— Morgunblaðið/G.Rúnar
Flestir eru því verr settir nú hvað skuldir varðar en þeir hefðu verið ef lánshlutfallið í opinbera íbúðalánakerfinu hefði ekki verið hækkað.
ENN einu sinni eru fréttir af fasteignamarkaði á þann veg að umsvif séu mikil og að verð haldi áfram að hækka, þrátt fyrir að sérfræðingar hafi spáð því að það myndi fara að hægjast um. Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir þá sem eru að festa kaup á sinni fyrstu íbúð. Það sama á reyndar einnig við um þá sem eiga íbúð fyrir þó það gleymist oft, því aukin umsvif á fasteignamarkaði eru innspýting fyrir verðbólguna, og þar með fyrir öll verðtryggðu lánin.

Félagsmálaráðherra hefur stigið lítið skref til að vinna á móti þeirri þróun sem verið hefur með því að lækka lánshlutfallið hjá Íbúðalánasjóði úr 90% í 80%. Þar með leiðrétti ráðherrann þá undarlegu ákvörðun fyrrverandi ráðherra, rétt fyrir kosningar, að hækka hlutfallið. Einhverjir hafa gagnrýnt lækkun lánshlutfallsins nú og sagt það koma verst við þá sem síst skyldi. Þau viðbrögð eru í samræmi við það sem hefði mátt búast við þegar ekki er horft á dæmið í heild.

Helmingurinn af vandanum

Fyrir liggur, og um það þarf ekki að deila, að það voru mistök að hækka lánshlutfallið hjá Íbúðalánasjóði á árinu 2004, a.m.k. eins og sú aðgerð var framkvæmd. Þeir sem best þekktu til vöruðu við að ráðist yrði í þetta á sama tíma og fyrir lá að mikil þensla væri í þjóðfélaginu vegna virkjana og stóriðjuframkvæmda. Á það var ekki hlustað og árangurinn er sá að það er töluvert erfiðara nú fyrir fólk að festa kaup á sinni fyrstu íbúð en það var áður en lánshlutfallið var hækkað, þrátt fyrir að lánshlutfallið hafi verið lægra þá en það er nú. Auk þess hefur verðbólgan verið miklu meiri en hún hefði þurft að vera, beinlínis vegna ástandsins á fasteignamarkaðinum. Skuldir íbúðaeigenda hafa því aukist töluvert umfram það sem hefði þurft, en húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs hefur staðið fyrir um það bil helmingnum af þeirri gríðarlegu verðbólgu sem verið hefur hér á landi á umliðnum árum.

Flestir eru því verr settir nú hvað skuldir varðar en þeir hefðu verið ef lánshlutfallið í opinbera íbúðalánakerfinu hefði ekki verið hækkað. Það má því spyrja hvort ekki sé kominn tími til að gera meira en að lækka bara lánshlutfallið.

innherji@mbl.is