Marta Guðjónsdóttir - viðbót En meðan árin þreyta hjörtu hinna, sem horfðu eftir þér í sárum trega, þá blómgast enn, og blómgast ævinlega, þitt bjarta vor í hugum vina þinna. (Tómas Guðmundsson) Allt í einu er amma dáin og við sem héldum að hún ætti eftir að vera lengur hjá okkur. Við vorum alltaf velkomin til hennar, bæði í Berjanes og á Selfoss þar sem hún bjó síðustu árin. Hún tók okkur opnum örmum og áður en við vissum af var borðið hlaðið ótrúlega þunnum pönnukökum, kleinum og flatkökum. Hún kenndi okkur að baka flatkökur, sem urðu þó aldrei eins góðar og hjá henni. Og oftar en ekki vorum við leyst út með prjónuðum gjöfum.

Þó að barnabörnin og barnabarnabörnin væru orðin mörg þá fylgdist hún með okkur öllum og sendi okkur hlýjar kveðjur. Hún sá líka til þess að við vissum hvert af öðru, hún spurði frétta og sagði fréttir. Það var gaman að gleðja ömmu, hún kunni að meta það sem fyrir hana var gert. Okkur langar að kveðja hana og þakka fyrir okkur. Amma vissi að okkur þótti vænt um hana og við munum ekki gleyma henni.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Matthíasarbörn og fjölskyldur.