Ráðinn til að sjá um framleiðslu á ofnum í Króatíu "NÚNA er að rætast nærri 10 ára gamall draumur um að komast til hjálparstarfa erlendis en í árslok 1984 hafði ég ráðið mig til starfa í Súdan fyrir Hjálparstofnun norsku kirkjunnar sem ekkert varð af...

Ráðinn til að sjá um framleiðslu á ofnum í Króatíu "NÚNA er að rætast nærri 10 ára gamall draumur um að komast til hjálparstarfa erlendis en í árslok 1984 hafði ég ráðið mig til starfa í Súdan fyrir Hjálparstofnun norsku kirkjunnar sem ekkert varð af vegna borgarastríðsins sem braust þá út í Súdan. Í þetta sinn mun ég starfa á vegum Lútherska heimssambandsins í Króatíu og er ráðinn þangað fyrir milligöngu Hjálparstofnunar kirkjunnar," segir Auðunn Bjarni Ólafsson sem heldur af stað þangað nú um miðjan mánuðinn.

Hjálparstofnun kirkjunnar auglýsti í vor eftir fjármálastjóra til starfa þar og var Auðunn Bjarni ráðinn úr hópi nærri 30 umsækjenda. Mál hafa hins vegar þróast þannig að Auðunn Bjarni verður fenginn til að sjá um framleiðslu og dreifingu á ofnum og undirbúa vetrarkomuna og er hér að minnsta kosti um þriggja mánaða verkefni að ræða.

"Hlutverk mitt verður að sjá um framleiðslu á ofnum, eins konar kabyssum, í fjórum verksmiðjum í Bosníu og sjá síðan um dreifingu og uppsetningu þeirra," segir Auðunn Bjarni Ólafsson í samtali við blaðamann Morgunblaðsins. "Þetta er samvinnuverkefni Lútherska heimssambandsins og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ofnarnir verða settir upp víða í Bosníu og Króatíu og er uppsetning þeirra liður í að búa fólk undir veturinn sem þarna verður iðulega kaldur og harður. Öll dreifing á gasi og rafmagni til húshitunar er í molum og þess vegna er ráðist í að útvega fólki þessa ofna. Ég geri ráð fyrir að vera talsvert á ferðinni um ýmis héruð í Bosníu og Króatíu en aðsetur skrifstofu Lútherska heimssambandsins er í Zagreb."

Yfirmaður starfs Lútherska heimssambandsins í Króatíu er John Wood sem starfað hefur um árabil að þróunar- og hjálparstörfum fyrir Sameinuðu þjóðirnar og fleiri aðila en hann heimsótti Ísland snemma á sumrinu og hélt háskólafyrirlestur um ástandið á Balkanskaga og bakgrunn þess. Auðunn Bjarni Ólafsson hefur starfað að sölu- og markaðsmálum og nú síðast séð um fiskútflutning fyrir Brim, dótturfyrirtæki O. Johnson og Kaaber, en áður var hann sveitarstjóri á Hellissandi. Hann er fjölskyldumaður, á konu og þrjú börn. En er ekkert vafasamt fyrir fjölskyldumann að halda til starfa á stríðsátakasvæðum Balkanskagans?

"Það verður bara að koma í ljós og auðvitað má segja að nokkur áhætta fylgi slíku hjálparstarfi á átakasvæðum. Við erum hins vegar utan við mestu átakasvæðin og ég hygg nú að Lútherska heimssambandið láti ekki starfsmenn sína taka óþarfa áhættu.

Vonandi getur síðan orðið framhald á störfum fyrir Lútherska heimssambandið sem sér um ýmis þróunar- og hjálparstarfsverkefni víða um heim en það var fyrir áhuga minn á slíkum störfum að ég sótti upphaflega um," segir Auðunn Bjarni Ólafsson að lokum.

Morgunblaðið/Sverrir

Á leið til

Balkanskaga

AUÐUNN Bjarni Ólafsson mun næstu þrjá mánuði sinna hjálparstörfum á Balkanskaga fyrir Lútherska heimssambandið.