Íslenska Suzuki-sambandið Afmælistónleikar í Seljakirkju Tónleikar vegna 95 ára afmælis Shinichi Suzukis verða haldnir í Seljakirkju við Raufarsel sunnudaginn 17. október, klukkan 16.

Íslenska Suzuki-sambandið Afmælistónleikar í Seljakirkju Tónleikar vegna 95 ára afmælis Shinichi Suzukis verða haldnir í Seljakirkju við Raufarsel sunnudaginn 17. október, klukkan 16. Það er Íslenska Suzuki-sambandið sem heldur tónleikana og á þeim koma fram börn sem stunda tónlistarnám samkvæmt kennsluaðferðum Suzukis og verður leikið á fiðlur, selló og píanó. Suzuki-aðferðin er nú kennd við fimm tónlistarskóla á Íslandi; í Keflavík og Njarðvík, á Akureyri og tveimur skólum í Reykjavík; Tónskóla Sigursveins og í Suzuki-skólanum. Alls eru um 260-270 nemendur að læra eftir Suzuki-aðferðinni og að sögn forráðamanna Íslenska Suzuki-sambandsins eru mörg börn á biðlista.

angstærstur hluti þeirra kennara sem kenna eftir þessari aðferð hér á landi hafa aflað sér réttinda á námskeiðum á vegum Íslenska Suzuki-sambandsins erlendis, sem var stofnað árið 1985 til að stuðla að útbreiðslu og viðgangi aðferðar Shinichi Suzukis í uppeldismálum á Íslandi.

Shinichi Suzuki fæddist í Nagoya í Japan árið 1898. Faðir hans stofnaði fyrstu fiðluverksmiðjuna í Japan um 1890 og var hún á þeim tíma sú stærsta í heimi með 1.100 manns í vinnu sem smíðuðu 400 fiðlur daglega. Suzuki var elsti sonurinn og var alinn upp með það fyrir augum að hann tæki við af föður sínum þegar fram liðu stundir. Í æsku var áhugi Suzukis hvorki mikll fyrir fiðlum né fiðluleik en hann segir sjálfur frá því þegar fjölskyldan eignaðist plötuspilara og hann keypti fyrstu plötuna sína sem var Ave Maria eftir Schubert, leikin af Mischa Elman á fiðlu. Platan hafði mikil áhrif á hann. Hann var þá 17 ára gamall og honum hafði aldrei komið til hugar að svona fallegur tónn gæti komið úr fiðlu, þessu hljóðfæri sem hann hafði handfjatlað og leikið sér að alla ævi og aldrei litið öðrum augum en leikfang. Hann byrjaði að læra á fiðlu og kom sér í kynni við vestræna tónlist, menningu og þær hugmyndir sem þá voru efstar á baugi.

Það var þó ekki fyrr en í lok seinni heimsstyrjaldarinnar að Suzuki, þá 47 ára gamall, ákvað að helga líf sitt menntun barna í tónlist. Áhugi hans á að kenna ungum börnum vaknaði þegar hann var á sautjánda ári, en á því ári segist Suzuki "hafa fæðst, þá kom í ljós minn innri maður". Honum finnst það hafa gerst þegar hann heyrði fiðlutónlist í fyrsta sinn.

Suzuki var miður sín yfir þeim börnum sem þjáðust vegna hörmunga stríðsins, þannig að hann varð enn ákveðnari í að helga líf sitt því að hjálpa þeim. Árið 1945 var honum boðin staða við tónlistarskólann í Matsumoto, en hann hafði ekki áhuga á að kenna eftir hefðbundinni tónlistaraðferð. Suzuki vildi prófa að kenna ungum börnum eftir aðferð sem hann hafði þróað. Ætlun hans var ekki að búa til snillinga, eins og svo margir héldu, heldur vildi hann þróa þá hæfileika sem ung og ómótuð börn hafa.

Á næstu þremur áratugunum eyddi Suzuki miklum tíma við rannsóknir og þróun á gerð kennslubóka og efnis til að nota við barnakennslu. Árangur af vinnu hans lét ekki á sér standa og aðferð hans hefur breiðst út um allan heim og sífellt fleiri aðhyllast hugmyndir hans.

ssv

Suzuki-nemendur leika á fiðlur sínar.