Fastir vextir eyða óvissu NEFND sem fjallaði um vaxtamyndun á lánsfjármarkaði leggur m.a. til í skýrslu sinni að frá og með næstu áramótum verði einungis heimilað að hafa fasta vexti af verðtryggðum útlánum.

Fastir vextir eyða óvissu

NEFND sem fjallaði um vaxtamyndun á lánsfjármarkaði leggur m.a. til í skýrslu sinni að frá og með næstu áramótum verði einungis heimilað að hafa fasta vexti af verðtryggðum útlánum. Þó verði heimilt að endurskoða vexti á lánstímanum á nokkurra ára fresti með hliðsjón af markaðsaðstæðum og hafi lántakandi þá rétt til að greiða skuld sína upp. Finnur Sveinbjörnsson, formaður nefndarinnar, segir þetta mikið réttlætismál, því við núverandi aðstæður séu lántakendur í mikilli óvissu um hvort þeir vextir sem þeir semdu um hækkuðu á lánstímanum og hvort þeir gætu staðið undir vaxtabyrðinni.

Nefndin vill að jafnframt verði hugað að því hvort ástæða sé til þess að draga úr breytanleika vaxta á verðtryggðum innlánsreikningum þannig til dæmis að vextir væru einungis breytanlegir við upphaf hvers binditímabils.

Finnur sagði að bankarnir gætu í dag breytt vöxtum á verðtryggðum útlánum hvenær sem væri og sumir einstaklingar sem tekið hefðu lán þegar vextirnir voru lágir hefðu lent í því að þurfa allt í einu að greiða allt upp í 9-10% vexti. Það væri því óheppilegt fyrir lántakendur að vita ekki hvort þeir hefðu möguleika á að standa undir þessum vaxtakostnaði. Þetta þýddi líka að vaxtabyrði allra lántakenda sveiflaðist eins á sama tíma sem væri á ýmsan hátt óheppilegt.

Finnur benti á að Seðlabankinn hefði í dag heimild samkvæmt Ólafslögum til að ákveða að vextir af verðtryggðum lánum væru fastir, en það hefði þó aldrei verið gert.

Um útfærslu þessarar hugmyndar sagði Finnur hugsanlegt að bestu lántakendurnir fengju kannski 8% fasta vexti í einhvern tiltekinn tíma, eitt til þrjú ár, óháð breytingum á öðrum vöxtum, sem yrðu svo endurskoðaðir með hliðsjón af markaðsaðstæðum en aðrir lántakendur gætu þurft að semja um hærri fasta vexti.