2 árs fangelsi fyrir hnífaárás í miðbænum Stunginn sex sinnum með fjaðurhníf DAVÍÐ Trausti Oddsson, 18 ára, var í gær dæmdur í fangelsi í 2 ár og 6 mánuði í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa stungið jafnaldra sinn sex hnífsstungum með fjaðurhníf og...

2 árs fangelsi fyrir hnífaárás í miðbænum Stunginn sex sinnum með fjaðurhníf

DAVÍÐ Trausti Oddsson, 18 ára, var í gær dæmdur í fangelsi í 2 ár og 6 mánuði í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa stungið jafnaldra sinn sex hnífsstungum með fjaðurhníf og veitt honum hættulega brjóstholsáverka, sem gera þurfti að með bráðaaðgerð. Árásin átti sér stað við Dómhúsið við Lækjartorg í Reykjavík aðfaranótt 25. júlí í sumar. Hinum dæmda var einnig gert að greiða þeim sem fyrir árásinni varð 309 þúsund krónur í bætur, auk sakarkostnaðar og málsvarnarlauna til verjanda síns.

Aðdragandi árásarinnar var sá að bróðir árásarmannsins lenti í útistöðum við pilt í miðbænum og kallaði á bróður sinn til aðstoðar. Árásarþolinn sagðist hafa ætlað að ganga á milli og róa árásarmanninn sem við það hafi ráðist að sér með hnífinn á lofti. Fjöldi vitna var að árásinni og yfirbuguðu nokkrir úr þeirra hópi árásarmanninn og héldu honum uns nærstaddir lögreglumenn komu á staðinn.

Af litlu tilefni

Í niðurstöðum Péturs Guðgeirssonar héraðsdómara segir að árásin hafi verið af litlu tilefni og ákærða hljóti að hafa verið ljóst að hnífsstungurnar gátu hæglega orðið piltinum að bana. Telja beri brot hans tilraun til manndráps. Þar sem pilturinn hafði ekki áður gerst sekur um refsivert athæfi og vegna ungs aldurs hans þótti hæfileg refsing vera fangelsi í tvö ár og sex mánuði.