Jónas Gústavsson - viðbót Fæddur 12. mars 1941 Dáinn 10. október 1993 Á einhverju fegursta hausti sem komið hefur kvaddi Jónas vinur okkar þetta jarðneska líf eftir erfið veikindi, langt um aldur fram aðeins 52 ára gamall. Sem betur fer veit enginn örlög sín fyrir og flest reiknum við með að ná að minnsta kosti meðalaldri. Þess vegna kemur okkur skelfilega á óvart þegar vinur á besta aldri fær þann dóm nánast fyrirvaralaust að hann sé haldinn sjúkdómi sem muni draga hann til dauða á stuttum tíma. Við sem eftir stöndum skiljum ekki þessi grimmu örlög.

Jónas Gústavsson var fæddur í Reykjavík 12. mars 1941. Foreldar hans, sem bæði eru látin, voru Gústav A. Jónasson ráðuneytisstjóri og Steinunn Sigurðardóttir Sívertsen húsmóðir. Jónas giftist eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristínu Gyðu Jónsdóttur, fóstru og félagsráðgjafa, 24. ágúst 1968 en þau héldu upp á silfurbrúðkaup sitt í fegursta sumarveðri fyrir aðeins rúmum mánuði. Jónas og Kristín eignuðust tvær elskulegar dætur þær Guðrúnu Helgu sem nemur listfræði við háskóla á Ítalíu og Steinunni nemanda í mannfræði við Háskóla Íslands.

Kristín og Jónas voru óvenju samrýnd hjón sem áttu mörg sameiginleg áhugamál. Þau fylgdust vel með starfi hvors annars. Þess er skemmst að minnast að þegar Kristín var í háskólanum þá fylgdist Jónas af miklum áhuga með námi hennar og hjálpaði henni eftir því sem hann gat. Kristín missir nú bæði góðan og umhyggjusaman eiginmann, og einnig sinn besta vin.

Í veikindum Jónasar kom vel fram styrkur Kristínar og æðruleysi þá rúma sex mánuði sem liðu frá því að veikindin komu í ljós og þar til yfir lauk. Hún gerði allt sem í hennar valdi stóð til þess að létta Jónasi lífið þessa síðustu mánuði. Það sama gerðu dæturnar Guðrún og Steinunn, þær sýndu föður sínum einstaka alúð og fórnfýsi í veikindum hans Það var áreiðanlega mikill styrkur fyrir móður þeirra hvað þær voru mikið hjá föður sínum á sjúkrahúsinu. Kristín stendur sig eins og sönn hetja og huggar vini þeirra og styrkir ef til vill meira en við styrkjum hana.

Í veikindum Jónasar kom einnig vel fram hversu góðar fjölskyldur hann og Kristín eiga. Öll lögðu þau sig fram um að gera honum tilveruna eins léttbæra og mögulegt var. Í langri sjúkralegu var auk þess huggun að vita hvað læknar og hjúkrunarfólk á Landakotsspítala hugsuðu vel um hann. Þar var vinur og skólafélagi Jónasar, Sigurður Björnsson læknir, ómetanlegur. Þau eiga þakkir skilið.

Það sakna margir vinar og ráðgjafa þegar Jónas er fallinn frá. Hann var einstaklega glöggur og fljótur að greiða úr flóknum málum. Hann hafði alltaf tíma fyrir vini sína þó að hann væri störfum hlaðinn. Sem dæmi um umhyggju Jónasar fyrir öðrum má nefna þá alúð sem hann sýndi Kristínu móður minni sem vann í 13 ár á kaffistofunni hjá borgarfógetaembættinu. Jónas sá jafnan til þess að henni yrði ekið heim ef eitthvað var að veðri en oftast ók hann henni þó sjálfur heim.

