suns gerði slíkt hið sama.

Framfarir hjá Knicks

Það þurfti þrjár framlengingar til þess að knýja fram úrslit í viðureign New York Knicks og Detroit Pistons en Knicks hafði betur, 151:148. Þetta er þriðji leikurinn á síðustu 10 dögum þar sem Knicks sigrar eftir framlengingu. Richard Hamilton fór á kostum í liði Pistons og skoraði 51 stig en hann er fyrsti leikmaðurinn sem skorar yfir 50 stig gegn Knicks frá því að Michael Jordan skoraði 55 stig fyrir Chicago Bulls árið 1995. Hamilton hefur aldrei áður skorað eins mörg stig í leik en hann skoraði 44 stig gegn Cleveland árið 2003.

"Ég gaf leikmönnum mínum A+ í einkunn eftir leikinn. Ég hef ekki séð eins mikla baráttu hjá NBA-liði lengi. Við erum á réttri braut og ég hef trú á þessu liði," sagði Isiah Thomas, þjálfari Knicks, en hann var á árum áður einn besti leikmaður NBA-deildarinnar sem leikmaður Detroit Pistons.

Smush Parker var aðalmaðurinn hjá LA Lakers sem lagði Orlando Magic að velli, 106:93, í fyrrinótt. Parker skoraði 18 af alls 20 stigum sínum í þriðja leikhluta en Kobe Bryant skoraði 27 stig fyrir Lakers og gaf 7 stoðsendingar.

Lakers lauk þar með ferðalagi sínu á austurströndinni þar sem liðið vann 3 leiki á útivelli. Grant Hill skoraði 20 stig fyrir Magic sem tapaði þriðja leiknum í röð.

Í hnotskurn
» Carmelo Anthony, leikmaður Denver Nuggets, er stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar með 31,6 stig að meðaltali í leik. Anthony var á dögunum úrskurðaður í 15 leikja keppnisbann vegna slagsmála í leik gegn New York Knicks.
» Allen Iverson, félagi hans úr Denver Nuggets, er næststigahæstur með 30,5 stig að meðaltali og þriðji í röðinni er Gilbert Arenas úr Washington Wizards með 30 stig að meðaltali.