Nýjar bækur Sólstafir er nafnið á nýjum bókaflokki sem Almenna bókafélagið mun gefa út. Tvær fyrstu bækurnar í þessum flokki eru Hver er sinnar gæfu smiður og Ferskeytlan. Í kynningu útgefanda segir m.a.: "Handbók Epiktets, sem hlotið hefur á íslensku...

Nýjar bækur Sólstafir er nafnið á nýjum bókaflokki sem Almenna bókafélagið mun gefa út. Tvær fyrstu bækurnar í þessum flokki eru Hver er sinnar gæfu smiður og Ferskeytlan. Í kynningu útgefanda segir m.a.: "Handbók Epiktets, sem hlotið hefur á íslensku heitið Hver er sinnar gæfu smiður, er ekki stór í sniðum, handbókin sjálf einungis 78. bls. og eftirmáli dr. Brodda 25. bls. en hún er eigi að síður ein af perlum heimspekirita. Epiktet var hellenískur heimspekingur fæddur um 50 árum e. Kr. austur í Litlu-Asíu og hertekinn þar og fluttur til Rómar sem þræll. Hann losnaði þó fljótt úr þrældómi og endaði ævi sína sem forstöðumaður virts og fjölsótts skóla í Nikoplis í Epirus.

Ferskeytlan er safn 168 íslenskra úrvalsvísna frá ýmsum tímum valið af skáldinu Kára Tryggvasyni. Vísurnar eru valdar með það fyrir augum að hver og ein geti staðið ein sér án skýringa á sama hátt og kvæði í bókum höfunda. Enginn veit höfund sumra þessara vísna, þær hafa verið húsgangar almennings í áranna og aldanna rás, en meiri hlutinn er þó merktur ákveðnum höfundum."

Í fréttatilkynningu segir: "Lausavísnagerð var áður eins konar þjóðaríþrótt Íslendinga. Minna hefur borið á henni síðustu áratugi en áður þó alltaf komi fram eitthvað af góðum vísum. Er ekki vafi á því að þessi ferskeytlubók verður mörgum kærkomin og hún ætti að auka áhuga á lausavísnagerð fremur en hið gagnstæða.

Bókin er prentuð hjá Odda hf. og kostar 1.490 kr. Þessi útgáfa er 2. prentun Ferskeytlunnar, 1. prentun kom út 1988.