Jónas Gústavsson - viðbót Vinur minn Jónas Gústavsson er látinn og langar mig til að minnast hans með nokkrum orðum. Jónas var einungis 52 ára er hann lést. Jónas var af embættismönnum kominn, sonur Gústavs R. Jónassonar ráðuneytisstjóra í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, en hann var sonur Jónasar E. bónda í Sólheimatungu í Stafholtstungum Jónssonar stúdents á Leirá Árnasonar og Kristínar Ó. Ólafsdóttur bónda í Sumarliðabæ í Holtum Þórðarsonar.

Móðir Jónasar var Steinunn dóttir Sigurðar P. Sívertsens prófessors og vígslubiskups og Þórdísar Helgadóttur lektors við prestaskólann Hálfdánarsonar og Þórhildar Tómasdóttur prests að Breiðabólstað í Fljótshlíð Sæmundssonar.

Sigurðar var einn af fyrstu kennurum Guðfræðideildar Háskóla Íslands. Hann var sonur Péturs bónda að Höfn í Borgarfirði Sigurðssonar Bjarnasonar riddara Sívertsens og konu hans Steinunnar Þorgrímsdóttur prests í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

Jónas ólst upp í foreldrahúsum við efri hluta Garðastrætis og var yngstur fjögurra systkina. Naut hann þar ástríkis foreldra minna og eldri systkina. Æskuslóðirnar voru Vesturbærinn. Við Tjörnina og Landakotstúnið voru margar bernskuminningar bundnar eins og flestra þeirra sem ólust upp á þessum slóðum.

Eftir nám í MR var lögfræðin valin að ævistarfi og að loknu lögfræðinámi árið 1968 vann Jónas almenn lögfræðistörf um tveggja ára skeið uns hann hóf störf fyrir borgarfógetaembættið í Reykjavík. Jónas var skipaður borgarfógeti 1979 og gegndi því embætti þar til fyrir rúmu ári þegar hann var skipaður héraðsdómari í Reykjavík.

Á þessum árum kynntist ég Jónasi náið og vinátta tókst með fjölskyldum okkar. Nýja starfið var honum greinileg hugleikið og átti hug hans allan. Hér voru þáttaskil í lífi hans og framtíðin virtist bjóða upp á skemmtilegt og krefjandi starf í nýju umhverfi. En líf okkar mannanna er ekki eins tryggt og okkur hættir til að trúa. Örlaganornirnar lögðu fyrir Jónas erfiða þraut sem hann hefur nú lokið án þess að kvarta.

Okkur samferðamönnum hans finnst að veröld okkar sé fátækari eftir að hann er horfinn á braut. Margir minnast starfa Jónasar fyrir borgarfógetaembættið þegar hans meðfædda lífsgleði og skopskyn lífgaði upp á tilveruna við embættisstörfin svo ógleymanleg urðu.

Jónas var um margt sérstakur maður. Hann var óvenjulega lifandi persóna sem skoðaði allt til hins ítrasta fullur áhuga. Hann kynnti sér almennt mál afar vel og tók síðan afstöðu til þeirra á grundvelli eigin sannfæringar en ekki áliti fjöldans. Hann naut trausts og virðingar bæði innan sinnar stéttar sem og annarra er honum kynntust á lífsleiðinni. Hann gekk að öllu með áhuga. Þetta átti jafnt við um starf hans sem og heimili, íbúðarhús og umhverfi. Garðræktina, heimilisstörfin svo og skíðaferðir sem voru hans líkamsrækt.

Við samferðamenn hans höfum því misst mikið þegar við njótum ekki lengur samverustunda með þessum góða vini okkar og félaga. Hann gaf okkur vissulega mikið og líf okkar er nú fátækara eftir fráfall hans.

Við tökum þátt í sorg eiginkonu Jónasar Kristínar Gyðu Jónsdóttur félagsráðgjafa og dætra þeirra tveggja, Guðrúnar Helgu og Steinunnar.

Minningin um Jónas, það sem hann kenndi okkur og þau gildi sem hann lagði áherslu á mun fylgja okkur og styrkja í hinu ókomna.

Bergsteinn Gizurarson.