[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásgeir H Ingólfsson asgeirhi@mbl.is "GAURINN sem var að redda þessu öllu fyrir okkur hljóp annað slagið út úr bílnum, leitaði að fílnum og kom til baka með hann á eftir sér veifandi í allar áttir og svo var brunað af stað aftur.
Eftir Ásgeir H Ingólfsson

asgeirhi@mbl.is

"GAURINN sem var að redda þessu öllu fyrir okkur hljóp annað slagið út úr bílnum, leitaði að fílnum og kom til baka með hann á eftir sér veifandi í allar áttir og svo var brunað af stað aftur. Svona gekk þetta í 3 tíma og á endanum var fíllinn alveg útbrunnin á öllum djöflaganginum og hlaupunum. Við ákváðum að slútta þessu til að drepa ekki aumingja fílinn."

Umræddur fíll er kvikmyndaleikari í Bollywood, eins og sonur bloggarans sem vitnað er í hér að ofan. Feðgarnir, Heimir Sverrisson og Daníel Heimisson, eru í kvikmyndaveri í Bollywood, rétt hjá Mumbai (áður Bombay) í Indlandi, þegar ég heyri í þeim. Með þeim er Lilja Jónsdóttir en þau eru að taka upp þætti um ferðalög sín á Indlandi og um leið ævintýri Daníels í Bollywood-bransanum, þeim kvikmyndaiðnaði veraldar sem framleiðir flestar myndir á ári. Það er verið að taka upp þarna – frægar stjörnur sem tugir eða hundraðir milljóna dá – og þeir hafa ekki hugmynd um hverjir eru.

Þeir feðgar gerðu sambærilega þætti í fyrra, Krókaleiðir í Kína , þar sem þeir gistu á ódýrum bakpokahótelum, hjá búddamunkum og fjölskyldu í SOS barnaþorpi. Þá voru þeir bara með eina myndavél en fengu kvikmyndatökumanninn Lilju með núna. Þeir höfðu tengsl við Bollywood-stjörnuna Suchittra Pillai og hún kom þeim í samband við rétta manninn. "Þetta á í raun ekki að vera hægt. Það var búið að segja okkur að það væri algjörlega vonlaust mál að komast inn á sett og fá að taka upp. En við komumst í samband við mann sem heitir Pappu Khanna og hann hefur allt viljað gera fyrir okkur og opnað allar dyr." Pappu þessi er mikil vöxtum en þó magnaður dansari að sögn Heimis enda einn virtasti danshöfundur í Bollywood þar sem hann hefur stýrt dönsurum í 28 ár. Og það er nóg að gera "Hann semur dansa fyrir eina bíómynd í mánuði, tíu dansar í hverja mynd," segir Heimir enda lifa dans- og söngvamyndirnar enn mjög góðu lífi í Bollywood.

Í slagtogi með Bollywood-stjörnum og íslenskum fyrirsætum

Daníel hefur leikið í þremur tónlistarmyndböndum nú þegar. Í fyrstu tveimur var hann bara einn af dönsurunum en leikstjórinn var svo ánægður með hann að hann setti hann í aðalhlutverk í því þriðja þar sem hann fékk að leika guðinn Ganesha, aðalguð hindúa. Aðspurður segir Daníel að á settinu sé komið fram við hann eins og stjörnu; "allir að kyssa á mér fæturna og gefa mér gjafir." Hann hefur reynslu en var bara hent í djúpu laugina og "allt í einu kominn út á engi í appelsínugulum búningi að dansa." Hann er hins vegar mun vanari ferðalangur: "Þetta er bara mín sumarvinna," segir Daníel sem segir Indland mun skítugra, stærra og óskipulagðara heldur en Kína, enda Mumbai fjölmennasta borg veraldar.

Þeir feðgar bera Indverjum mjög vel söguna. "Við erum búnir að kynnast mjög skemmtilegu fólki hérna og ef mann vantar eitthvað er því reddað einn, tveir og þrír. Fólk er virkilega að leggja sig fram við að aðstoða mann," segir Heimir sem aldrei hefur kynnst öðrum eins liðlegheitum.

Ferðabakteríuna virðist Daníel hafa fengið í arf frá foreldrum sínum. "Ég hef alltaf bakpokast mikið," segir faðirinn sem segir Daníel einnig hafa ferðast mikið bæði með sér og mömmu sinni auk þess að búa erlendis. Þá hafi Lilja ferðafélagi þeirra verið í átta mánuði á Indlandi í fyrra, reynsla sem oft hafi komið sér vel. Þeir kjósa að vera ekki að þvælast á þessum hefðbundnu ferðamannastöðum, svona kynnist maður fólkinu og menningunni fyrir alvöru.

Daginn eftir að ég ræddi við feðgana var ætlunin að fara og mynda í hverfi sem venjulega er stranglega bannað að taka upp í, stærsta fátækrahverfi Asíu sem staðsett er í Mumbai. Eftir það ætla þau hins vegar að leggjast í ferðalög til þess að fá fjölbreyttari mynd af landinu. Þau eru ekki einu Íslendingar á svæðinu, Eskimó rekur öfluga módelsskrifstofu í borginni og þau hafa fengið að gista hjá þeim.

Kvikmyndaiðnaðurinn í Bollywood virðist ekki vera sá skipulagðasti. "Pappu og félagar virðast vinna eftir eyranu, fá einhverja hugmynd á tökustað og svo bara framkvæma þeir. Það er allt gert eftir hendinni og öskrað og gargað eftir þörfum," segir Heimir sem tekur fram að þeir séu aðallega að kanna Butch Bollywood senuna – þar sem ódýrar myndir eru framleiddar fyrir fátækari íbúa þjóðarinnar. "Flestar þessar myndir eru sýndar í gömlum bíóum án loftræstingar." Þeir eru hins vegar einnig búnir að kynnast leikstjórum dýrari myndanna og þar eru menn að láta sig dreyma um að komast frá Bollywood til Hollywood. Enda er Bollywood hægt og rólega að vinna lönd utan Indlands, til dæmis í Þýskalandi sem og nálægum Asíulöndum. En í Mumbai er Bollywood alls staðar. "Það er verið að búa til kvikmyndir út um alla borg, hvar sem maður fer," segir Heimir sem bloggar um ævintýrin auk þess að taka þau upp.

web.mac.com/hsverrisson