Stór list á litlu sviði Coppelía sýnd í Íslensku óperunni Það er fleira en gullin birta haustlaufanna sem getur gert okkur glatt í geði þessa dagana.

Stór list á litlu sviði Coppelía sýnd í Íslensku óperunni Það er fleira en gullin birta haustlaufanna sem getur gert okkur glatt í geði þessa dagana. Þegar skyggja tekur á kvöldin, tylla sér á tær ljósklæddar verur á sviði Íslensku óperunnar og dansa söguna um brúðuna Coppelíu. Það er Íslenski dansflokkurinn sem nú er að hefja aftur sýningar á þessum ómótstæðilega ballett, í nýju húsi, á nýju sviði ­ en eins og eflaust marga rekur minni til var Coppelía sýnd við miklar vinsældir í Borgarleikhúsinu á síðastliðnu leikári. Fyrsta sýningin í Íslensku óperunni verður föstudaginn 22. október og önnur sýning sunnudaginn 24. október, en þess má einnig geta að þriðjudaginn 19. október verður Íslenski dansflokkurinn með "Opið hús" í Óperunni klukkan 20.00, þar sem hægt verður að fylgjast með æfingum og undirbúningi fyrir sýningarnar.

að liggur í augum uppi að til að færa svo viðamikla sýningu frá stóra sviði Borgarleikhússins yfir á sviðið í Íslensku óperunni hefur þurft ansi mörg handtök og óteljandi spor. Listdansstjóri flokksins, María Gísladóttir, hefur haft það verk með hendi og segir það hafa gengið furðanlega vel ­ þótt vissulega hafi þurft mikla útsjónarsemi til.

"Þetta þýddi að við þurftum að fækka nemendum sem taka þátt í sýningunni hverju sinni," segir María. "En til þess að allir fái að vera með, látum við nemendur Listdansskólans dansa til skiptis. Við þurftum líka að laga sýninguna að sviði Íslensku óperunnar og byggja framan á sviðið. Til að þetta yrði framkvæmanlegt, þurftum við auðvitað að hafa góða aðlögunarhæfileika ­ eins og aðrir í þjóðfélaginu á þessum tímum ­ og ég er mjög stolt af því hvað dansararnir hafa verið viljugir að aðlaga sig breyttum stað.

Dans er hreyfing og hreyfing þarf pláss. Dönsurunum hefur tekist að dansa meira "undir sig" í stað þess að hreyfast mikið um sviðið. Það væri auðvitað ómögulegt ef dansararnir ættu að dansa svona til frambúðar, því þá gætu þeir aldrei aftur dansað á stóru sviði. Vissulega reynir þetta meira á dansarana; þeir þurfa að beita mun meiri styrk og hafa enn betra jafnvægi en þegar dansað er á mikilli hreyfingu. Það má segja að þetta reyni á ólíka þætti.

Hvað leikmyndina varðar, þá voru húsin minnkuð, annað þeirra töluvert og þau færð eins utarlega á sviðið og hægt var. Við færðum einnig sviðið fram, þannig að við lokuðum hljómsveitargryfjunni. Hljómsveitin verður því að sitja úti í sal. Það kom okkur á óvart hvað það er í rauninni skemmtilegt og gefur sýningunni allt annan blæ. Það hefur verið sagt að ballett sé leikrit án orða. Munurinn hjá okkur nú er sá að Coppelía er leikrit án orða ­ en sýningin er um leið tónleikar.

Við hjá Íslenska dansflokknum áttum von á að þetta yrði mun erfiðara en reynst hefur, en starfsfólk Íslensku óperunnar hefur verið alveg einstakt. Það er svo furðulegt eftir margra ára baráttu við kerfi sem byrjar og endar á setningunni "ekki hægt" að koma inn í hús, þar sem allir eru tilbúnir til að leggja sitt ýtrasta af mörkum til að hlutirnir gangi upp. Við fundum strax að í óperunni hugsar fólk eins og við; það er tilbúið að leggja nótt við dag til að skapa góða sýningu, þar eru allir til í að ganga í hvaða störf sem er og enginn bendir á starfsheiti sitt. Starfsfólkið þarna er einstakt.

En um leið er það undarleg kaldhæðni hér á landi, að þær tvær listgreinar sem þurfa stærsta leiksviðið, eru með það allra minnsta. Okkur óx það í augum til að byrja með, en málið snerist um að gefast upp og sýna ekki aftur fyrr en í febrúar. Það er afleitt fyrir dansara sem vilja halda sér í þjálfun og því hafa allir lagt sig fram um að gera þessa sýningu sem besta."

Og víst er, að Íslenski dansflokkurinn ætlar að sanna að hann er kominn til að vera, því þótt aðaldansararnir hafi nánast þurft að endurlæra hlutverk sín, vegna breytinga, er erfitt að sjá að eitthvað hafi breyst frá stóra sviði Borgarleikhússins. Ef eitthvað er, þá er sýningin þéttari, samhæfingin orðin meiri og framandleiki Íslenska dansflokksins gagnvart svona stóru verkefni er horfinn.

Íslenska dansflokknum hefur einnig borist liðsauki, sem er Paola Villanova frá Ítalíu. Hún dansar hlutverk Svanhildar á frumsýningunni í Íslensku óperunni 22. október og á móti henni dansar Mauro Tambone hlutverk Franz. Á sýningunni 24. október dansar svo Lára Stefánsdóttir hlutverk Svanhildar og Eldar Valiev dansar hlutverk Franz.

ssv

Úr Coppelíu.