Ferðast mikið Ragnhildur Jónsdóttir hefur hug á að flytja erlendis og fara í frekara nám.
Ferðast mikið Ragnhildur Jónsdóttir hefur hug á að flytja erlendis og fara í frekara nám. — Morgunblaðið/G.Rúnar
Ragnhildur Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Greiningu Glitnis er ein þeirra sem spá í framtíð efnahagsmála hér á landi. Guðmundur Sverrir Þór bregður upp svipmynd af henni.
Greiningardeildir bankanna verða æ meira áberandi í umræðunni um viðskipta- og efnahagsmál. Deildirnar hafa vaxið ört og safnað að sér vel menntuðu ungu fólki. Ein þeirra sem gengið hafa til liðs við greiningardeildirnar er Ragnhildur Jónsdóttir sem starfar sem sérfræðingur hjá Greiningu Glitnis.

Ragnhildur er fædd í Reykjavík í nóvember 1979 og verður hún því brátt 28 ára. Hún er yngst þriggja systra og barnsskónum sleit hún að eigin sögn á Seltjarnarnesi. Í æðum hennar rennur landbúnaðarblóð því hún segir að þegar síðasti fuglinn var floginn úr hreiðrinu hafi foreldrar hennar söðlað um og gerst bændur í Breiðdal.

Tók hluta námsins í Jórvík

Ragnhildur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1999 og veturinn eftir það dvaldist hún í Þýskalandi og Frakklandi þar sem hún var við tungumálanám. Stúdentsprófið var reyndar ekki það eina sem hún hafði með sér úr Menntaskólanum því þar kynntist hún eiginmanni sínum, Tryggva Þorgeirssyni.

Þegar heim var komið lá leiðin beint í hagfræðinám við Háskóla Íslands þar sem hún lauk BS-gráðu árið 2003. Þegar BS-gráðan var innbyrt ákvað Ragnhildur að mennta sig enn frekar og fór hún því í framhaldsnám í hagfræði við HÍ. MS-gráðu lauk hún árið 2005 en hluta námsins tók hún við Háskólann í Jórvík á Englandi. En af hverju valdi hún hagfræði?

"Hagfræðin sameinar margt af því sem ég hafði áhuga á. Hún er praktísk og fjölbreytt. Svo spillir ekki að maður öðlast góða innsýn í efnahagslífið," segir Ragnhildur.

Þegar Ragnhildur var í námi starfaði hún samhliða því við stundakennslu í Háskólanum í Reykjavík en þar hafði hún umsjón með dæmatímum í þjóðhagfræði og fjármálum. Ennfremur kenndi hún hagfræði við gamla menntaskólann sinn. Að námi loknu hóf hún störf á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands og starfaði þar í 1½ ár í rannsókna- og spádeild sviðsins.

"Ég hóf síðan störf í Greiningu Glitnis í mars á þessu ári og líkar starfið mjög vel. Það er bæði lifandi og fjölbreytt. Ég starfa við greiningu efnahagsmála sem felur í sér greiningu á aðstæðum í hagkerfinu og framtíðarhorfum." En hvað gerir Ragnhildur þegar hún er ekki í vinnunni?

Fjallganga og kajak í Brasilíu

"Á sumrin fer ég mikið í gönguferðir og á veturna eru það skíðin sem heilla mest. Ég hef gaman af allri útivist og hreyfingu. Einnig finnst mér mjög gaman að ferðast og best er þegar ég get sameinað ferðalög og útivist, t.d. með því að fara í skíðaferðir til útlanda. Eftir útskrift úr háskólanum fór ég með systur minni í fjallgöngu- og kajakferð til Brasilíu og það var algjört draumafrí.

Mér finnst líka gaman að elda og njóta góðs matar í góðum félagsskap," segir Ragnhildur og bætir við að henni finnist gaman að læra eitthvað nýtt. "Þegar ég var í háskólanum fór ég eitt sumarið til Berkeley í Kaliforníu og tók námskeið í þróunarhagfræði, ljósmyndun og leiklist."

Spurð um framtíðaráformin segir Ragnhildur þau hjónin stefna á að flytja af landi brott eftir nokkur ár og fara í frekara nám.

sverrirth@mbl.is