Árni Johnsen sendir frá sér plötu Ætíð mörg járn í eldinum ­ segir Árni, en 19 ár eru liðin frá síðustu plötu ÁRNI Johnsen, alþingismaður, blaðamaður og tónlistarmaður, hefur fengist við tónlist meðfram annarri iðju í áraraðir.

Árni Johnsen sendir frá sér plötu Ætíð mörg járn í eldinum ­ segir Árni, en 19 ár eru liðin frá síðustu plötu

ÁRNI Johnsen, alþingismaður, blaðamaður og tónlistarmaður, hefur fengist við tónlist meðfram annarri iðju í áraraðir. Frá því hann sendi síðast frá sér plötu, fyrir um nítján árum, hefur hann samið grúa laga og flutt víða, en ekki gefið sér tíma til að taka upp plötu fyrr en í vor að hann hljóðritaði plötuna Vinir og kunningjar og kom út fyrir stuttu. Á plötunni eru 17 lög úr ýmsum áttum. Milljónaútgáfan Einidrangur gefur út en Japis sér um dreifingu.

Árni Johnsen hefur verið viðriðinn tónlist svo lengi sem menn muna, en tónlistin hefur ævinlega verið í bland við aðra fjölbreytta iðju hans. Þannig hefur hann sungið víða og stjórnað stærstu kórum landsins á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum ár hvert, setið á þingi og stundað blaðamennsku svo eitthvað sé nefnt.

Nítján ár eru síðan Árni sendi síðast frá sér plötu, en hann segist ekki hafa lagt gítarinn á hilluna í millitíðinni. "Mín spilamennska hefur verið tvíþætt. Ég hef spilað í fjöldasöngstíl, sem er sérfag, og svo verið líka í flutningi á vísnatónlist, hér heima og erlendis. Í kjölfar þess að ég gaf út þriðju plötu mína jókst til muna vinna mín í brauðstriti, ef svo má segja, og þar sem það er mikið mál að gefa út plötu þá hefur það beðið. Á þessum tíma hefur safnast mikið af lögum og ég á í raun efni á margar plötur, og eitthvað af þessu langaði mig að gefa út.

Mörg járn í eldinum

Ég hef alla tíð verið með mörg járn í eldinum og þjálfast upp í því. Ég vinn að vísu langan vinnudag, en það er mér mjög létt. Það getur verið hvíld í því að taka gítarinn, ekki síður en það getur verið hvíld í því að grípa í uppvaskið eða grafa skurð, þetta fer allt eftir því hvað það er sem ég er að gera í hvert sinn. Ég hef aldrei verið mikill dellumaður í mínum áhugamálum; ég nýti bara minn tíma í að gera það sem þarf að gera og ég hef áhuga á. Mitt starf er þingmennska og svo gefst tækifæri til að grípa í gítarinn og blaðamennsku og sitthvað fleira, en fyrst og fremst er ég bara eins og ég er."

Árni segist hafa byrjað fyrir nokkru á plötunni, "en Jón bassi Sigurðsson útsetti plötuna fyrir mig. Síðan greip ég tækifærið um síðustu páska og tók plötuna upp á fjórum dögum, en þess má geta að þetta var síðasta platan sem tekin var upp í stúdíói Stemmu. Við upptökurnar aðstoðuðu mig fjölmargir, Sigurður Rúnar Jónsson stjórnaði upptökum og hljóðblandaði, og lék að auki á mandólín, Hammondorgel, fiðlu og fleiri hljóðfæri, Vilhjálmur Guðjónsson aðstoðaði mig við gítarleik, Jón Sigurðsson lék vitanlega á bassa, Grettir Björnsson á harmonikku, Pétur Grétarsson á trommur og Jóhanna Linnet söng í einu lagi," segir Árni. Hann sagði ekki mikið mál að vinna plötu á skömmum tíma, það sem skipti máli sé að vera búinn að undirbúa upptökur og koma í hljóðverið með plötuna tilbúna. "Þegar maður er hvorki mikill tónlistarmaður eða söngvari, þá þarf maður að renna inn í það tempó sem maður er með og allt þarf að hljóma saman."

"Syng í mínum stíl"

Hljóðfæraskipan á Vinum og kunningjum er fjölbreytt og Árni segist kunna því vel, þó vissulega séu fjölmörg lög þar sem stemmningin kalli á það að hafa bara gítar og rödd. "Ég syng meira á þessari plötu en fyrri plötum og þegar maður er að tala um söng er það ákveðinn stíll, minn stíll, eins og ég syng.

Þessi plata er engin tímamót í mínu lífi. Þetta er bara eitthvað sem mig langaði til að gera og gerði því og hafði gaman af." Árni segist munu sinna tónlistinni áfram eins og hingað til, í það minnsta á meðan hann hafi gaman af því, en það verði eins og áður hluti af fjölbreyttri iðju.

Viðtal Árni Matthíasson

Morgunblaðið/RAX

Árni Johnsen.