Jónas var góðum gáfum gæddur og fljótur að tileinka sér alls kyns tækninýjungar. Aldrei voru keypt tæki á mínu heimili nema fyrst að leita ráða hjá Jónasi. Hann fylgdist vel með þjóðmálum, var vel lesinn og hafði yndi af góðri tónlist. Hann naut þess að ferðast og þau Kristín hafa ferðast saman víða um heiminn. Við áttum góðar stundir með þeim á ferðalögum og hefðum gjarnan viljað eiga lengri samleið.

Þótt Jónas væri ekki mikill íþróttamaður varð skíðaíþróttin snemma eins konar ástríða hjá þeim hjónum og stunduðu þau hana af kappi. Skálafellið var uppáhaldsstaður þeirra og seinni árin fóru þau nokkrum sinnum suður til Austurríkis og nutu skíðasvæða í Ölpunum.

Margs er að minnast þegar menn hafa átt samleið nær alla ævi. Við Jónas vorum skólafélagar og vinir frá sjö ára aldri og fylgdumst að í skóla upp frá því, fyrst í Miðbæjarbarnaskólanum hjá fröken Þuríði og síðar í Menntaskólanum í Reykjavík og áfram í Háskóla Íslands. Menntaskólaárin rifja upp margar ljúfar minningar og ber hæst það samband sem skapaðist í fjögurra vina hópi okkar, Sigga Björns og Gunna Ben eins og þeir hétu þá. Sú vinátta hefur haldist óslitið síðan þó að bæði búseta erlendis og ólík störf hafi gert það að verkum að samverustundirnar væru færri en hugur bauð og símtöl á milli landa yrðu stundum að duga.

Það var gaman að heimsækja Jónas í Garðastrætið á uppvaxtarárunum. Þar var alltaf opið hús og Steinunn móðir hans sýndi okkur krökkunum mikla hlýju og ótrúlegt umburðarlyndi. Við vorum alltaf velkomin og lögðum við félagarnir gjarnan undir okkur allt húsið. Jónas var yngstur fjögurra systkina og bar Steinunn mikla umhyggju fyrir honum. Hún var okkur vinum hans sem móðir og góðar voru kökurnar hennar.

Samband okkar Jónasar styrktist enn frekar þegar við giftumst skólasystrum og vinkonum. Mikið og náið samband hefur alltaf verið milli heimilanna. Fyrstu búskaparárin bjuggum við öll í Vesturbænum en fluttum síðar með árs millibili í sama hverfi í austurborginni. Börnin okkar urðu skólafélagar og vinir. Við ferðuðumst saman bæði innanlands og utan. Fastur liður í mörg ár var að fara í útilegu í Þjóðgarðinn í Skaftafelli. Oft voru Siggi og Gullý með og einu sinni Gunnar og Sara sem búsett eru í Svíþjóð. Þetta voru yndislegar ferðir sem við munum sakna eins og alls sem við höfum gert saman. Það var dauflegt í Skaftafelli í sumar án Jónasar og Kristínar. Oft fórum við saman í sumarbústaði eða í bíó að ógleymdum öllum kvöldstundunum heima hjá þeim. Jónas hafði gaman af gestum og hann var höfðingi heim að sækja.

Það er mikið áfall að missa svo góðan vin. Eða eins og Stefán frá Hvítadal kemst svo vel að orði í erfiljóði þegar hann segir:

Er Hel í fangi

minn hollvin ber,

þá sakna ég einhvers

af sjálfum mér.

Skarð Jónasar verður aldrei fyllt. Með honum hverfur hluti af tilveru okkar sem kemur aldrei aftur en góðar minningar um horfnar samverustundir munum við alltaf eiga. Kristín, Guðrún og Steinunn eiga alla okkar samúð. Þær hafa misst mikið.

Við viljum að endingu kveðja Jónas vin okkar með eftirfarandi ljóðlínum úr kvæði eftir Einar Benediktsson.

Af eilífðarljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

Það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri en auga sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

Margrét Sæmundsdóttir,

Þorkell Erlingsson.