Jónas Gústavsson - viðbót Þegar ég kom í landsprófsdeild í gamla Vonarstrætisskólanum endur fyrir löngu tók ég fljótlega eftir strák, sem skar sig dálítið úr marglitum hópnum. Ekki grunaði mig þá að hann ætti eftir að verða einn af mínum beztu vinum en drögin að því voru lögð árið eftir þegar við settumst í Menntaskólann í Reykjavík. Á þá vináttu féll aldrei skuggi.

Jónas Gústavsson var góður námsmaður enda mjög vel greindur, jafnvígur á flestar greinar og gekk vel í skóla. Hann var glaðlyndur og gamansamur, hlýr, traustur og félagslyndur og eignaðist því marga góða vini. Jónas gat verið stríðinn en allt var græskulaust, hann gat orðið reiður og sár ef honum fannst sér misboðið en góða skapið var ætíð skammt undan. Jónas var forvitinn og fróðleiksfús, víðlesinn og vel að sér í hvívetna. Áður en yfir lauk hafði hann séð fjöldamörg fjarlæg lönd enda voru ferðalög sameiginlegt áhugamál hans og fjölskyldu hans.

Jónas fékk gott veganesti að heiman en foreldrar hans voru öndvegisfólk, þau Steinunn Sigurðardóttir Sívertsen og Gústav A. Jónasson ráðuneytisstjóri. Á heimilinu í Garðastræti ríkti friður og virðing en jafnframt var þó nægt rými fyrir gleði og hóflega lífsnautn. Við vinir Jónasar vorum ætíð velkomnir og mér leið mjög vel í návist foreldra hans, sem þá voru nokkuð tekin að reskjast, enda var Jónas yngstur systkina sinna. Mér eru minnisstæð mörg samtölin við Steinunni, þar sem hún gaf unga fólkinu góð ráð.

Í endurminningunni eru menntaskólaárin björt og áhyggjulaus. Við bjuggum okkur þá undir lífsstarfið, að vísu með mismikilli ábyrgðartilfinningu en lífið var þá skemmtilegt og gáskafullt. Jónas var þátttakandi í mörgum af beztu endurminningum mínum frá þessum hraðfleygu árum. Eftir stúdentspróf skildu leiðir í námi en við fjórmenningarnir, Jónas, Þorkell, Gunnar og ég, héldum áfram hópinn meðan allir voru á Íslandi. Við spiluðum, tefldum, ferðuðumst, rökræddum, rifumst og skemmtum okkur saman. Þetta voru góð ár og fyrir þau er ég þakklátur.

Sama árið og Jónas lauk laganámi gekk hann að eiga Kristínu Gyðu Jónsdóttur, sem þá var fóstra en hefur síðan menntað sig frekar og starfar nú við félagsráðgjöf. Saman byggðu þau upp mjög fallegt heimili og studdu hvort annað í öllu sem takast þurfti á við. Dæturnar eru tvær, Guðrún, sem leggur stund á listfræði á Ítalíu, og Steinunn, sem les mannfræði við Háskóla Íslands.

Lífsferill Jónasar var farsæll. Hann hlífði sér hvorki í námi né starfi og kunni jafnframt að njóta þess fagra sem lífið hefur upp á að bjóða. Hann fór vel með þær náðargjafir, sem honum voru veittar. Hann var tryggur fólkinu sínu, góður vinum sínum og réttlátur skjólstæðingum sínum.

Á næstliðnu vori dró skyndilega fyrir sólu og mér er minnisstætt með hvílíkri ró og æðruleysi hann tók hinum válegu tíðindum. Hann barðist hetjulega meðan stætt var og Kristín og dæturnar með honum. En enginn má sköpum renna.

Í blóma lífsins hefur svipmikill samferðamaður, góður drengur og einlægur vinur verið kallaður á brott. Mestur er missir Kristínar og þeirra Guðrúnar og Steinunnar, sem sjá á bak tryggum eiginmanni og föður. Blessuð sé minning míns góða vinar.

Sigurður Björnsson.