Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, hefur vakið máls á brýnu vandamáli sem er túlkun dómstóla á lagaákvæðum um utanvegaakstur.
Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, hefur vakið máls á brýnu vandamáli sem er túlkun dómstóla á lagaákvæðum um utanvegaakstur.

Í Morgunblaðinu í gær kemur fram að í lögum um náttúruvernd segi að bannað sé að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó sé heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis, svo fremi sem jörð sé snævi þakin og frosin.

Sýslumaðurinn á Selfossi segir að þarna megi greina skýlaust bann en dómstólar hafi túlkað lögin svo að ef einhvers staðar sé slóð þá sé mönnum refsilaust að fara hana. Ólafur Helgi segir:

"Enginn vill kannast við að vera fyrstur og aðrir sem á eftir koma virðast geta borið því við að þeir hafi verið að aka á slóð."

Sýslumaðurinn bendir á að þessi túlkun dómstóla kalli á "algera endurskoðun þessara laga þar sem löggjafarvaldið verður að gera upp við sig hvort það ætlar sér að taka á utanvegaakstri eða ekki."

Ellý Katrín Guðmundsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, tekur undir þessi sjónarmið sýslumannsins og segir í samtali við Morgunblaðið í gær:

"Þetta er vandamál og þarna er verk að vinna í þessum lagaramma, sem við vinnum eftir."

Ólafur Helgi Kjartansson hefur lög að mæla. Út um allt hálendi eru slóðir hér og þar. Það er auðvitað alveg ljóst að það var ekki markmið löggjafans að leyfa akstur á slíkum slóðum vegna þess að það mundi nánast þýða í reynd að fólk gæti keyrt um allt eins og því sýndist.

Það er í sjálfu sér umhugsunarefni hvers vegna dómstólar kjósa að túlka lagaákvæði um þetta efni á svo opinn máta. Það eru engin rök fyrir þeirri túlkun dómstóla. Í raun og veru er þessi túlkun fásinna. Með túlkun sem þessari er verið að gera kröfu um að orðalag lagagreina sé svo nákvæmt að það sé engin hugsanleg leið fyrir dómara að túlka þau lagaákvæði á annan veg en þann sem mælt er skýrt fyrir um. Þessi tilhneiging til lagatúlkunar sem erfitt er að færa rök fyrir hefur sést í öðrum málum.

En úr því að dómstólar eru komnir út í þennan farveg verður löggjafarvaldið að taka mið af því í lagasmíð sinni.

Í þessu tilviki hlýtur sú spurning að vakna hvort hægt sé að merkja þá vegi eða vegaslóða sem heimilt er að aka um með svo ótvíræðum hætti að enginn misskilningur geti komið upp.

Markmiðið með umræddum lagaákvæðum er að vernda náttúru Íslands. Það tekst ekki ef ökumenn vaða út um allt í óbyggðum í skjóli mjög hæpinnar túlkunar dómstóla á því hvað teljist vegir eða götuslóðar.

Hér er verk að vinna fyrir umhverfisráðherrann að koma þessum málum í viðunandi horf.