Nýjar bækur Ljóðabók eftir Hallberg Hallmundsson SKYGGNUR er heiti á nýrri ljóðabók eftir Hallberg Hallmundsson. Í kynningu útgefanda segir m.a.: "Í verkum Hallbergs hafa tíðum togast á ljúfsár tregi eftir ættjörðinni og kímni sem oft snýst upp í...

Nýjar bækur Ljóðabók eftir Hallberg Hallmundsson

SKYGGNUR er heiti á nýrri ljóðabók eftir Hallberg Hallmundsson.

Í kynningu útgefanda segir m.a.: "Í verkum Hallbergs hafa tíðum togast á ljúfsár tregi eftir ættjörðinni og kímni sem oft snýst upp í kaldhæðni og engu hlífir. En hér eru þó hinir mildari litir ráðandi."

Skyggnur er sjötta frumsamda ljóðabók höfundarins. Hallberg hefur búið rúma þrjá áratugi erlendis og stundað þýðingar og ritstjórnarstörf. Í aldarfjórðung hefur hann auk þess frætt enskumælandi lesendur um nýjar íslenskar bækur með umsögnum sínum í bókmenntarímaritinu World Literature Today.

Bókin hefur að geyma um hálfan fimmta tug ljóða.

Bókin er 68 bls. Útgefandi er Brú, en Stensill h.f. framleiddi. Dreifingu annast Íslensk bókadreifing hf. Bókin kostar 1.687 krónur.

Hallberg Hallmundsson