Arnaldur Arnarson kemur frá Spáni til að spila í Gerðubergi Flottur gítar ARNALDUR Arnarson gítarleikari hafði enga tilfinningu fyrir klassískum gítar þegar hann byrjaði að læra tíu ára gamall. "Mér fannst hann bara flottur.

Arnaldur Arnarson kemur frá Spáni til að spila í Gerðubergi Flottur gítar

ARNALDUR Arnarson gítarleikari hafði enga tilfinningu fyrir klassískum gítar þegar hann byrjaði að læra tíu ára gamall. "Mér fannst hann bara flottur. Eftir 24 ár er ég náttúrulega enn hrifinn af því hvernig gítar getur hljómað. Maður hefur þetta hljóðfæri í fanginu og gælir við það með fingrunum. Tilfinningin verður náin." Á tónleikum í Gerðubergi í dag gefst færi á að heyra Arnald leika á gítarinn ný og gömul verk af latneska menningarsvæðinu. Íslenskir gítarunnendur þekkja Arnald þótt hann hafi búið á Spáni í níu ár og hinir sem óvanir eru gítartónlist geta að hans sögn einnig komið óhikað á tónleikana í dag, efnisskráin sé áheyrileg og gædd léttari náttúru en það til að mynda sem hann spilaði hér síðast, á Listahátíð 1991.

ónleikarnir hefjast á verki eftir Ítalann Mauro Giuliani(1781-1829) og á eftir fylgir tónsmíð samtímamanns hans, Fernandos Sor frá Katalóníu. Þá kemur svíta eftir Frederic Mompou(1893-1987) sem einnig var Katalóni og um árabil meðal virtustu tónskálda á Spáni. Efnt var til nokkurra tónleika í Barcelona síðastliðið vor í tilefni af því að öld var frá fæðingu hans og kveðst Arnaldur hafa orðið afar ánægður með að vera boðið að spila þar. Eftir hlé leikur hann fjögurra ára gamalt verk eftir góðan kunningja sinn í Barcelona, David Padros. Síðan mexíkósk þjóðlög eftir Manuel Maria Ponce(1882-1948), Norðanstúlku Argentínumannsins Jorges Gomezar Crespo og spænska verkið Á hveitiökrunum eftir Joaquín Rodrigo. Að lokum Sónatínu eftir annan Spánverja, Federico Moreno-Torroba(1891-1982). Það er stærra verk en hin sem hljóma síðari hluta tónleikanna, en fyrsta verk þeirra og hið þriðja eru einnig nokkuð viðamikil.

Arnaldur hóf gítarnám í Svíþjóð og hélt áfram í tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar undir handleiðslu Gunnars H. Jónssonar. Þar lauk hann námi 1977 og fór til Englands í framhaldsnám. Kennarar hans við Royal Northern College of Music í Manchester voru Gordon Grosskey, George Hadjinikos og John Williams. Eftir lokapróf 1982 kenndi Arnaldur einn vetur í Tónskóla Sigursveins en hélt þá utan aftur. Hann var eitt ár við framhaldsnám hjá José Tomás í Alicante á Spáni og hefur síðan 1984 búið í Barcelona. Hann sótti námskeið hjá nokkrum gítarsnillingum til viðbótar og fór að kenna við stærsta einkarekna tónlistarskóla borgarinnar. Það gerir hann enn og býr raunar með spænskri konu sem hann segir stutt og laggott að sé skólastjórinn. Þau halda í vetur upp á fimmtán ára afmæli skólans.

Nemendur Luthier tónlistarskólans eru um 400 talsins og þar er að sögn Arnaldar afar sterk gítardeild. Sjö gítaristar kenna og nemendurnir eru allt frá smákrökkum upp í fólk í framhaldsnámi og nú eru fimm nemendur svo langt komnir. Arnaldur segir þetta býsna hátt hlutfall, algengt sé að menn ljúki ekki einleikaraprófi, en fari út í kennslu eða snúi sér að öðru.

"Gítarleikari er nánast dæmdur til að vera einleikari og til þess þarf svolítið sérstakt viðhorf. Það hentar bara ekki öllum. Fiðluleikari til dæmis á miklu auðveldara með að fá vinnu í hljómsveit og mörgum líður líka betur í hóp. Reyndar færist í vöxt að gítaristar skapi sér verkefni í kammermúsík. Sjálfur er ég einleikari, en óskaplega latur að koma mér á framfæri. Hef þó spilað talvert víða á tónleikum og tekið þátt í keppni öðrum hvoru."

Á síðasta ári vann Arnaldur Fernando Sor gítarkeppnina sem haldin er í Róm, líklega fyrstur íslenskra tónlistarmanna til þess að sigra í keppni sem opin er atvinnumönnum. Hvernig heldur hann sér við og sinnir að auki kennslu og skipulagsstörfum í skólanum?

"Ég reyni að æfa mig eitthvað á hverjum degi en hef enga sérstaka rútínu - er hálfgerður óreglupési hvað það varðar. En mér finnst mikilvægt að nýta vel tímann með hljóðfærið og reyni að vanda mig við æfingar. Séu ákveðin verkefni framundan tek ég mig til og einbeiti mér. Þannig er ákaflega misjafnt hvernig ég vinn, hef fáa nemendur en oft í mjög mörgu að snúast fyrir skólann og takmarkaðan tíma til annars. Þetta gengur nú einhvern svona hjá mér en hver og einn verður að finna sjálfur hvað við á."

Mig langar að vita um tækni og tilfinningu gítarleikarans og spyr Arnald hvort hann sé líkari skurðlækni eða myndlistarmanni. Hvort hann geti til dæmis tekið sér langt hlé og byrjað svo aftur eins og ekkert sé? Hann segist vinna svo mikið með líkamanum og það skipti miklu máli hvernig hann byrji aftur eftir tímabil með gítarinn uppi á hillu. Þá megi ekki setjast niður og djöflast tímunum saman.

Annars sé hvort tveggja mikilvægt tilfinning og tækni og forvitni sé eitt í viðbót sem hjálpi sér ábyggilega. "Ég er alltaf að læra ný og ný verk og held að hvað aðferðina varðar líkist ég helst leikara. Mér finnst þurfa að setja sig inn í tónlistina, svipað og mér skilst að leikarar kynni sér ekki aðeins verkið heldur höfund þess og það tímabil og tíðaranda sem það verður til í. Svo getur sjálf vinnan með verkið hafist af alvöru."

Arnaldur kennir smáum hópi nemenda á lokastigi gítarnáms við Luthier-skólann og hefur að auki fólk í einkakennslu. Nokkrir Íslendingar hafa lært hjá honum og í vetur bætist í þann hóp maður að nafni Halldór Már Stefánsson. Arnaldur segir að annatímar komi í skólanum og svo taki eitthvað annað við; tónleikar eða skipulagning námskeiða. Hann hefur til að mynda tvisvar fengið Kristin Sigmundsson til Spánar að leiðbeina um ljóðasöng. Sjálfur hefur Arnaldur gert talsvert af því að halda námskeið og nú í sumar kenndi hann á Akureyri í annað sinn.

"Ég hefði gaman af að starfa meira hér heima. Hér á ég sterkar rætur og þekki marga." En hann kveðst ekki á heimleið, ekki til að vera. Heldur sig mest í gítarlandinu Spáni og ætlar í dag að veita tónleikagestum hlutdeild í því.

Þ.Þ.

Morgunblaðið/Þorkell

Arnaldur Arnarson gítarleikari.