Vígalegir Karlakór St. Basil í Hallgrímskirkju á Listahátíð í Reykjavík fyrir þremur árum. Hálærðir söngvarar með afar breitt raddsvið.
Vígalegir Karlakór St. Basil í Hallgrímskirkju á Listahátíð í Reykjavík fyrir þremur árum. Hálærðir söngvarar með afar breitt raddsvið. — Morgunblaðið/Árni Torfason
Eftir Helga Snæ Sigurðsson helgisnaer@mbl.is ALÞJÓÐLEGA tónlistarhátíðin í Reykholti, Reykholtshátíð, hefst í dag, ellefta árið í röð.
Eftir Helga Snæ Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

ALÞJÓÐLEGA tónlistarhátíðin í Reykholti, Reykholtshátíð, hefst í dag, ellefta árið í röð. Hátíðin vex og dafnar með hverju árinu sem líður, stjórnanda hennar, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, til mikillar ánægju.

"ÞAÐ hafa aldrei verið jafnmargir flytjendur frá jafnmörgum löndum á hátíðinni, sem er mjög ánægjulegt af því markmiðið í upphafi var að hluta til að gera þetta að alþjóðlegri tónlistarhátíð sem væri samkeppnisfær á alþjóðlegan mælikvarða. Það virðist takast því eftirsóknarverðir tónlistarmenn sækjast sjálfir eftir því að koma og taka þátt í hátíðinni. Það er hið besta mál," segir Steinunn Birna. "Þessi tónlistarhátíðaheimur er frekar lítill og það spyrst fljótt út hvaða hátíðir eru eftirsóknarverðar."

Nýtt íslenskt verk frumflutt

Steinunn segir hverja tónlistarhátíð hafa sínar séráherslur, og á Reykholtshátíð hafi áherslan verið lögð á klassísku verkin sem margir njóti þess að heyra. "Ég hef yfirleitt haft eitt frumsamið verk tileinkað hátíðinni á hverju ári. Í ár er það verkið Intermezzo sem er frumflutt á Íslandi, eftir Hjálmar H. Ragnarsson. Þetta er í raun ný útgáfa af verki sem hann samdi fyrir okkur 1997 og kallaði þá Vocalisu ." Verkið verður frumflutt kl. 16 á sunnudaginn í útsetningu Árna Harðarsonar.

Hinn mjög svo karlmannlegi karlakór St. Basil-dómkirkjunnar í Moskvu hefur hátíðina í kvöld kl. 20. Kórinn söng á Listahátíð í Reykjavík fyrir þremur árum og virðist hafa haldið ánægður af landi brott. Steinunn segir kórinn hafa lagt heilmikið á sig til að komast á hátíðina, því hann sé afar þétt bókaður allan ársins hring. "Þetta er miðaldatónlist, trúarleg, rússnesk rétttrúnaðarkirkjutónlist, sem þeir flytja í St. Basil dómkirkjunni í Moskvu og svo þjóðlög. Mér finnst þau mest hrífandi á efnisskránni."

Vonandi ekki grillveður

Steinunn segir raddsvið söngvaranna ótrúlegt, þeir renni sér upp í falsettu og svo "alveg niður í kjallara" í bassann. "17 Rebroffar," segir Steinunn og vísar þar í strigabassann Ivan Rebroff, sem getur einmitt farið úr kjallaranum og upp á háaloft. Hanna Dóra Sturludóttir sópransöngkona og eiginmaður hennar Lothar Odinius tenórsöngvari taka lagið á laugardaginn og Steinunn leikur með. Um kvöldið tekur við 20 manna strengjasveit frá Litháen, St. Cristopher.

"Hún er ótrúlega skemmtileg, agað fólk sem kann vel á hljóðfærin," segir Steinunn. "Sem betur fer er ekki spáð grillveðri. Það er versta tónleikaveðrið, þá vilja allir vera úti að grilla."

Í hnotskurn
» 49 tónlistarmenn koma fram á hátíðinni frá sex löndum.
» Karlakór St. Basil-dómkirkjunnar í Moskvu mun opna hátíðina í dag með tónleikum kl. 20 í Reykholtskirkju. Kórinn heldur aðra tónleika kl. 20 á morgun.
» St. Christopher strengjasveitin kemur fram á þrennum tónleikum, 28. júlí kl. 20 í Reykholtskirkju, 29. júlí kl. 16 og 31. júlí í Langholtskirkju, þar sem Diddú verður sérstakur gestur, kl. 20. Ný efnisskrá verður í hvert sinn.
» Hanna Dóra og Lothar syngja 28. júlí kl. 15. Steinunn Birna Ragnarsdóttir leikur með á píanó. Kvartettinn Hummel Ensemble heldur síðan tónleika 29. júlí, kl. 20. Nánar á www.reykholtshatid.is.