Elísabet Erlendsdóttir ­ Minning Fædd 23. október 1899 Dáin 26. september 1993 Útför Elísabetar Erlendsdóttur, áður bæjar- og skólahjúkrunarkonu í Hafnarfirði, fór fram í kyrrþey, samkvæmt hennar eigin ósk, en viðstaddir voru aðeins nánustu vinir og venslafólk. Hún var prúð kona og látlaus í allri framkomu og var lítið gefin fyrir að láta á sér bera. Samt fór það svo, að í þriðjung aldar, frá 1940 til 1970, meðan hún gegndi hinu ábyrgðarmikla starfi sínu í Hafnarfirði, hafa þeir ekki verið margir samtíðarmenn hennar þar í bæ, sem þekktu hana ekki í sjón og raun, þessa hávöxnu, beinvöxnu og gerðarlegu konu, þar sem hún var tíðum á götu, klædd svarbláru kápunni sinni, gangandi á milli húsa til að vitja lasburða og sjúkra. Hún sparaði ekki sporin sín. Fór ekki í bíl á sínum tíðu ferðum um bæinn til að hlynna að fólki, líkna og hjúkra. Kærleikur hennar til þeirra, sem áttu bágt og fóru varhluta í lífinu, var mikill. Hún lagði sig alla fram í starfi sínu. Hún var hjúkrunar- og líknarkona af Guðs náð.

Elísabet Erlendsdóttir fæddist 23. október 1899 í Arnarbæli í Grímssnesi í Árnessýslu. Faðir hennar var Erlendur Sigurðsson sjómaður, fæddur 28. júlí 1874. Hann féll frá fyrir aldur fram, drukknaði 26 ára gamall. Móðir hennar var Vilborg Jónsdóttir, fædd 12. marz 1859, dáin 26. febrúar 1952, dóttir Jóns Sigurðssonar, bónda í Arnarbæli, og Sigríðar Stefánsdóttur.

Ungar stúlkur á uppvaxtarárum Elísabetar áttu ekki margra kosta völ hvað nám snerti og skólagöngu. Fyrir 1930 brýzt hún í því, af litlum efnum, að halda til Kaupmannahafnar til hjúkrunarnáms, sem hugur hennar hafði lengi staðið til. Hún lýkur hjúkrunarnámi við Frederiksberg Hospital í nóvember 1928. Hún stundar framhaldsnám í geðhjúkrun og við fæðingardeild sama spítala 1. nóvember 1928 til 1. febrúar 1929. Þá er hún ráðin að Vífilsstöðum og starfar fram á mitt ár 1930, en er þá ráðin að Sjúkrahúsinu á Siglufirði. Starfar þar til 1932, við Sólheima 1932 til 1934, Kópavogshæli 1934 til 1937, Elli- og hjúkrunarheimilið Grund 1937 til 1940, en það ár er hún ráðin til Hafnarfjarðar sem bæjarhjúkrunarkona. Þar festi hún rætur og starfar þar óslitið til ársins 1970 er hún lætur af starfi í þágu hins opinbera fyrir aldurs sakir.

En kona með innræti og hugarfari Elísabetar Erlendsdóttur lætur ekki af starfi né hættir að sinna hugðarefnum sínum; að hjúkra og líkna, þótt ekki væri hún skráð lengur til þeirra starfa á vegum hins opinbera. Það átti við hana sem og margar hennar starfssystur, sem stóðu í sömu sporum við aldursmörkin, það sem stendur í hinum helgu fræðum, að kærleikurinn fellur aldrei úr gildi, að tækifærin til þess að hjúkra og líkna eru óþrjótandi. Og á það lagði Elísabet stund, eftir að opinberu farsælu starfi hennar var lokið, að leggja þeim lið, sem voru líknarþurfi, þegar hún mátti því við koma.

Eftir að hún kom á Sólvang, en þar dvaldi hún allmörg síðustu ár sín, var hún ávallt boðin og búin til þess að hjálpa og leggja fram liðsinni sitt, þegar á þurfti að halda. Hún taldi sig heppna að mega eyða seinustu æviárunum á Sólvangi, sem hún taldi mikla fyrirmyndar stofnun á sínu sviði og hafði úrvalsfólki á að skipa. Það fannst á, þegar rætt var við hana, að hún dáðist að hjúkrunarliðinu þar og þótti vænt um það sem og annað starfsfólk þeirrar ágætu stofnunar.

Þegar frá eru talin hjúkrunar- og líknarstörfin var Elísabet óhlutdeilin um málefni annarra og gaf sig lítt að almennum félagsstörfum. En samkvæmt stöðu sinni taldi hún sér bæði ljúft og skylt að vera í "Hjúkrunarfélagi Íslands" og orðin þar heiðursfélagi fyrir alllöngu. Frá stofnun starfaði hún í Rauða kross deild Hafnarfjarðar, en í Sögu Hafnarfjarðar segir svo, á bls. 160, þriðja bindi:

"Enginn hefur starfað jafnlengi fyrir Hafnarfjarðardeild Rauða krossins og Elísabet Erlendsdóttur hjúkrunarkona, eða frá stofnun hennar, lengst af sem meðstjórnandi."

Eitt af fyrstu verkefnum deildarinnar 1941 var að halda kvöldnámskeið fyrir nokkrar konur í undirstöðu hjúkrunar. Kennsluna önnuðust Bjarni Snæbjörnsson læknir og Elísabet. Var þetta sjálfboðavinna að loknu erfiðu dagsverki.

Undirritaður var svo heppinn að kynnast heilsugæzlustörfum Elísabetar Erlendsdóttur í Lækjarskóla um margra ára skeið. Allt sem laut að hennar störfum þar var slétt og fellt og til hinnar mestu fyrirmyndar í öllu. Með henni að heilsugæzlustörfum þar störfuðu Eiríkur Björnsson læknir og Jenný Guðmundsdóttir "ljósakona". Í höndum þessara þriggja var heilzugæzlunni prýðilega borgið. Hvert þeirra þriggja var öðru samvizkusamara og var oft á því orð gert, hversu vel þetta fór þeim úr hendi.

Nú er Elísabet Erlendsdóttir öll. Á sinni tíð setti hún afgerandi svip á samtíð sína í Firðinum. Með hjúkrunar- og líknarstörfum sínum vann hún hug og hjarta fjölmargra Hafnfirðinga, sem munu minnast hennar með virðingu og af þakklátum huga. Góðar óskir og kveðjur fylgja henni yfir mærin miklu.

Þorgeir Ibsen.